Veitingastaðurinn Moss hlaut í vikunni hina eftirsóttu Michelin-stjörnu en tveir aðrir íslenskir veitingastaðir viðhéldu stjörnum sem þeir höfðu hvor um sig hlotið áður. Þannig hlutu þrír íslenskir veitingastaðir Michelin-stjörnuna eftirsóttu þetta árið en það eru staðirnir Moss, Óx og Dill.
Að hljóta Michelin-stjörnu er eitt metnaðarfyllsta markmið sem fólk í veitingabransanum getur sett sér en það er ekki síður metnaðarfullt að ætla sér að viðhalda henni.
Fyrstur íslenskra veitingastaða til að hljóta viðurkenninguna var Dill árið 2017 en staðurinn missti svo stjörnuna árið 2019. Endurheimti staðurinn stjörnuna árið 2020 og hefur haldið henni síðan þá. Bætti hann við sig grænni Michelin-stjörnu á síðasta ári og varð fyrstur íslenskra veitingastaða til að hljóta þá viðurkenningu. Er hún veitt fyrir vistvæna og sjálfbæra matreiðslu.
Það var ekki fyrr en á síðasta ári sem annar íslenskur veitingastaður hlaut Michelin-stjörnu. Veitingastaðurinn Óx við Laugaveg 55 hlaut stjörnuna síðasta sumar og hélt henni í ár. Þá fékk kokkateymi Óx einnig þann heiður að reiða fram rétt af seðli staðarins við afhendingu Michelin-stjarnanna í ár, sem fram fór í Finnlandi sl. mánudag.
Auk stjarnanna veitir Michelin meðmæli ár hvert og þetta árið hlutu íslensku veitingastaðirnir Sümac, Brút, Tides og Matur og drykkur þá viðurkenningu. Að rata á lista Michelin, hvort sem er vegna stjörnu eða meðmæla, er mikið afrek og hefur gjarnan mjög góð áhrif á rekstur veitingahúsa.