„Veitingastaðirnir voru orðnir eins og tveir stórir krakkar sem tóku of mikið pláss hvor frá öðrum. Því var best fyrir alla að Óx færi á nýjan stað og gæti þar haldið áfram sinni vegferð og framþróun. Hér höfum við bætt í og gert upplifunina enn meiri fyrir gesti,“ segir Þráinn Freyr Vigfússon, kokkur og eigandi veitingastaðanna Óx og Sumac.
Óx var nýverið fluttur um set á Laugavegi. Áður var um svokallaðan leynistað að ræða inn af Sumac þar sem pláss var fyrir 11 matargesti. Á nýja staðnum er pláss fyrir 17 gesti og auk þess hefur verið innréttaður huggulegur kokteilbar í gömlum stíl þar sem gestir geta sest niður í drykk áður en matarupplifun kvöldsins á Óx hefst.
Það er ekki hlaupið að því að finna staðinn. Gamaldags dyrabjalla er við látlausa hurð á Laugavegi merkt Ömmu Don. Gestir ganga um dimman gang og svo niður stiga en þegar inn er komið má þeim ljóst vera að eitthvað sérstakt er í uppsiglingu. Innréttingarnar og stemningin á Ömmu Don eru frá veröld sem var. Þarna finnst manni eins og maður gæti verið staddur á íslensku heimili fyrir nokkrum áratugum.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu á fimmtudag, 1. júní.