Nýbakað croissant með parmaskinku, ommelettu og osti

Að færa ástinni sinni morgunverð upp í rúm er ást.
Að færa ástinni sinni morgunverð upp í rúm er ást. Ljósmynd/Sjöfn

Langar þig að koma ástinni á óvart og gleðja hana með morgunverði í rúmið? Þá er þessi samsetning af unaðslega ljúffengu croissant fullkomin til að bræða hjarta ástarinnar. Málið er að vakna snemma og fara í gott bakarí og næla sér í nýbakað croissant sem er bakað á franska vísu og toppa það með áleggi sem getur ekki klikkað. Þeir sem eru lengra komnir í bakstri og hafa nógan tíma geta auðvitað bakað croissant eftir sínu eigin höfði. Hér er á ferðinni sælkera croissant með lítilli ommelettu, osti og léttsteiktri parmaskinku. Uppskriftin er fyrir tvo.

Unaðslega ljúffengt croissant

  • 2 stk. nýbökuð frönsk croissant
  • 4 sneiðar parmaskinka
  • 2 ostsneiðar af eigin vali
  • 2 egg (fyrir ommelettuna)
  • Gróft salt og pipar eftir smekk
  • Létt majónes eftir smekk
  • Sætt franskt sinnep eftir smekk
  • Ólífuolía til steikingar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að píska eitt egg í eina ommelettu.
  2. Hitið ólífuolíu á lítilli pönnu.
  3. Hellið egginu á pönnuna og matreiðið ommelettu án þess að brjóta hana saman.
  4. Kryddið með salti og pipar eftir smekk.
  5. Gerið tvær svona litlar ommelettur.
  6. Léttsteikið síðan 4 sneiðar af parmaskinku.
  7. Skerið bæði croissant-inn í miðjuna, þversum.
  8. Smyrjið botnana tvo með örlitlu létt majónesi og sætu sinnepi.
  9. Setið tvær sneiðar af parmaskinku á hvorn botn.
  10. Bætið við ostasneið á hvorn botn.
  11. Setjið loks ommelettuna yfir á hvorn botn.
  12. Leggið lokið á hvort croissant-ið fyrir sig.
  13. Berið fallega fram á disk og með appelsínusafa með. Mjög gott er að bjóða upp á nýkreistan og ferskan safa með.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert