Pabbi mikil fyrirmynd fyrir mig

Úlfar Örn Úlfarsson er nýr meðlimur í kokkalandsliðinu og er …
Úlfar Örn Úlfarsson er nýr meðlimur í kokkalandsliðinu og er kokkur á Torfhús Retreat. Úlfar hefur mikla ástríðu fyrir matargerðinni segir hana vaxa með degi hverjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á dögunum deildi Ísak Aron Jóhannsson, matreiðslumeistari og fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins, sinni uppáhaldsuppskrift og skoraði á Úlfar Örn Úlfarsson, nýjan meðlim íslenska kokkalandsliðsins, að gera hið sama.

Úlfar er kokkur á Torfhús Retreat þar sem hann nýtur þess að matreiða fyrir matargesti og hefur ástríðu fyrir sínu fagi. Eins og áður sagði er Úlfar nýr meðlimur í kokkalandsliðinu. „Ég er virkilega ánægður að hafa verið valinn í landsliðið. Ég kláraði matreiðslumanninn á Grillinu á Hótel Sögu, en þar vann ég í tvö og hálft ár. Síðan þá hef ég starfað á ýmsum veitingastöðum, til dæmis á Sumac og Óx, og einnig fór ég til Helsinki og vann þar á Michelin veitingastað sem heitir Olo,“ segir Úlfar og veit fátt skemmtilegra en að blómstra í eldhúsinu.

Hefurðu alltaf haft gaman af því að matreiða og baka?

„Ég hef alltaf haft annan fótinn í eldhúsum, hvort sem ég var að aðstoða við eldamennskuna eða stjórna eldhúsinu eins og ég geri í dag. Ástríða mín fyrir matreiðslu eykst með hverjum deginum, en ástríða mín er helst í „fine dining/nordic“ matreiðslu þar sem ég get svolítið leikið mér með matinn og prófað alls kyns aðferðir og útlit á réttunum.“

Stefni að því að verða jafn flottur hann

Hvar færðu innblásturinn?

„Innblásturinn kemur að mestu leyti frá pabba mínum, Úlfari Finnbjörnssyni. Hann var sjálfur í íslenska kokkalandsliðinu í 12 ár, og má segja að ég hafi alla mína tíð verið meira í kring um mat og matreiðslu heldur en ekki. Pabbi hefur verið mikil fyrirmynd fyrir mig, og stefni ég á að verða jafn flottur og hann, ef ekki flottari.“

Áttu þér þinn uppáhaldsrétt sem þú ert til í að deila með lesendum?

„Það er mjög erfitt að nefna minn uppáhaldsrétt því þeir eru svo margir, en sá sem er mér ofarlega í huga er kolagrilluð rauðspretta, kartöflumús og einstaklega góð heimatilbúin tómatsósa. Rétturinn er einfaldur og bragðgóður og býður upp á alls kyns útfærslu. Fiskréttir eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér, og hafa verið það frá því ég var polli, en ég borðaði alltaf mest þegar það var fiskur í matinn. Því hef ég sérstaklega gaman af því að matreiða fiskrétti.“

Á hvern viltu skora næst til að deila með lesendum sínum uppáhaldsrétti?

„Ég vil skora á samstarfsmann og góðvin minn úr landsliðinu, hann Jafet Bergmann Viðarsson, til þess að deila sínum uppáhaldsrétti. Ég veit að rétturinn sem hann töfrar fram verður frábær.“

Úlfar sviptir hér hulunni af uppskriftinni að kolagrilluðu rauðsprettunni og þessari dásamlegu heimalöguðu tómatsósu sem setur punktinn yfir i-ið með kartöflumúsinni.

Úlfar býður upp á dýrðlega kolagrillaða rauðsprettu með kartöflumús, chimichurri …
Úlfar býður upp á dýrðlega kolagrillaða rauðsprettu með kartöflumús, chimichurri og heimagerðri tómatsósu sem á engan sinn líka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolagrilluð rauðspretta með kartöflumús og heimalagaðri tómatsósu

Rauðsprettan

  • 4 rauðsprettuflök
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Sítrónusafi úr ferskri sítrónu eftir smekk

Aðferð:

  1. Grillið rauðsprettuna á funheitu grilli, kryddið með salti og pipar og kreistið sítrónusafa yfir.

Kartöflumús

  • 400 g kartöflur
  • 200 ml rjómi
  • 100 g smjör, skorið í kubba

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflurnar í um það bil 40 mínútur.
  2. Sigtið kartöflurnar og afhýðið á meðan þær eru heitar.
  3. Kremjið þær í gegnum sigti og setjið í pott á lágum hita.
  4. Bætið við köldu smjöri í kubbum út í.
  5. Hellið rjóma út í og blandið vel saman.

Chimichurri

  • 50 g steinselja
  • 100 g kóríander
  • 20 g skalottlaukur
  • 1 hvítlauksgeiri
  • 30 ml eplaedik
  • 100 ml ólífuolía
  • 25 ml lime safi
  • 10 g salt

Aðferð:

  1. Skerið allt fínt niður og blandið vel saman.

Heimagerð tómatsósa að hætti Úlfars

  • 4 buff tómatar
  • 2 laukar
  • 20 ml sítrónusafi
  • 50 g graslaukur
  • 20 g basil
  • 1 hvítlauksgeiri
  • Salt eftir smekk
  • 1 g svartur pipar

Aðferð:

  1. Allt skorið smátt niður og soðið í potti í 15 mínútur á meðalhita.
  2. Setjið í matvinnsluvél og blandið vel saman. Smakkið til eftir smekk.
Fallega borið fram hjá Úlfari.
Fallega borið fram hjá Úlfari. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert