Anna Margrét Ólafsdóttir er sjálfstætt starfandi myndlistar - og sviðslistakona og rekur Crêpes veisluþjónustu til hliðar við listina hefur alltaf haft mikinn áhuga á Frakklandi og franskri menningu. Hún veit leyndardóminn bak við alvöru crêpes og sviptir hulunni af sinni uppáhaldscrêpes í tilefni að sautjánda júní. Listin á líka hug hennar og innblásturinn hefur fengið frá Frakklandi og það má líka segja það sé list að baka crêpes.
Besta crêpes í Le Marais
Aðspurð segir Anna að tilurð áhugi hennar á crêpes hafi komið eftir að hún fór til Frakklands sem au pair. „Ég hef haft áhuga á Frakklandi og að læra frönsku síðan ég var lítil og átti mér snemma draum um að búa í París. Þannig um leið og ég kláraði menntaskóla fór ég sem au pair til Frakklands. Ég var með það að markmiði að læra tungumálið og eignast fjölskyldu sem ég myndi halda sambandi við. Ég lenti heldur betur hjá góðu fólki í úthverfi Parísar og bjó hjá ömmu krakkanna sem eldaði stundum handa mér galette eða “matar crêpes”. Hún var frá Bretagne eða Brittaníuskaga þaðan sem galette og crêpes koma og sagði mér sögur af því að elda galette þegar hún var lítil og líka fyrir börnin sín og vini þeirra. Hún notaði óvenjustóra pönnu til að búa til galette og crêpes og setti vanalega egg, ost og skinku á matarcrêpes. En þar sem ég er grænmetisæta skipti hún út skinku fyrir sveppi. En eggið er spælt ofan á pönnukökunni sjálfri á pönnunni, svo er pönnukakan brotin saman á fallegan hátt. Þetta borðaði ég stundum hjá henni en um helgar þegar ég var í fríi frá au pair starfinu tók ég strætó beinustu leið í miðborg Parísar og fékk mér crêpes þar. Ég fann fljótt hvar besta crêpesið var, á Rue des Rosiers í Le Marais eða Mýrinni. Þangað fór ég allar helgar að fá mér fyrst matar-crêpes eða galette og crêpes í eftirrétt,“ segir Anna.
„Síðan þegar ég var að fara að flytja heim þá gat ég ekki hugsað mér að vera án crêpes og þetta varð einhver grín hugmynd hjá mér og fjölskyldunni að ég myndi fara heim og opna eins konar Crêperie. Það eru svona veitingastaðir í Frakklandi sem selja aðeins galettes og crêpes og áfengan epla cider með. Tveimur árum eftir að ég flutti heim skellti ég mér síðan á námskeið í litlum bæ í Bretagne héraði. Upprunalega planið var að opna matarvagn en síðan langaði mig að gera þetta persónulegra og fara heim til fólks til að geta átt í nánara samtali við gesti.“
Upprunnin í Bretagne héraði
Anna segir að sagan bak við galettes og crêpes eru upprunnin í Bretagne héraði og hafi upphaflega verið einfaldur og ódýr matur hjá bændum. „Galette deigið er úr bókhveiti, aðeins blandað saman með einu eggi og vatni og algengt var að bera það fram einungis með smjöri hjá fátækari fjölskyldum eða að skella ýmis konar afgöngum á eða því sem fólk átti á pönnukökuna. En crêpes uppskriftin er líkari íslensku pönnukökunni, sömu innihaldsefni en öðruvísi hlutföll. Með tímanum hefur síðan breyst hvað er sett á galette, í dag tíðkast til dæmis geitarostur, valhnetur, hunang og salat eða sýrður rjómi og fíkjusulta með rósmarín. Síðan hefur þetta auðvitað dreifst víðar og einhverjir setja hrísgrjón og hvítlaukssósu en það er ekki að finna í Frakklandi.“
Aðspurð segist Anna vera er meira fyrir matar-crêpes eða galettes. „Þá fæ ég mér helst í forrétt galette með spældu eggi, sveppum og góðum osti eins og cheddar, síðan yfir í galette með geitarosti, valhnetum og hunangi og crêpes í eftirrétt. Uppáhalds crêpesið mitt um þessar mundir er með sykri og smjöri. Nú fæ ég mér alltaf þannig þegar ég heimsæki vin minn á Rue des Rosiers, einföld er rosalega góð.“
Verður í Mosskógum í sumar
Hægt er að fá Önnu í heima eða viðburði þar sem hún töfrar fram ekta crêpes. „Ég kem bæði í smærri matarboð heim til fólks og býð upp á tvær eða þrjár gerðir, þá matar og sætar. Einnig kem ég í stærri veislur með sætar crêpes eða fyrirtæki. Ég hef verið í afmælisboðum, fermingarveislum og brúðkaupum, stundum sem miðnætursnarl fyrir þau sem þurfa smá orku til að halda áfram á dansgólfinu. Yfir sumartímann er ég síðan oft á laugardögum á grænmetismarkaðnum Mosskógum í Mosfellsdal og verð þar í sumar.“
Íslendingar eru sólgnir í crêpes og því hefur Anna kynnst gegnum árin. „Flestir þekkja crêpes frekar en galette og mörgum finnst spennandi að prófa galette í fyrsta skiptið og finnst það koma skemmtilega á óvart. Varðandi crêpes þá þekkja flest crêpes með nutella og banana en finnst gaman að prófa eitthvað nýtt eins og crêpes með sykri og sítrónu. Hún er sæt og súr en fersk á sama tíma.
Hin fullkomna crêpes
Anna sviptir hér hulunni af leyndardómnum bak við að hinni fullkomnu crêpes. „Mér finnst best að gera deigið daginn áður en ég baka þær og bæti síðan köldu vatni út í til að þynna deigið aðeins sem er búið að þykkjast yfir nóttina. Crêpes deigið er gott að handþeyta með písk frekar en hrærivél til að koma í veg fyrir að það verði seigt. Þegar kemur að galettes, þá er það aðeins bókhveiti, eitt egg og kalt vatn og því er blandað saman með berum höndum og reynt að koma deiginu á flug til þess að hleypa lofti í það.“
Ertu til í að gefa lesendum uppskrift að þinni uppáhalds sem steinliggur á þjóðhátíðardaginn okkar, 17.júní? „Þegar kom að því að gera þjóðhátíðar crêpes hugsaði ég fyrst og fremst um fánalitina, hvítan, rauðan og bláan sem eiga bæði við íslenska og franska fánann. Á þjóðhátíðar-crêpes í ár fer hindberjahlaup, þeyttur rjómi blandaður við skyr, þurrkuð aðalbláber og saltkarmellusósa með lakkrísrótardufti í,“ segir Anna sem mun klárlega fá sér crêpes þegar þjóðarhátíðardeginum verður fagnað.
„Ég hvet fólk til þess að prófa að gera galettes heima. Búa til matarpönnuköku úr bókhveiti á pönnunni heima og skella á hana einhverju sem fólki finnst gott og prófa sig áfram. Oft er það því einfaldara því betra.“