Sumarsalat og mangóís í anda Balí

Anna Guðný Torfadóttir heilsumarkþjálfi tók u-beygju í mataræði sínu aðeins …
Anna Guðný Torfadóttir heilsumarkþjálfi tók u-beygju í mataræði sínu aðeins 17 ára gömul og aðhyllist í dag plöntumiðað mataræði. Ljósmynd/Herry Santosa

Anna Guðný Torfadóttir heilsumarkþjálfi tók u-beygju í mataræði sínu aðeins 17 ára gömul, byrjaði með heilsublogg og fann ástríðu sína á nýjum vettvangi. Í dag er heldur hún úti sinni eigin heimasíðu þar sem hún deilir meðal annars uppskriftum og býður upp á lífsstílsbætandi námskeið á netinu.

„Þegar ég var 17 ára var ég að glíma við mjög mikla og langvarandi magaverki og vanlíðan sem varð til þess að ég tók algjöra u-beygju í mataræðinu. Ég tók út helstu óþolsvalda úr fæðunni og meðal annars glúten, mjólkurvörur og unna sætu, ásamt því að borða mun meira af ávöxtum og grænmeti en ég gerði áður. Umbreytingin sem ég upplifði var það mikil að ný ástríða fæddist og ég byrjaði með heilsubloggið heilsaogvellidan.com þar sem ég skrifa greinar, deili mínum eigin uppskriftum og býð upp á lífsstílsbætandi netnámskeið,“ segir Anna.

Tileinkaði sér plöntumiðað mataræði

Anna byrjaði að tileinka sér nýtt mataræði sem átti eftir að breyta hennar líðan. „Að tileinka mér plöntumiðað mataræði varð ekki bara til þess mér leið betur í líkamanum heldur leið mér svo miklu betur andlega líka. Þetta snýst þó í rauninni ekki um hvað mataræðið heitir. Aðalatriðið er að hver hlusti á sinn einstaka líkama og gefi honum meira af því sem veitir manni vellíðan og minna af því sem veldur manni vanlíðan.“

Hvernig lítur hefðbundinn dagur út hjá þér þegar kemur að því að raða saman matseðli fyrir daginn?

„Verandi sjálfstætt starfandi með marga bolta á lofti eru engir tveir dagar eins. En mér finnst mjög gott að byrja daginn á heimagerðum chiagraut eða ef ég hef nægan tíma, þá byrja ég fyrst á einum bolla af ceremonial-kakói ef það er það sem kerfið mitt kallar á og set þá út í hann heilsubætandi jurtir. Það skiptir mig miklu máli að lesa í líkamann minn á hverjum morgni og hlusta á hvað það er sem ég þarf á að halda þann morguninn. Það er mér mikilvægt að eiga stund með sjálfri mér í rólegheitunum þar sem ég hugleiði, geri morgunskrif og stutt jógaflæði. Þetta setur svo góðan tón í daginn. Í hádeginu er ég oftast að kenna jóga svo ég geri mér gjarnan góða smoothie-skál eftir það eða borða það sem var í matinn kvöldið áður. Ef hungur myndast yfir miðjan daginn finnst mér gott að gera mér grænan þeyting, fá mér krukkugraut eða grípa í ferska ávexti. Eins að passa að drekka nóg af vatni á milli máltíða en ekki með máltíðum til að koma í veg fyrir uppþembu. Í kvöldmatinn elda ég það grænmeti sem er til og ber það til dæmis oft fram í skál, til að mynda kínóa, tahini-sósu, súrkál og ferskt salat.“

Finnst þér skipta miklu máli hvað þú borðar þegar kemur að því að huga að orku og úthaldi?

„Já, öllu máli. Ég finn mikinn mun á líkamanum og andlegri líðan þegar ég næri mig með heilsubætandi fæðu og þegar ég geri það ekki. Það er mjög magnað að sjá hvað fæðan er máttug til þess að færa manni ennþá meiri orku, lífsgleði og vellíðan. Það sem er þó ennþá magnaðra er að ef ég er erlendis í fríi eða úti á landi þá get ég leyft mér meira í fæðunni sem færi með mig á hliðina í hraða lífsins. Þannig að að mínu mati er þetta allt tengt og svo mikilvægt að huga að öllum þáttum lífsstílsins til að koma á góðu jafnvægi á andlegri og líkamlegri líðan.“

Fræðandi uppskriftakúrs

Þessa dagana er Anna með nýtt netnámskeið til að aðstoða fólk til að koma hollustunni meira að.

„Á heimasíðu minni heilsaogvellidan.com er ég nýbúin að gefa út netnámskeiðið Hollt gert einfalt sem er fræðandi uppskriftarkúrs þar sem fólk getur lært á sínum hraða hvernig má koma meira af hollri fæðu í mataræðið sitt án þess að fara á eitthvert ákveðið mataræði. Einnig er ég með netnámskeiðið Endurnærðu þig sem er 6 mánaða heildrænt námskeið sem einblínir á bæði mataræði, hreyfingu, svefn og andlega heilsu. Það námskeið er með góðum og persónulegum stuðningi frá mér og er aðalmarkmið námskeiðsins að hjálpa fólki að öðlast meira jafnvægi, vellíðan og hugarró. Að hjálpa hverjum og einum að hlusta á sinn líkama. Einnig er ég með Instagram-reikninginn @heilsaogvellidan þar sem ég deili hvatningu, uppskriftum og fróðleik er varðar heilsusamlegan lífsstíl,“ segir Anna.

Anna deilir hér með lesendum tveimur af uppskriftum sem eiga vel við sumarið, að frískandi sumarsalati og mangóís sem á eftir að slá í gegn og gerður er í anda Balí.

„Þegar salatið er útbúið má að sjálfsögðu nota þau hráefni sem eru til að hverju sinni og hverjum og einum þykir góð. En þetta er það sem ég setti saman og finnst koma mjög vel út saman. Og magninu getið þið stýrt sjálf.“

Ómótstæðilega girnilegt og frískandi salatið hennar.
Ómótstæðilega girnilegt og frískandi salatið hennar. Ljósmynd/Anna Guðný Torfadóttir

Frískandi sumarsalat að hætti Önnu

  • Radísuspírur
  • Bakað brokkolí
  • Ferskt lambhagasalat
  • Rifnar gulrætur
  • Rauðmeti – súrkál
  • Ristaðar valhnetur
  • Tahini-sósa
  • Tahini-sósa
  • 2 msk. ljóst tahini
  • 3 msk. heitt soðið vatn
  • ½ msk. sítrónusafi
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 tsk. tamari-sósa
  • ½ tsk. paprikuduft
  • Gróft salt eftir smekk
  • Sítrónupipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hrærið öllum hráefnunum saman með písk í skál.
  2. Leyfið sósunni að kólna í loftþéttri krukku inni í ísskáp áður en þið berið hana fram.

Mangóís

  • 2 bollar frosið mangó
  • 2 bollar frosinn ananas
  • Safi úr ½ – 1 appelsínu
  1. Setjið öll hráefnin saman í matvinnsluvél þangað til allt er vel blandað saman.
  2. Ef matvinnsluvélin ræður ekki við þetta setjið þá örlítið meiri safa út í eða jafnvel vatn.
  3. Mikilvægt að stoppa af og til og skafa með fram hliðum í matvinnsluvélinni og láta vélina reyna að vinna þetta án þess að setja mikinn vökva svo þetta verði ís en ekki drykkur.
Mangóísinn er í anda Balí og með suðrænu ívafi.
Mangóísinn er í anda Balí og með suðrænu ívafi. Anna Guðný Torfadóttir
Anna Guðný nýtur þess að fara í ferðir sem eru …
Anna Guðný nýtur þess að fara í ferðir sem eru gefandi fyrir líkama og sál. Ljósmynd/Herry Santosa
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert