Eva María Hallgrímsdóttir ástríðubakari og eigandi Sætra Synda kom öllum á óvörum og töfraði fram dýrindis skonsutertu með tengdapabba sínum sem Instagramara misstu sig yfir. Hér er á ferðinni algjör nostalgía, skonsuterta með rækjusalati sem minnir á eitís tímabilið. Þessa verða allir sem elska rækjubrauðtertu að prófa. Spurning hvort Eva María muni bjóða þessa til sölu á kaffihúsinu sínu Sætar Syndir. Uppskriftinni deildi Eva María á Instagram reikning sínum @evamairasaetar
„Uppskriftin kemur frá tengdamömmu Óla en hún bakaði skonsur og seldi í Kaupfélaginu á Hólmavík í kringum árin 1978-1985. Skonsutertan var alltaf með vinsæl með bauna- og hangikjötssalati og má segja að skonsuterturnar hafi verið undanfari brauðtertna,“ segir Eva María.
Skonsutertan er skreytt og toppuð með gúrku, tómötum og rækjum.
Ljósmynd/Aðsend
Skonsuterta a la Óli Bjössi tengdapabbi
Skonsur
- 3 bollar hveiti
- 3 egg
- ½ bolli sykur
- 3 tsk. ger
- 1 tsk. natron
- 50 g smjör brætt
- ½ tsk. salt
- Mjólk eftir þörfum
- Smjör eða ólífuolía fyrir steikingu
Aðferð:
- Setjið allt hráefnið saman í skál og hrært vel saman, passið að ekki myndist kekkir.
- Pönnukökupanna eða stór panna sem passar vel fyrir stórar skonsur hituð og borin á hana ólífuolía eða smjör ef þarf.
- Deigið sett á pönnuna með stórri ausu og skonsurnar steiktar á meðalháum hita.
- Þegar það fara myndast holur í deigið er skonsunum snúið við með pönnukökuspaða eða steikarspaða.
- Raðið skonsunum á disk eða kökugrind og kælið fyrir samsetningu á skonsutertunni.
Rækjusalat
- 400 g pillaður rækjur afþíddar rækjur
- 5 harðsoðin egg
- 350 ml majónes
- Aromat krydd eftir smekk
Aðferð:
- Byrjið á því að setja majónes í skál og hrærið saman og kryddið til með Aromat kryddinu og smakkið til.
- Bætið við rækjum og eggjum sem búið er að skera niður með eggjaskerara.
- Hrærið varlega saman og geymið í kæli fyrir samsetningu.
Skraut:
- Gúrkusneiðar eftir smekk
- Litlir kokkteiltómatar eftir smekk
- Rækjur
Aðferð við samsetningu:
- Setjið skonsutertuna saman með því að setja fyrst eina skonsu á kringlóttan disk og smyrjið með rækjusalati og aðra kolli af kolli.
- Þegar það eru komin fjögur lög dreifið þá rækjusalati yfir efstu hæðina og skreytið með gúrku og tómötum eftir smekk.