Veitingastaðurinn og barinn Skreið opnaði dyrnar í febrúar síðastliðnum við góðar undirtektir. Fjölmargir gesta hafa lagt leið sína á staðinn í leit að góðri stemningu, drykkjum og spænskum tapasréttum. Matargerðin hefur vakið mikla hylli gesta og drykkirnir slegið í gegn.
Mikill metnaður er í fyrirrúmi þegar hráefnin eru valin bæði í mat og drykki og nú hafa Birna Hrönn Gunnlaugsdóttir viðskiptastjóri Vaxa og Davíð Örn Hákonarson matreiðslumeistari, umsjónarmaður sjónvarpsþáttanna Matarboð hjá sjónvarpi Símans og einn eigenda Skreiðar leitt saman krafta sína og samstarfið hefur leitt af sér m.a. sumardrykk þar sprettur frá Vaxa koma við sögu sem er uppáhaldsvara þeirra beggja.
„Ég er þannig gerð að ég vill hafa nóg að gera og það flækist ekkert fyrir mér að finna ný verkefni til þess að demba mér í. Þess vegna vinnum við Davíð svona vel saman, hann er alveg eins og því sameinum við krafta okkar saman. Ég kem með hráefnið og pælingar, hann tekur þær síðan lengra eða snýr hugmyndinni alveg á hvolf og kemur svo afurðinni í framkvæmd sama hvort um ræðir mat eða drykk. Davíð tekst alltaf að klára hugmyndirnar fáránlega vel, eiginlega alltof vel,“ segir Birna.
Aðspurð segir Birna að það sé hreinlega fyndið að segja frá því hvernig samstarf þeirra hófst. „Ætli það hafi ekki verið daginn eftir að ég hitti Davíð í eignin persónu. Fyrir það vorum við alltaf í tölvupóst samskiptum, hann að panta vörur frá mér og biðja mig um að prófa hinar og þessar vörur fyrir sig. Svo kemur það til að ég hitti hann, daginn eftir tek ég upp símann, hringi í hann, það fyrsta sem ég læt út úr mér án þess að segja hæ: „Ég er með íslenskt gæða hráefni og þú ert matreiðslumeistari, útkoman getur ekki klikkað.“ Hann hló og svaraði: „Ég er klár‘“. Ætli það hafi ekki verið nokkurn veginn svona sem boltinn byrjaði að rúlla og við höfum ekki stoppað síðan.“
Fallegt íslenskt orð
Eins fyrr segir á Davíð staðinn ásamt félögunum Ásgeiri Guðmundssyni og Steinþóri Helga Arnsteinssyni sem eiga einnig barinn Röntgen. Davíð er beðinn að útskýra nafnið á staðnum, Skreið, og fléttir ofan af tilurð þess. „Með nafni staðarins erum við að vitna í stofnun ÁVR, eða ÁTVR eins og það heitir í dag, en það var þegar Spánverjarnir þvinguðu okkur til að taka vín sem greiðslu í staðinn fyrir peninga fyrir skreiðina okkar. Orðið „saltfiskur“ var ekki beint aðlaðandi sem nafn á staðinn, eða „bacalao“, en okkur langaði að nota fallegt íslenskt orð og vandist orðið „skreið“ mjög vel. Skreiðin er að öllu leyti útflutt til Afríku í dag en ég mun leika mér með hana og gera tilraunir þegar fram líða stundir. Þetta er sérstakt hráefni sem maður sér ekki mikið á Íslandi.“
Sérstaða staðarins er einföld og skýr fyrir Davíð. „Lykillinn er að nota gæða vöru sem ég veit hvaðan kemur,“ segir Davíð. „Ég, Steinþór og Ásgeir deilum sameiginlegri ástríðu á spænskum mat og innblásturinn af matargerðinni sækjum við úr ferðum okkar til Baskalandsins. Tapasréttir og spænskur matur er einfaldur að mörgu leyti en er pakkaður af brögðum sem minna mann á sólina og suðrænt líferni. Staðurinn sjálfur er hannaður með því til hliðsjónar og við reyndum að fanga þá stemningu og brag eins og mögulegt var, með stutt á milli borða, hlýlega lýsingu og liti.“
Nú eru þið búin að vera þróa nýjan sumardrykk, segið okkur aðeins frá honum og hvernig hann varð til?
„Það var nú einfaldlega þannig að uppáhaldsvaran okkar beggja er Sprettur (e. Microgreens). Sprettur er í raun allt sem þarf að mínu mati, hvort sem það er matur eða drykkur. Þær eru ótrúlega bragðgóðar, fallegar, stútfullar af vítamínum, næringu og steinefnum og það lang besta við þær er auðvitað að þær eru ræktaðar í Reykjavík, varan er uppskorin og getur verið mætt á diskinn þinn sama dag. Gerist ekki mikið grænna en það,“ segir Birna.
„Ég er með óteljandi margar tegundir af sprettum hjá Vaxa og okkur langaði að gera eitthvað meira með þær, við tókum eina tegund fyrir til þess að byrja með og fyrir valinu varð uppáhaldssprettan hans Davíðs og er lykillinn í drykknum. „Marigold“ eða Morgunfrú á íslensku. Bragðið er beiskt, með myntu í undirtón. Hún er stökk, blöðin græn og stilkarnir eru bleikir. Næringarinnihaldið í til dæmis Marigold er A, C, K vítamín, fólinsýra og er hún mjög trefjarík. Drykkurinn verður að veruleika þegar Davíð ásamt Helga Snæ Keld, barþjóni á Skreið hristu saman krafta sína og útkoman er óaðfinnanleg og ég held að við getum öll sammælst um það að ekkert er betra en ganga í miðbænum á sólríkum degi og koma svo við á Skreið að svala þorstanum með Morgunfrúnni,“ segir Birna. Davíð og Birna ljóstra hér upp leyndardómsfullu uppskriftinni bak við Morgunfrúna sem gæti orðið heitasti sumardrykkurinn í ár.
Morgunfrúin
Skraut:
Aðferð:
1. Setjið allt hráefnið í kokteilhristara nema sódavatnið.
2. Hristið vel, hellið í kokteilglas á fæti, toppið með sódavatni og skreytið með sítrónu, blóðbergi og laufi af Marigold.