Steiktur fiskur á gamla mátann bestur

Góður steiktur fiskur á gamla mátann hittir ávallt í mark. Hér er klassísk uppskrift sem steinliggur, það er svo gott að fá sér steiktan fisk með kartöflum og kokteilsósu eða remúlaði og leyfa einfaldleikanum að njóta sín. Hver og einn getur valið meðlætið eftir sínu nefi.

Steiktur fiskur í raspi

  • 700 g ýsa (má líka vera þorskur), fersk eða þiðin
  • 1 egg, pískað
  • 2 dl rasp
  • smjör og ólífuolía til steikingar
  • sítrónupipar eftir smekk
  • 1 laukur, skorinn í sneiðar
  • 1-2 sítrónur skornar í báta
  • ½ búnt steinselja ef vill til skreytingar þegar fiskurinn er borinn fram, ekki nauðsyn 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera fiskinn í hæfilega stóra bita.
  2. Brjótið egg í skál og pískið.
  3. Setjið rasp í aðra skál.
  4. Veltið fiskbitunum upp úr pískaða egginu og síðan raspinu.
  5. Hitið smjör og/eða ólífuolíu á pönnu og hafið á góðum hita.
  6. Steikið fiskbitana á pönnunni upp úr smjörinu og/eða ólífuolíunni á báðum hliðum, kryddið með sítrónupipar eftir smekk.
  7. Steikið í 3-4 mínútur á hvorri hlið á góðum hita til að fá raspið til að vera stökkt að utan.
  8. Takið fiskinn af pönnunni og setjið í fat eða eldfast mót.
  9. Bætið við góðri smjörklípu á pönnuna og steikið laukinn á pönnunni þegar smjörið er bráðið.
  10. Setjið laukinn í fatið/eldfasta mótið með fisknum.  
  11. Má líka setja laukinn í sér skál með brædda smjörinu og bera fram með fiskinum.
  12. Bætið við sítrónubátum með steikta fiskinum þegar hann er borinn fram og skreytið með smá steinselju ef vill.
  13. Berið fram með soðnum nýjum kartöflum, fersku grænmeti, eins og agúrkusneiðum og tómötum, kokteilsósu og/eða remúlaði.

Heimalöguð kokteilsósa á gamla mátann

  • 2 msk majónes
  • 1 msk tómatsósa
  • örlítið sinnep að eigin vali
  • paprikukrydd ef vill

Aðferð:

  1. Hrærið öllu vel saman nema kryddinu.
  2. Berið fram í lítilli skál og kryddið örlítið til með paprikukryddi ef vill.

Heimalagað remúlaði

  • 3-4 sýrðar gúrkur
  • 1 msk. kapers
  • 4 msk. majónes
  • 2 msk. sýrður rjómi
  • 3 msk. dijonsinnep
  • karríkrydd eftir smekk
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið sýrðu gúrkurnar smátt.
  2. Hrærið saman majónesi, sýrðum rjóma og sinnepi.
  3. Kryddið og smakkið til með salti, pipar og karríi. Bara ögn af karríkryddi.
  4. Bætið við sýrðum gúrkum og kapers í lokin og hrærið.
Kokteilsósa eða remúlaði, eða kannski bara bæði. Klassíska kokteilsósan eins …
Kokteilsósa eða remúlaði, eða kannski bara bæði. Klassíska kokteilsósan eins og var í forðum passar ávallt vel með steiktum fisk í raspi. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert