Matarbúr Kaju lokar á Akranesi

Karen Jónsdóttir, alla jafna kölluð Kaja, hefur ákveðið að loka …
Karen Jónsdóttir, alla jafna kölluð Kaja, hefur ákveðið að loka versluninni Matarbúr Kaju en Karen er frumkvöðull á sínu sviði og hefur meðal annars selt lífrænt vottaðar matvörur eftir vigt og í smásölupakkningum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karen Jónsdóttir, alla jafna kölluð Kaja, hefur ákveðið að loka versluninni Matarbúr Kaju, á Stillholti 23 á Akranesi, þann 1. september næstkomandi. Segir hún ákvörðunina ráðast af því að ekki sé nægileg eftirspurn eftir slíkri þjónustu á Akranesi en verslunin einblínir á sölu lífrænnar matvöru.

Kaja sjálf ætlar að snúa sér meira að framleiðslunni sjálfri og heildsölunni en vörur hennar eru seldar í fjölda verslana um land allt. „Ég er hrikalega svekkt að þurfa að loka eftir að hafa staðið í þessu í tæp níu ár, en þar sem verslunin stendur ekki undir starfsmanni þá neyðist ég til að loka þar sem mínum kröftum er betur varið en að standa í verslunarrekstri á Akranesi.  Síðastliðin þrjú ár hafa verið strembin og er efnahagsástandið nú gjörsamlega að ganga frá litla manninum sem sést best á því að margar sérverslanir eru að loka,“ segir Kaja og bætir við að hún hafi reynt allt sem hún gat til að koma í veg fyrir þessa ákvörðun.

Snýr sér að framleiðslunni af fullum krafti

Aðspurð um hvort þreifingar séu á málum fyrirhugaðrar jurtamjólkurverksmiðju segir Kaja að viðræður séu í gangi við fjárfesta en ekkert sé þó fast í hendi. „Ég er að breyta rekstri Kaju og snúa mér enn frekar að framleiðslunni undir vörumerkinu Kaja og svo heildsölunni. Jafnframt er ég að vinna að undirbúningi á jurtamjólkurverksmiðju en til að gera það að veruleika þá þarf ég að ná góðum fjárfesta eða fjárfestum. Ég hef haft reynslumikla þungavigtarmenn með mér í þessu verkefni svo ég hef fulla trú á að við klárum þetta. En Páll Kr. Pálsson ráðgjafi hefur séð um fjármálahliðina og Þórarinn Egill Sveinsson mjólkurverkfræðingur hefur aðstoðað mig með samsetningu á vélbúnaðinum ásamt tækniliði Mec í Kína. Svo það er nóg að gera hjá mér,“ segir Kaja og ætlar að einbeita sér af því sem skiptir máli fyrir hana sem er framleiðslan á hennar vörum. Fram að lokun verða ýmsar vörur á afslætti í versluninni, nú fyrst te og sultur.

Töfrarnir hennar Kaju hafa fengið að njóta sín á Stillholti …
Töfrarnir hennar Kaju hafa fengið að njóta sín á Stillholti á Akranesi. mbl.is/Árni Sæberg
Hér má sjá brot af vörum búðarinnar sem Kaja hefur …
Hér má sjá brot af vörum búðarinnar sem Kaja hefur selt eftr vigt. mbl.is/Árni Sæberg



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert