Dýrðleg grilluð stórlúða með greipaldin chimicurri

Grillaður fiskur og skelfiskur er í miklu uppáhaldi hjá Hrefnu …
Grillaður fiskur og skelfiskur er í miklu uppáhaldi hjá Hrefnu Sætran. Hún grillar allan ársins hring og lætur rigninguna ekki stoppa sig. Ljósmynd/Björn Árnason

Hrefna Sætran veitingakona og matreiðslumeistari grillar allan ársins hring og lætur veðrið ekki stoppa sig. Ef það rignir þá tekur hún bara regnhlífina með. Að grilla fisk og sjávarfang er í miklu uppáhaldi hjá Hrefnu og á marga uppáhaldsfiskrétti. Hún deilir hér með lesendum Matarvefsins einni að sinni uppáhaldsuppskrift að grilluðum fisk. Þessi uppskrift er dýrðleg og sítrusávextirnir setja punktinn yfir i-ið.

Það er aldrei lognmolla hjá Hrefnu og aðspurð segist hún vera að vinna leyndardómsfullu verkefni. „Þessa dagana er ég að vinna í verkefni sem þú færð að vita af seinna. Dálítið sem mig hefur lengi langað að gera og ákvað að drífa í því. Annars er í nógu að snúast í vinnunni þar sem sumarið er komið,“ segir Hrefna og brosir.

Skelfiskur og fiskur í uppáhaldi

Hrefna segist grilla mikið af fisk allan ársins hring. „Eitt af mínu uppáhaldi að grilla er skelfiskur og fiskur og ég grilla það mikið allt árið í kring. Maðurinn minn elskar að brasa og að grilla kjöt í marga marga klukkutíma svo þetta hefur raðast svona óvart á okkur þótt við kunnum bæði að ég er meira í fisk og hann í kjötinu.

Þegar Hrefna er beðin um að deila með lesendum sínum uppáhaldsfiskgrillrétti þá er ekki komið að tómum kofanum. „Ég á margar uppáhaldsuppskriftir sem ég hef búið til og hér er ein. Með þessu grillaði ég svo sætar kartöflur og gulrætur sem ég penslaði með olíu og kryddaði með salti og pipar.“

Grilla fiskinn á sítrusávexti

Aðspurð segir Hrefna að tilurð þessa rétts hafi í raun verið sú að hana langaði til að finna lausn fyrir fólk hvernig best væri að grilla fisk. „Mér finnst svo algengt að fólk þori ekki að grilla fisk því hann klúðrast hjá þeim svo mig langaði að finna lausn á því. Þannig kom þetta til. Þetta er í rauninni hægt að gera við allan fisk. Grilla hann á sítrusávexti. Bæði þá þarf ekki að brasa og snúa honum og það kemur sítrus bragð af honum.“

Hrefna lumar líka á góðum grillráðum þegar fisk á að grilla. „Þegar maður grillar fisk er mikilvægast að hann sé þurr viðkomu áður en maður grillar hann. Þá þerrar maður fiskinn vel með pappír, penslar svo með olíu og kryddar. Gott er að hafa fiskinn ískaldan. Grillið þarf líka að vera mjög heitt svo hann festist ekki við. Gleðilegt sumar,“ segir Hrefna alsæl með regnhlífina við hönd í veðrinu sem veðurguðirnir bjóða upp á.

Dýrðleg þessi dásamlega stórlúða með greipaldin chimichurri úr smiðju Hrefnu …
Dýrðleg þessi dásamlega stórlúða með greipaldin chimichurri úr smiðju Hrefnu Sætran. Sítrusávextirnir passa vel með sjávarfangi. Ljósmynd/Björn Árnason

Grilluð stórlúða með greipaldin chimichurri

Fyrir 4

  • 800 g stórlúða (eða einhver annar fiskur sem þú vilt grilla)
  • 2 stk. rautt grape
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Kveiktu upp í grillinu.
  2. Skerðu greipið í þykkar sneiðar.
  3. Skerðu svo fiskinn í steikur.
  4. Þerraðu hann vel og kryddaðu með salti og pipar.
  5. Þegar grillið er orðið blússandi heitt, leggðu þá greip sneiðarnar á grillið og settu bita af fisk ofan á.
  6. Lokaðu grillinu og grillaðu í svona 6-12 mínútur (fer eftir hversu þykkur fiskurinn er).
  7. Til að sjá hvort að fiskurinn sé tilbúinn þá er hægt að þrýsta létt á hann og ef hann brotnar í flögur þá er hann fullkominn.

Greipaldin chimichurri

  • ½ búnt kóríander
  • ½ búnt steinselja
  • 3 hvítlauksrif
  • ½ stk rauðlaukur
  • ½ bolli olía
  • ¼ bolli greipaldinsafi
  • 1 tsk rauðar chili flögur
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Settu kryddjurtirnar og laukana í blandara og maukaðu vel saman.
  2. Bættu olíunni og greipsafanum út í og maukar vel áfram (notar endana sem þú skarst af til að gera sneiðar og kreistir safann úr þeim).
  3. Kryddar svo með chiliflögum, salti og pipar.
Grillaður fiskur og skelfiskur er í miklu uppáhaldi hjá Hrefnu …
Grillaður fiskur og skelfiskur er í miklu uppáhaldi hjá Hrefnu Sætran. Hún grillar allan ársins hring og lætur rigninguna ekki stoppa sig. Ljósmynd/Björn Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka