Linda Benediktsdóttir eldhúsgyðjan og uppskriftarhöfundur, sem heldur út i uppskriftarsíðunni Linda Ben, er farin að hlakka til sumarsins og njóta kræsinganna sem því fylgir. Hún er mikill ástríðukokkur sem kann svo lista vel að framreiða kræsingar fanga bæði augu og munn.
Matur og munúð eiga vel við þegar Linda og fjölskyldan ferðast innanlands og lautarferðir og gönguferðir eru eitt af því sem fjölskyldan er dugleg að stunda á sumrin. Þá skiptir nestið miklu máli og gott nesti gerir upplifunina enn skemmtilegri að mati Lindu.
Á sumrin leyfir Linda matarástríðunni að blómstra og nýtur þess sem sumarið hefur upp á að bjóða þegar kemur að mat. „Á sumrin er svo mikið af góðum ávöxtum og berjum í boði, sem ég elska, svo ég borða mjög mikið af þeim. Ferskjur eru til dæmis uppáhaldssumarávöxturinn minn. Við ferðumst mjög mikið innanlands á sumrin og því fylgir auðvitað að maður grillar talsvert meira sem er ótrúlega skemmtilegt. Grillaður fiskur er í miklu uppáhaldi hjá mér. Einnig er svo mikið til af fersku og góðu íslensku grænmeti í búðunum sem mér finnst æðislegt að gera góð salöt eða samlokur úr,“ segir Linda.
Aðspurð segir Linda að hún eigi erfitt með að gera upp á milli hvort sé skemmtilegra að matreiða eða baka á sumrin. „Ég á erfitt með að gera þar upp á milli. Það er fátt betra en góður grillaður fiskur. Salöt eru alltaf svo sumarleg og ljúffeng. Ég geri líka ótrúlega mikið af samlokum til að taka með í nesti þegar við förum í lautarferð eða gönguferð með krakkana þegar við erum á ferðalagi. Þegar kemur að bakstri þá finnst mér allt með sítrónu svo sumarlegt og gott, ég elska að baka góða sítrónuköku til dæmis. En svo ættu allir að grilla ananas og bera fram með ís einu sinni á hverju sumri, það er svo ótrúlega gott,“ segir Linda og er orðin spennt fyrir grillsumrinu.
Um hvítasunnuhelgina fær Linda smá frí frá eldamennskunni. „Mér er boðið í brúðkaup um helgina sem ég er ótrúlega spennt fyrir. Þar verður dekrað við okkur gestina og ég því í fríi frá eldamennskunni. Daginn eftir brúðkaupið þá má vel vera að maður smelli í mjúku kanilsnúðana góðu en með sítrónu- og bláberjafyllingunni, þeir eru svo sumarlegir og góðir.“
Í tilefni þess að það styttist óðum í sumarfrí í skólum og sumarið fer vonandi að láta sjá sig deilir Linda með lesendum uppskrift að dýrindis samlokum, með sumarlegu ívafi, sem eru fullkomnar í ferðalagið eða gönguna um helgina. Hér eru á ferðinni kjötsamlokur sem rífa aðeins í og bjóða bragðlaukunum upp í dans.
„Uppskriftin er miðuð við eina samloku, maður margfaldar svo magnið með þeim fjölda samloka sem maður þarf,“ segir Linda.
Sumarlegar kjötsamlokur með sterku pestói
Aðferð:
1. Kveikið á ofninum og stillið á 200°C, undir- og yfirhita.
2. Setjið smjörpappír á ofnplötu og bakið beikonið inni í ofni í u.þ.b. 10-15 mínútur eða þar til það er orðið eldað og stökkt.
3. Smyrjið brauðsneiðarnar með chili-pestói. Setjið því næst skinku á aðra brauðsneiðina, pepperóní ofan á skinkuna og svo beikonsneiðarnar ofan á það. Leggið ostinn yfir beikonið. Bakið í u.þ.b. 5 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður.
4. Skerið tómatinn niður og paprikuna á meðan brauðið er inn í ofninum. Leggið salatið og rauðkálið ofan á ostinn, því næst tómatsneiðarnar og paprikuna.
5. Lokið samlokunni og njótið.