Í heimildarmynd Viaplay The Most Remote Restaurant in The World eða Afskekktasti veitingastaður í heimi, er fylgst með Poul Andrias Ziska og teyminu að baki færeyska tveggja Michelin-stjörnu veitingastaðarins Koks í ótrúlegu ævintýri þegar þau flytja allan veitingastaðinn í afskekkta byggð í Grænlandi.
Heimildarmyndin verður frumsýnd á Viaplay á morgun, 1. júní.
Á einum af afskekktari stöðum Grænlands er þorpið Ilimanaq. Í þessari litlu byggð, sem er sú elsta á Grænlandi, búa aðeins 50 manneskjur og til að komast þangað þarf að leggja á sig strembna bátsferð um íshafið. Þrátt fyrir þessa augljósu hindrun er stjörnukokkurinn Poul Andrias Ziska og teymið hans harðákveðin: Þau ætla að opna sælkeraveitingahús í heimsklassa, einmitt þar.
Færeyska veitingahúsið Koks lokar eldhúsinu og stefnan er tekin á Grænland til að bjóða gestum hvaðanæva að úr heiminum upp á einstaka matarupplifun. En áskoranirnar bíða í röðum. Eða hvað skal til bragðs taka þegar ekkert eldhús er á staðnum? Þegar Poul Andrias og teymið hans koma á staðinn átta þau sig á að ofnar, eldavélar og framreiðsluborð eru enn í pappakössum. Og þegar aðeins 11 dagar eru í opnun veitingastaðarins er ekki búið að gera handtak í að innrétta Michelin-eldhús. Ofan á það kemur í ljós að það er erfiðleikum bundið að útvega hráefni í 22 rétta matseðil. Ætla mætti að nóg væri til af sel og fiski á Grænlandi en annað kemur í ljós. Trúin á þetta metnaðarfulla verkefni fer smátt og smátt að dvína hjá hópnum og heimamenn fylgjast spenntir með bramboltinu. Er virkilega hægt að byggja brú milli alþjóðlegs viðskiptafyrirtækis og hefðbundins lífs í litlu fiskimannasamfélagi?
„Að opna afskekktasta veitingahús í heimi á stað sem mörg láta sig aðeins dreyma um að heimsækja, var brjálað ævintýri og stórkostleg reynsla. Ég vona að heimildarmyndin sýni hvernig við unnum með að rannsaka staðbundna matarmenningu og innleiða hana í allt öðruvísi nútíma matargerðarstíl. Það koma tiltölulega fáir á KOKS í Grænlandi, en heimildarmyndin gefur áhorfendum Viaplay tækifæri til að upplifa ævintýrið í nærmynd,“ segir Poul Andrias Ziska, yfirmatreiðslumaður á Koks.
Afskekktasti veitingastaður í heimi fylgir Koks teyminu í gegnum fyrsta tímabil í rekstri veitingastaðarins. Fylgst er með frá byrjun og fáum áhorfendur að fylgjast með ferli matarins frá haga í maga og hvernig þessir tveir menningarheimar mætast, heimafólkið og aðkomukokkarnir. Við sjáum matseðilinn verða til og fáum innsýn í Poul Andrias Ziskas léttleikandi og úthugsaða nálgun á samsetningu hráefnisins. Um leið upplifum við gleði fjölmargra matgæðinga sem leggja á sig langa ferð á vesturströnd Grænlands til að njóta alveg einstakrar máltíðar.
Heimildarmyndin er skemmtileg og heiðarleg frásögn um allt að því ómögulegt verkefni og opnar glugga inn í einstakt samfélag sem áhorfendur hafa fá tækifæri til að upplifa. Leikstjóri myndarinnar er Ole Juncker og framleidd af Plus Pictures, Mette Heide, með stuðningi frá Public Service Puljen. Framleiðendur hjá Viaplay er Nicole Horanyi og Sine Skibsholt.
Hér má sjá klippur úr heimildamyndinni: