Þessi matcha skyrskál er algjört lostæti

Linda Benedíktsdóttir uppskriftahöfundur og sælkeri með meiru á heiðurinn að …
Linda Benedíktsdóttir uppskriftahöfundur og sælkeri með meiru á heiðurinn að þessari ofur góðu matcha skyrskál. Ljósmynd/Samsett

Hér höfum við ofur góða og næringarríka matcha skyrskál sem er algjört lostæti og kemur úr smiðju Lindu Benediktsdóttur uppskriftahöfundar sem heldur úti uppskriftasíðunni Linda Ben. Matcha er te sem er ofurfæða, rík uppspretta af andoxunarefnum og er allra meina bót. Þessi skyrskál sómir sér vel sem morgunverður og jafnvel sem úrvals hádegisverður. 

„Ég verð þó að viðurkenna að mér finnst það ekkert rosalega bragðgott svona eitt og sér. Ég reyni að fá mér matcha te inn á milli, en mér finnst miklu skemmtilegra að nota það í mat þar sem ég get svolítið dulbúið það og dregið fram bestu hliðar matcha tesins,“ segir Linda.

Aðspurð segir Linda að það sé til mynda alveg frábær leið til að borða meira matcha að setja það í skyr og jógúrt. Í þessari útgáfu setti Linda matcha hafraskyr með jarðarberjum, bætti síðan við örlitlu hunangi til að fá meiri sætu. „Þetta er algjört lostæti.“

Loks til að gera skyrið matar meira og næringarríkara er gott að bera það fram með blautum chia fræjum, granóla, berjum, bönunum og möndlusmjöri.

Matcha skyrskál að hætti Lindu Ben

  • 1 msk. chia fræ
  • 1 dl vatn
  • Hafraskyr með jarðarberjum
  • ¼  tsk. matcha
  • 1 tsk. hunang
  • Súkkulaðigranóla
  • ½ banani
  • Bláber eftir smekk
  • Hindber eftir smekk
  • 2 tsk. möndlusmjör


Aðferð:

  1. Setjið chia fræ og vatn í skál, hrærið saman og látið standa í u.þ.b. 10-15 mínútur.
  2. Setjið hafraskyrið í skál og bætið út í hana matcha, hrærið því saman við og setjið svo hunang út í og hrærið saman.
  3. Setjið hafraskyrið í aðra skál ásamt chia fræjunum og súkkulaðigranóla.
  4. Skerið bananann í sneiðar og bætið út á skálina ásamt berjunum, toppið með möndlusmjöri (Linda blandar stundum smá vatni saman við möndlusmjörið til að gera það þynnra svo hún nái að hella því meira yfir, en það er alls ekki nauðsynlegt að gera það).
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert