Boeuf Bourguignon með heimalagaðri kartöflumús

Hér er á ferðinni hinn frægi klassíski franski réttur Boeuf …
Hér er á ferðinni hinn frægi klassíski franski réttur Boeuf Bourgignon. Hver og einn getur gert hann með sínu nefi og valið um þykkt og magn. Samsett mynd

Hér er á ferðinni hinn frægi klassíski franski réttur Boeuf Bourgignon þar sem nautakjöt er soðið með rauðvíni og grænmeti. Þetta er ótrúlega góður pottréttur af betri gerðinni og á vel við þegar það rignir úti. Rétturinn er síðan borinn fram með heimalagaðri kartöflumús.

Fyrstu heimildir um þennan vinsæla pottrétt er frá 19. öld, seinna birtist uppskrift að réttinum í bók franska kokksins Auguste Escoffier. Þessi rétturinn var upphaflega hefðbundinn sveitaréttur sem síðan þróaðist í rétt sem má finna á bestu veitingahúsum Frakklands og nýtur mikilla vinsælda enda ljómandi góður. Það er gott að gefa sér tíma í að gera þennan rétt og leyfa kjötinu að malla með grænmetinu í dágóðan tíma. Það borgar sig líka að marínera kjötið í nokkrar klukkustundir áður en það er steikt.

Boeuf Bourguignon

  • 2 kg beinlaust nautakjöt
  • 1 flaska rautt Búrgúndarvín
  • 1 stk. lárviðarlauf
  • 1 msk. þurrkað provencekrydd eða kryddjurtakrydd
  • 2 sneiðar beikon ef vill, skorið í bita
  • 8 skalotlaukar, grófskornir
  • 2-4 hvítlaukar, þessir litlu í körfunni
  • 2-3 gulrætur, grófskornar
  • 400 g sveppir, skerið í tvennt
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Olía til steikingar
  • 2 msk. smjör
  • 2 msk. hveiti

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera kjötið í meðalstóra bita, hafa þá tvöfalt stærri en í gúllasrétti.
  2. Blandið saman rauðvíninu og kryddinu og leggið kjötbitana í fat eða mót.
  3. Hellið blöndunni yfir kjötið og marínerið kjötbitana í um það bil 4 til 5 klukkustundir.
  4. Takið kjötið upp úr vökvanum og þerrið á eldhúsbréfi.
  5. Geymið löginn, maríneringuna, þar til síðar.
  6. Setjið hveitið í skál eða fat og veltið kjötbitunum upp úr hveitinu.
  7. Steikið kjötið á heitri pönnu upp úr olíu.
  8. Setjið kjötið í stóran og góðan pott, til dæmis pottjárnspott eða pott með þykkum botni.
  9. Steikið síðan skalotlauka og beikonbitana á pönnunni og bætið svo í pottinn með kjötinu.
  10. Hellið síðan leginum, maríneringunni, yfir kjötið í pottinum og kryddið með salti og pipar.
  11. Merjið hvítlaukana út í blönduna í pottinum.
  12. Bætið gulrótunum út í.
  13. Látið suðuna koma upp og hrærið reglulega í pottinum.
  14. Lækkið hitann eftir að suðan er komin upp, þar til það rétt kraumar í pottinum.
  15. Setjið lok á pottinn og látið malla í tvær til þrjár klukkustundir.
  16. Steikið sveppina áður en bera á réttinn fram, það má sleppa sveppunum ef vill.
  17. Bætið sveppunum út í og látið malla í um það bil 5 til 10 mínútur.
  18. Bætið vatni út í sósuna ef hún er of þykk. Ef hún er of þunn er ráð að bæta við nautakrafti.
  19. Berið fram með heimalagaðri kartöflumús

Heimalöguð kartöflumús

  • 500 g kartöflur
  • 125 g smjör, skerið í kubba
  • 125 g nýmjólk, hita
  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflur með salti þar til hægt er að stinga léttilega í gegn.
  2. Sigtið kartöflurnar og afhýðið á meðan þær eru heitar.
  3. Takið þær í gegnum sigti og setjið í pott á lágum hita.
  4. Bætið við köldu smjöri í kubbum, 2-3 kubbar í einu.
  5. Bætið við heitri mjólk og smakkið svo til með salti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert