Eins fram kom í gær í frétt á vef mbl.is fékk veitingastaðurinn Moss í Bláa lóninu hina eftirsóttu Michelin-stjörnu. Viðurkenningin var kunngjörð við hátíðlega athöfn í borginni Turku í Finnlandi sem eru stórkostleg tíðindi fyrir Moss og frábær viðurkenning fyrir Agnar Sverrisson yfirkokk og hans kokkateymi á Moss og ekki síður fyrir íslenska matargerð.
Michelin-stjarna Moss hefur klárlega góð áhrif á íslenska matargerð og er án efa stórfengleg landkynning og eykur metnað margra íslenskra veitingastaða að sækja enn betur fram. Fyrir voru tveir veitingastaðir með eina Michelin-stjörnu, ÓX og Dill Laugavegi.
Jafnframt fengu nokkrir aðrir íslenskir veitingastaðir til viðbótar meðmæli frá Michelin. Þeir veitingastaðir sem um ræðir eru Brút við Pósthússtræti, Tides á hótel Edition, Sümac á Laugavegi og Matur og drykkur við Grandagarð sem er góð og verðskulduð viðurkenning fyrir íslenska veitingahúsaflóru og öðrum hvatning.
Ólafur Örn Steinunnar Ólafsson, veitingamaður á Brút er alsæll með viðurkenninguna: „Að veitingastaður sem er með 100% áherslu á fisk og annað sjávarfang sé partur af þessum meðmælum frá þeim sem hafa mestu þekkingu á gæðum í veitingabransanum í heiminum, er mikil viðurkenning. Ekki bara fyrir okkar veitingastað Brút, heldur fyrir sjávarfang á Íslandi yfir höfuð.“
Hægt er að sjá umfjöllunina um veitingastaðina frá Michelin hér.