Elítupasta af Álftanesi

mbl.is/MMWJ

Þegar ferskt pasta hittir kjúkling, sítrónur, matreiðslurjóma, rjómaost og steinselju þá gerast töfrarnir. Þetta er ekta spariréttur sem gott er að útbúa til hátíðabrigða. Hann er einfaldur og fljótlegur. Það sem gerir þennan rétt sérlega góðan er að nota malaðar chili flögur í réttinn. Best er að kaupa þurrkaðar chili flögur og setja í piparkvörn og mala þær þannig. Þetta pasta er ljómandi gott nýeldað en það er líka mjög gott kalt og hægt að borða í morgunmat daginn eftir ef fólk vaknar mjög svangt.

Elítupasta af Álftanesi 

(Þessi uppskrift miðast við sex manneskjur)

  • 2 kjúklingabringur
  • 1 msk. olía eða smjör til steikingar
  • 4 dl matreiðslurjómi 
  • 1 dl rjómaostur
  • 3 hvítlauksrif
  • malaðar chili flögur eftir smekk
  • safi úr þremur sítrónum
  • 1 lífrænn kjúklingateningur
  • fersk steinselja eftir smekk
  • 4 pakkar ferskt pasta
  • Parmesan ostur eftir smekk

Aðferð

  1. Skerðu kjúklingabringurnar niður í þunnar sneiðar.
  2. Settu olíu/smjör á pönnu og steiktu kjúklingabringurnar þannig að þær verði eldaðar í gegn.
  3. Stráðu salti og möluðu chli út á.
  4. Kreistu safa úr þremur sítrónum og bættu út á kjúklinginn.
  5. Heltu matreiðslurjómanum út á og hrærðu allt vel saman.
  6. Bættu rjómaostinum við blönduna og hræðu vel saman og þá þykknar sósan.
  7. Taktu kjúklingateninginn og myldu hann í höndunum út á kjúklinginn og rjómablönduna og hrærðu vel saman þannig að blandan verði ekki kekkjótt.
  8. Afhýddu hvítlauksrifin og merðu þau með hníf og skerðu smátt og bættu út á.
  9. Smakkaðu til og bættu salti og chili út í og láttu suðuna koma upp.

Hvernig á að sjóða ferskt pasta?

  1. Settu vatn í stóran pott og láttu suðuna koma upp.
  2. Settu salt út í og msk. olíu áður en pastað er sett út í það.
  3. Láttu það sjóða í um það bil þrjár mínútur.
  4. Heltu pastanu úr pottinum í stórt sigti og skolaðu með köldu vatni.
  5. Settu pastað í skál og heltu kjúklinga-sítrónu-rjómasósunni út á.
  6. Skreyttu með ferskri steinselju og parmessan osti.
  7. Gott er að hafa gróft salt á borðinu svo hver og einn geti saltað eftir smekk. 
mbl.is/MMWJ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert