Veitingafélagið ehf., sem rekur meðal annars matsölustaðinn Hlöllabáta, hefur tekið yfir rekstur á veitingakeðjunni Mandi.
Mandi býður upp á mið-austurlenskan mat á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, í Hæðasmára 6, Faxafeni 9 og Veltusundi 3b auk þess að reka öfluga veisluþjónustu.
„Á því ári sem við höfum verið við stjórnvölinn höfum við öðlast mikla trú á Mandi og sérstöðu þess á skyndibitamarkaði og aðlagað reksturinn við aðra staði sem við rekum. Við höfum þróað spennandi vörulínu undir merkjum Mandi sem fljótlega fer í sölu. Einnig höfum við sett upp veitingavagn sem hægt er að panta í veislur líkt og við höfum verið að bjóða upp á með Hlöllavagninn með góðum árangri,“ segir Jón Friðrik Þorgrímsson, framkvæmdastjóri félagsins, í tilkynningu.
Veitingafélagið ehf. á og rekur í dag níu skyndibita- og veitingahús; undir merkjum Hlöllabáta á Bíldshöfða, Bústaðavegi, Smáralind og í hraðhöll Orkunnar Hagasmára 9; Burgeis í hraðhöll Orkunnar Hagasmára 9, þá er Bankinn Bistro (áður Barion Mosó) í Mosfellsbæ og Mandi Faxafeni, Hæðarsmára og Veltusundi.
Veitingafélagið er dótturfélag Fasteflis ehf. sem er í eigu Óla Vals Steindórssonar.
„Það hefur verið mikill uppgangur hjá okkur síðastliðið ár þar sem við fórum úr því að eiga og reka tvö vörumerki á fjórum stöðum í fjögur vörumerki á níu stöðum. Það eru spennandi tímar fram undan þar sem við erum hvergi nærri hætt,“ er enn fremur haft eftir Jóni Friðriki.