Unaðslega góður harissa-kjúklingur

Unaðslega góður harissa-kjúklingur sem bráðnar í munni.
Unaðslega góður harissa-kjúklingur sem bráðnar í munni. Ljósmynd/Aðsend

Ekkert er betra en grillaður, meyr og djúsí kjúklingur sem veitir manni unað. Nýjasta maríneringin á kjúkling og gæti orðið sú heitasta er harissa-mauk frá Túnis. Þetta er trúlega ein auðveldasta leiðin til að grilla kjúkling og brenna ekki maríneringuna. Bragðið fer með þig í hæstu hæðir. Þessi uppskrift er unaðslega góð og kjúklingurinn bráðnar í munni, þarf ekki meira. Hver og einn getur valið sér meðlæti, það er hægt að útbúa sumarlegt salat, grilla kryddaðar kartöflur, sjóða grjón eða útbúa góðar franskar kartöflur með þessum grillaða harissa-kjúkling. Þú velur eftir þínum smekk. 

Harissa-kjúklingur

  • 1 pk. kjúklingaleggir
  • 1 pk. úrbeinuð kjúklingalæri
  • 1 krukka harissa-kryddmauk frá Mabrúka eða heimalagað harissa-kryddmauk
  • Ólífuolía eftir smekk
  • Ferskt kóríander til skrauts

Aðferð:

1. Byrjið á því að setja harissa-mauk í litla skál eða könnu og blandið örlítilli ólífuolíu saman við til að drýgja maukið og svo auðveldara sé að pensla kjúklinginn með maukinu.

2. Raðið kjúklingaleggjunum og úrbeinuðu lærunum á álbakka og penslið harissa-maukinu yfir alla kjúklingabitana og látið marínerast í 1–2 klukkustundir.

3. Hitið grillið vel.

4. Grillið kjúklinginn fyrst á álbökkunum og lokið í stutta stund. Þegar það er stutt í að kjúklingurinn verið fulleldaður, setjið þá kjúklingabitana aðeins á grillið, teinana, til að fá þessa krispí áferð. Gott að miða við að hafa kjúklinginn á álbökkunum í um það bil 20-25 mínútur á háum hita.

5. Berið kjúklinginn fram á fallegum disk eða bretti og skreytið með fersku kóríander og bjóðið upp á meðlæti eftir smekk.

Upplagt að byrja á því að grilla kjúklinginn á álbökkum …
Upplagt að byrja á því að grilla kjúklinginn á álbökkum til að tryggja að hann brenni ekki. Síðan færa hann yfir á grillið þegar stutt er eftir að eldunartímanum. Ljósmynd/Aðsend
Einföld og góð leið til að grilla djúsí og meyran …
Einföld og góð leið til að grilla djúsí og meyran kjúkling sem bráðnar í munni. Ljósmynd/Aðsend



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert