Frægasta bakan, Quiche Lorraine

Ein frægasta bakan í Frakklandi ,Quiche Lorraine, á vel við …
Ein frægasta bakan í Frakklandi ,Quiche Lorraine, á vel við á þessum árstíma Keriliwi/Unsplash

Ljúffengar bökur eru herramannsmatur og hægt er að leika sér með fyllingar í bökurnar. Bökur eru ættaðar frá Miðjarðarhafslöndum og aðallega frá Frakklandi. Frakkar halda í mikla bökuhefð og eru bökurnar þeirra nefndar Quiche eða Tartes. Hér heima notum við orðið bökur.

Það skemmtilega við bökur er að þær eru tilvaldar til að nýta afganga og gera þá að herramannsmat. Grunnurinn í bökurnar er ávallt eins og síðan er hægt að leika sér með fyllinguna, nýta það sem er til hverju sinni eða gera þá böku sem mann dreymir um. Ein frægasta bakan í Frakklandi, Quiche Lorraine, á vel við á þessum árstíma, en hún er í raun grænmetisbaka.

Quiche Lorraine að hætti Frakka

Bökudeig

  • 250 g hveiti (má nota spelthveiti eða heilhveiti)
  • 125 g smjör
  • ½ tsk. salt
  • ½ dl ylvolgt vatn 

Aðferð:

  1. Byrjið á að gera bökudeigið.
  2. Setjið hveiti, salt og smjör í stóra skál og nuddið saman með höndunum þar til deigið verður nokkuð jafnt.
  3. Bætið vatninu út í og hnoðið saman.
  4. Búið til kúlu úr deiginu.
  5. Setjið matarfilmu yfir skálina með kúlunni í.
  6. Geymið í ísskáp þar til fyllingin er tilbúin. 

Fylling

  • 9 egg (meðalstór)
  • 1 msk. ólífuolía
  • 1 vorlaukur, smátt skorinn
  • 1 rauð paprika, smátt skorin
  • Nokkrar svartar ólífur
  • 1 peli rjómi (2,5 dl)
  • salt og nýmalaður pipar eftir smekk
  • Fetaostur eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á að skera niður vorlauk og papriku.
  2. Skerið nokkrar ólífur í tvennt.
  3. Léttsteikið á pönnu upp úr ólífuolíu.
  4. Kælið.
  5. Setjið egg og rjóma í skál og pískið saman.
  6. Saltið og piprið eftir smekk. 

Samsetning:

  1. Byrjið á að hita ofninn í 190°C.
  2. Takið deigið úr ísskápnum.
  3. Fletjið út með kökukefli.
  4. Setjið í kringlótt form eða eldfast mót með meðalháum börmum.
  5. Látið deigið liggja út fyrir barmana og breiðið þannig að það nái yfir þá.
  6. Klípið með fingrunum allan hringinn.
  7. Pikkið botninn með gaffli eða oddhvössum hníf.
  8. Setjið allt steikta hráefnið á deigið.
  9. Síðan fetaost eftir smekk.
  10. Hellið loks eggja- og rjómablöndunni yfir, passið að fylla ekki, bakan á eftir að lyfta sér.
  11. Setjið í ofninn og bakið í 40 til 45 mínútur eða þar til bakan er orðin gullinbrún og byrjuð að lyfta sér.
  12. Berið fram með fersku salati og dressingu eftir smekk.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert