Ingu Tinnu í Dineout finnst ítalskur matur ómótstæðilegur

Inga Tinna Sigurðardóttir hjá Dineout sviptir hér leyndardómnum bak við …
Inga Tinna Sigurðardóttir hjá Dineout sviptir hér leyndardómnum bak við matarvenjur sínar. Ljósmynd/Arnór Trausti Kristínarson

Inga Tinna Sigurðardóttir stofnandi og forstjóri Dineout, vinsælasta hugbúnaðarfyrirtæki landsins í veitingageiranum sviptir hulunni af leyndardómnum um sínar matarvenjur og fleiri skemmtilegheitum. Inga Tinna er mjög öflug á sínu sviði og má með sanni segja að hún hafi unnið flott frumkvöðulsstarf með tilkomu Dineout.

Inga Tinna hefur verið áberandi í íslensku viðskiptalífi enda ekki margar konur sem feta í hugbúnaðargeirann og hvað þá með þessum árangri. Hún hefur byggt upp veldi sem á gríðarlega möguleika á erlendum mörkuðum og það er langt frá því að verið sjálfgefið. Fyrirtækið hefur nú opnað skrifstofur í Kaupmannahöfn og danskir veitingastaðir hafa strax tekið lausnunum fagnandi. Það verður spennandi að fylgjast með vegferðinni í framtíðinni.

Blóð, sviti og tár

Inga Tinna er verkfræðimenntuð og hefur helgað lífi sínu rekstrinum undanfarin 8 ár. „Rekstur sem þessi felur í sér fórnir, blóð, svita og tár en allt er þess virði þegar ávinningurinn verður augljós eins og raun ber vitni sl. ár. Fyrirtækið heldur úti vinsælasta markaðstorgi landsins dineout.is og hefur þróun þar verið gríðarlega skemmtileg en í dag er ekki aðeins hægt að bóka borð - það er hægt að panta mat, leigja veislusali, kaupa rafræn gjafabréf, bóka sig á matartengda viðburði, skrá sig í afsláttarprógram svo fátt sé nefnt,“ segir Inga Tinna.

Inga Tinna er á því að matur sé manns gaman og geri lífið skemmtilegra. Við fengum hana til segja frá nokkrum staðreyndum um matarvenjur sínar. 

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Ég borða oftast það sama alla morgna sem er grautur sem ég geri kvöldinu áður. Í grautinn set ég chiafræ, haframjöl, kanil, möndlumjólk, smá kókos og rúsínur. Tekur 2 mínútur að gera grautinn og hann er settur í ísskáp yfir nóttina. Um morguninn set ég svo bláber og jarðarber yfir, þetta er algjört sælgæti, vel mettandi og góð orka. Stundum fæ ég mér laktósafría Ab mjólk frá Örnu með múslí og bláberjum en almennt séð borða ég ekki mjólkurvörur.“

„Ég elska fátt meira í lífinu en fyrsta kaffibollann minn á morgnanna. Hann er mjög heilagur og algjör himnasæla. Ég er mikið erlendis og það er stundum minn mesti hausverkur að finna „minn“ stað fyrir kaffið mitt. Ég gæti þótt erfið þar,“ segir Inga Tinna og hlær.

„Á laugardögum breyti ég til og fer oftast eftir æfingu í góðan bröns en ég elska veitingastaði sem bjóða upp á slíkt ásamt því að græja eitthvað skemmtilegt og gott sjálf inn á milli.“ 

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Ég er búin að koma mér upp venjum sem eru til þess fallnar að einfalda lífið. Ég er mikið fyrir að flækja ekki málin en er auðvitað gríðarlega mikill nautnaseggur þegar kemur að mat og fleiru. Millimál er einfalt, oftast hálfur banani eða ávöxtur. Ég er reyndar með æði núna fyrir litlum frækexum með Philadelfia garlic smurosti. Stundum fæ ég mér döðlur.“

Borðar 97% tilvika það sama í hádegisverð

Finnst þér ómissandi að borða í hádegisverð?

„Ég veit að samstarfsfélagar mínir myndu hlæja mikið af þessari spurningu. Þau verða aldrei þreytt á því að gera grín að mér þarna. Ég borða það sama í 97% tilfella í hádegismat. Það myndi vera sushi. Ég geri alveg undanteknar og fer víða út að borða í hádeginu en oft gera vinir og vandamenn grín og segja: „Getum við valið stað sem býður ekki upp á sushi?“ Þetta er ekki svona alvarlegt hjá mér en aftur einfaldleikinn og rútínan hentar mér vel og þess vegna verður sushi fyrir valinu. Ég er ekki mikið fyrir að eyða tíma í að hugsa hvað ég á að fá mér í hádeginu, er sátt við mitt sushi, og er því ekkert að flækja málin. Ef ekki sushi, þá gott salat, ég er mjög góð að gera góð salöt, eða fiskur dagsins á góðum veitingastað.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Bláber, jarðarber, hráefni í gott salat, egg og góða drykki.“ 

Hvað er uppáhaldsgrillmaturinn þinn?

„Ég elska grillmat og þarna er klárlega í toppsætinu góð nautalund, lamb og humar. Ég elska fátt meira en góðan mat. Pabbi hefur gert grín af því að ég sé mjög matsár og þegar ég fæ mat sem er undir væntingum verð ég þögul og kannski pínu vonsvikin. Þetta er allt spurning um væntingastjórnun en ég get óneitanlega sagt að ég fæ mikið út úr góðum mat. Sveppur fylltur með gráðosti, döðlumauki og gúmmelaði, grillað gott íslenskt grænmeti, getur ekki klikkað.“

La Primavera í algjörum sérflokki

Þegar þú ætlar að gera vel við þig og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„Ég er í þeim aðstæðum að vera með um 90% veitingastaða í viðskiptum við fyrirtæki mitt Dineout svo það er viðkvæmt að nefna einn ákveðinn stað. Það eru þó nokkrir uppáhalds veitingastaðir hérlendis en ég get verið mjög erfið þegar kemur að þessu og geri miklar kröfur. Ég hugsa um gæði matarins, hráefnisins, umhverfið, þjónustuna, upplifunina og ýmis smáatriði sem mér finnst skipta miklu máli.“

„Ég elska ítalskan mat og ég held ég hafi verið ítölsk í fyrra lífi. Mér finnst La Primavera í algjörum sérflokki hérlendis og myndi klárlega flokka hann sem einn af mínum uppáhaldsstöðum. Ég er með mestu matarást af Yesmine vinkonu minni en hún er með æðislegan stað og klárlega einn af mínum uppáhalds sem heitir Funky Bhangra og er í Pósthús mathöll. Ég er svo mikill talsmaður þess að hún opni eigin veitingastað og er það heilluð að ég trúi því að hún fengi Michelin-stjörnu mjög fljótt. Maturinn hjá henni felur í sér margra ára þróun og er ákveðin blanda af Sri Lanka, Svíþjóð, Indlandi og Íslandi. Þetta er samsetning sem þú hefur aldrei smakkað og algjörlega á heimsmælikvarða. Svo finnst mér Apótek Restaurant alltaf standa fyrir sínu. Ég fer gjarnan þangað ef það eru sérstök tilefni og síðast á afmæli mömmu. Það er svo góð stemning, þjónusta og maturinn frábær. Mér finnst Monkeys líka frábær og Kampavínslestin skapar svo frábæra stemningu þar. Jómfrúin stendur alltaf fyrir sínu og smurbrauðin og stemningin þar er alltaf góð, ég fer auðvitað alltaf þangað í desember en svo mun ég vera fastagestur uppá Keflavíkurflugvelli þar sem þeir opnuðu í byrjun mánaðarins. Pure Deli er svo í uppáhaldi þegar kemur að fljótlegu, hollu og góðu. Þar eru líka æðislegir safar. Ráðagerði er nýr uppáhalds hjá mér, hann er á Seltjarnarnesi og mér finnst brönsinn þar frábær. Prófaði brönsinn á Kastrup um síðustu helgi og fannst hann frábær. Tek fram að þessi upptalning er ekki samstarf heldur algjörlega byggt á því sem mér finnst,“ segir Inga Tinna. 

Upplifunarstaðir á Maldíveyjum á óskalistanum

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á óskalistanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Eins mikið eins og mér finnst gæði matarins skipta máli, finnst mér upplifunin og umhverfið ekki síður skipta máli. Það eru nokkrir staðir á listanum hjá mér en fyrir utan Michelin-staði þá eru það upplifunarstaðir eins og Huvafen Fushi og Ithaa Restaurant á Maldíveyjum. Sá fyrrnefndi er á flottri einkaeyju þar sem allt er mjög prívat og matarupplifunin er þannig að þú borðar með fæturna í fallega upplýstu vatni eða í sandinum. Sá síðarnefndi er 5 metra undir sjávarmáli og tekur 14 manns í sæti. Nafnið Ithaa þýðir móðir perlunnar. Grotta Palazzese á Ítalíu er inni í helli við sjóinn og Ég á ennþá eftir að prófa ÓX og Moss á Íslandi, ætli það sé ekki góð hugmynd að byrja á því.“

Ljósmynd/Aðsend
Ithaa Restaurant á Maldíveyjum sem er undir sjávarmáli. Dýrðleg upplifun.
Ithaa Restaurant á Maldíveyjum sem er undir sjávarmáli. Dýrðleg upplifun. Ljósmynd/Aðsend
Grotta Palazzese á Ítalíu er inni í helli við sjóinn. …
Grotta Palazzese á Ítalíu er inni í helli við sjóinn. Himnesk sjón. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?

„Það fyrsta sem kemur í hugann er matarupplifun sem ég átti í Tókýó á stað sem heitir Chinaroom og er á efstu hæð Hyatt hótelsins í Japan. Þar átti ég æðislega stund með frændfólki mínu sem bjó í Tókýó á þeim tíma. Þvílík matarupplifun og æðisleg kvöldstund. Minn uppáhaldsstaður er við Lake Como á Ítalíu sem ég hef ferðast mikið og oft til síðan árið 2008. Sá staður heitir Al Veluu og er í Tremezzo, uppi í fjallshlíð. London og New York er ákveðið mekka matarmenningar og ég hef verið á báðum stöðum mikið í gegnum tíðina. Það eru ákveðnir staðir í hvorri borg sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Mig langar að koma til San Sebastian en ég hef heyrt að ég myndi kunna vel við mig þar. Það er á Suður Spáni og mér skilst að matarmenningin þar sé á miklu gæðastigi.“

Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?

„Án efa áll sem ég var látin smakka í Japan. Fór með frænda mínum að borða og hann hlakkaði mikið til að láta mig smakka en ég missti alveg matarlystina og man ennþá eftir bragðinu þegar ég hugsa til þess.“

Það eru fleiri réttir sem Inga Tinna bragðar alls ekki. „Ég borða ekki eldaðan ananas og ég kem ekki nálægt hákarli, þorramat eða skötu. Ég er að reyna að byrja að borða ólífur en það er saga á bak við það. Ég bjó í Danmörku á mínum yngri árum. Besta vinkona mín var frá Tyrklandi og borðsiðir heima hjá henni mjög strangir, ólíkt því sem ég vandist á mínu heimili. Ég borðaði nokkrum sinnum hjá henni og pabbi hennar var vægast sagt ekki sáttur við blaðrið í mér við matarborðið til viðbótar við það að ég gat ekki klárað matinn minn en ég skildi ólífurnar eftir á disknum. Hann beinlínis neyddi mig til að borða þær og ég held að þess vegna hafi ég ekki þolað þær síðan. Mér er farið að þykja þær ágætar en í dag reyni ég að lifa þannig að ég láti ekki fortíðina hafa tök á núinu mínu né framtíðinni. Þess vegna finnst mér mikilvægt að ráðast á” þessa lífsreynslu þannig að gera hana marklausa - þetta eru jú bara litlar og sætar ólífur.“

Uppáhaldskokkurinn þinn?

„Mig langar að láta mig dreyma um að það verði framtíðar maðurinn minn sem verði ómótstæðilegur í eldhúsinu. En annars mun ég sætta mig við að þurfa að heimsækja vinkonu mína, Yesmine Olsson, oftar en góðu hófi gegnir. Auðvitað er mömmumatur alltaf besta nostalgían jólamaturinn a la mamma er ómótstæðilegur og hreyfir við öllu ekki bara bragðlaukunum.“

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Það fer mjög mikið eftir veðri, dögum og skapi.“ 

Ertu góður kokkur?

„Ef þú gætir séð mig lesa þessa spurningu þá væri ég glottandi. Fólkið mitt myndi glotta líka. Ég ætla ekki að skora stig þar sem ég á þau ekki skilin og ég verð að viðurkenna að ég get ekki gefið mér fálkaorðuna þarna. Ég er hins vegar mjög góð í að panta góðan mat og velja góða staði að fara út að borða á. Þegar ég elda þá elda ég eftir uppskrift eða út frá leiðbeiningum góðs fólks sem lætur mig líta mun betur út en ég get gefið sjálfri mér kredít fyrir.“

Inga Tinna er ávallt glæsileg og skartar hér fallegum bleikum …
Inga Tinna er ávallt glæsileg og skartar hér fallegum bleikum kjól. Ljósmynd/Arnór Trausti Kristínarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert