Ylvoglt bananabrauð með smjöri bráðnar í munni

Nýbakaða bananabrauð gerir góðan dag betri.
Nýbakaða bananabrauð gerir góðan dag betri. Ljósmynd/Sjöfn

Hvað er betra en nýbakað, ylvoglt bananabrauð á sunnudegi? Klassíska bananabrauðið eins og amma bakaði stendur ávallt fyrir sínu og er langbest nýbakað, beint úr ofninum með smjöri. Um leið og ilmurinn berst úr eldhúsinu fer heimilisfólkið að streyma að og öllum langar að njóta. Við mælum með þessu ljúffenga bananabrauði og það er upplagt að bjóða sínum nánustu í sunnudagskaffi að njóta, hvort sem það er að degi til eða kvöldi. Hér er uppskrift að þessu klassíska bananabrauði sem steinliggur og gerir daginn betri. Einfaldleikinn er oft bestur. Hægt er að bæta við 1 dl af tröllahöfrum og minnka um 1 dl af hveiti í staðinn ef þið viljið auka hollustuna aðeins.

Bananabrauð að hætti ömmu

  • 1 egg
  • 3 dl sykur
  • 2 vel þroskaðir bananar
  • 1 tsk. salt
  • ½ tsk. matarsódi
  • 5 dl hveiti
  • Lint smjör til að smyrja formið með
  • 1 dl tröllahafra ef vill og taka þá út 1 dl hveiti á móti

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C með blæstri.
  2. Hrærið vel saman egg og sykur með sleif eða gaffli, píska vel saman.
  3. Stappið bananana í mauk og blandið við eggin og sykurinn.
  4. Bætið við salti, matarsóda og hveiti (tröllahöfrum ef vill.).
  5. Hrærið vel saman við blönduna.
  6. Smyrjið formköku form í meðalstærð með smjöri.
  7. Hellið deiginu í formið og bakið í 40 til 45 mínútur og munið að hafa ofninn stilltan á blástur.
  8. Berið fram volgt með smjöri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert