Dreymir um lítið bakarí og kaffihús á Ítalíu

Maríanna Pálsdóttir í blíðskaparveðri fyrir utan Snyrtistofu Reykjavíkur og flettir …
Maríanna Pálsdóttir í blíðskaparveðri fyrir utan Snyrtistofu Reykjavíkur og flettir ofan af leyndardómnum um matarvenjur sínar og drauma. mbl.is/Hákon Pálsson

Maríanna Pálsdóttir, eigandi Snyrtistofu Reykjavíkur, pistla-höfundur og matgæðingur, flettir ofan af leyndardómnum um matarvenjur sínar og drauma. Maríanna er móðir fjögurra barna og er því oft líf og fjör við matarborðið. Hún segist ekki vera aðalkokkur heimilisins en hún hafi þó lært ýmislegt um eldamennsku í Hússtjórnarskólanum.

Ætlar að láta drauminn rætast

„Maðurinn minn á tvo syni sem koma mjög reglulega í mat til okkar þannig að oft og tíðum erum við átta við matarborðið,“ segir Maríanna og hlær. „Það verður að viðurkennast að hann Dommi minn er nú miklu betri kokkur en ég og eldar hann því mun oftar. Ég fór í Hússtjórnarskólann fyrir um það bil 20 árum síðan og lærði þar sitthvað um eldamennsku hjá henni Benediktu og Margréti, en það kom fljótt í ljós að ég er miklu betri í því að baka kökur en elda mat. Ég er brjáluð í kökur og kruðerí og það er hefur verið draumurinn minn alla tíð að eiga lítið fallegt bakarí sem er líka kaffihús og blómabúð, allt út í alls kyns lituðum rósum og fallegum pottaplöntum. Ég ætla að láta þennan draum rætast í litlum fallegum smábæ á Ítalíu þar sem sólin mun leika við mig og fjölskylduna mína í framtíðinni.“

Hvað færðu þér í morgunverð?

„Ég vakna alla morgna klukkan sjö og byrja alltaf á  því að fá mér vatn og vökva kroppinn minn vel eftir nóttina. Ég viðurkenni að ég get ekki byrjað daginn almennilega án þess að fá mér rjúkandi heitan kaffibolla. Því næst fer ég á æfingu og eftir hana fæ ég mér dúndrandi orkumikinn þeyting sem þær búa til alveg snilldarvel í afgreiðslunni hjá Hreyfingu, hann endist mér fram að hádegi.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Ég get ekki sagt að ég borði mikið á milli mála, ég er svolítið föst í því að borða 3 sinnum á dag. Morgna – hádegi og svo kvöldin.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Ef ég sleppi því að borða hádegismat þá verð ég eins og jókerinn í Batman á góðum degi, þannig að ég myndi segja að það sé nauðsynlegt fyrir mig að borða hádegismat.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Ísskápurinn hjá mér er alls konar, við erum mjög stór fjölskylda og allir vilja sitt. Það verður eiginlega alltaf að vera til alls konar í ísskápnum.“

Grillaður lax langbestur

Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?

„Grillaður lax er langbestur í heimi, sérstaklega ef ég veiði hann sjálf.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?

„Austur-Indíafélagið er besti veitingastaðurinn minn, Ráðagerði og Kol eru líka í uppáhaldi.“

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á óskalistanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Mig langar rosalega mikið að fara til Japans og upplifa matarmenninguna þar.“

Uppáhaldseftirrétturinn þinn?

„Ég fékk nautasteik á eyjunni Elbu á Ítalíu og guðdómlegt Tiramisu í eftirrétt, sem er besti eftirrétturinn minn alltaf.“

Versti matur sem þú hefur bragðað?

„Blóðmör og lifur.“

Uppáhaldskokkurinn þinn?

„Kokkarnir á Austur-Indíafélaginu standa upp úr alltaf, ég elska indverskan mat.“

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Vatn eða engiferöl.“ 

Ertu góður kokkur?

„Ég er ágætis kokkur, alls ekki stórkostlegur kokkur. Mér finnst gaman að vera í eldhúsinu með fjölskyldunni þegar allir eru saman að vinna að því að búa til skemmtileg matarboð. Þetta eru stundirnar þar sem við öll hittumst og þegar við erum öll saman þá horfir maður yfir hópinn sinn og sér hvað maður er heppinn að hafa stóra fjölskyldu sér við hlið. Það eru ekki allir svo heppnir og fyrir það er ég ofboðslega þakklát.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka