Grillaður hamborgari toppaður með jalapeno-majó

Girnilegur hamborgarinn hennar Berglindar Hreiðars toppaður með þessari dásamlegu dressingu.
Girnilegur hamborgarinn hennar Berglindar Hreiðars toppaður með þessari dásamlegu dressingu. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Það hlýtur að styttast óðum í grillsumarið og eitt það einfaldasta í heimi sem hægt er að grilla er góður hamborgari. Hann getur eiginlega ekki klikkað. Hægt er að gera hamborgara með mörgum útfærslum og það er upplagt að prófa að leika sér með allskonar dressingar, meðlæti og osta. Berglind Hreiðars köku- og matarbloggari sem heldur úti uppskriftarsíðunni Gotterí og gersemar hefur mikið dálæti af því að prófa sig áfram með nýjar hugmyndir af grillmat og meðal annars útfærslum á hamborgurum.

Nýjasta útfærslan hennar er hamborgari með jalapeno-majónes sem að hennar sögn kom hrikalega vel út og kveikjuna fékk hún eftir að hafa verið í matarboðið hjá vinahjónum. Þessi dressing gæti vel orðið sumardressing í ár fyrir hamborgarann. Nú er bara að prófa.

Hamborgari með jalapeño-majó

Fyrir 4

  • 4 x 200 g hamborgari + brauð
  • 4 ostsneiðar (þykkar)
  • 4 stórir portobello sveppir
  • Kál eftir smekk
  • Tómatsneiðar eftir smekk
  • Rauðlaukssneiðar eftir smekk
  • Smjör til steikingar fyrir sveppi
  • 1 poki franskar að eigin vali sem meðlæti
  • Salt, pipar, hvítlauksduft, hamborgarakrydd eftir smekk
  • Jalapeño majónes (sjá uppskrift að neðan)

Aðferð:

  1. Útbúið jalapeño majónesið og setjið í kæli.
  2. Hitið franskarnar samkvæmt leiðbeiningum á pakka og hitið grillið þegar þær eru komnar í ofninn.
  3. Skerið allt grænmeti niður og steikið sveppina upp úr smjöri og kryddið að vild, geymið.
  4. Grillið hamborgarana og raðið síðan öllu saman og setjið vel af majónesi.
  5. Njótið með frönskum og meira jalapeño majónesi til að dýfa frönskunum í.

Jalapeño-majónes

  • 300 g majónes
  • 3 msk. smátt saxað jalapeño úr krukku
  • ½ lime (safinn)
  • 3 hvítlauksrif (rifin)
  • Salt og pipar eftir smekk
  1. Pískið allt saman og geymið í kæli fram að notkun.
  2. Gott að nota bæði á hamborgarana og með frönskunum. 
Hægt er að leika sem með útfærslu á meðlætinu með …
Hægt er að leika sem með útfærslu á meðlætinu með hamborgaranum og velja sér dressingu eða sósu við hæfi. Ljósmynd/Berglind Hreiðars
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert