Rómantísk sumarveisla

Hekla Nína Hafliðadóttir er ung og upprennandi listakona og hélt …
Hekla Nína Hafliðadóttir er ung og upprennandi listakona og hélt á dögunum sumarveislu þar sem nýjasta keramiklínan hennar var í forgrunni. Ljósmynd/Höskuldur Þór Jónsson

Hekla Nína Hafliðadóttir stundar nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík í keramik og hefur þegar gert nokkrar keramiklínur sem hafa vakið verðskuldaða athygli.

Fyrsta lína Heklu Nínu bar heitið Karí by Hekla Nína og kom út í byrjun apríl 2022. Nýjasta lína Heklu Nínu ber heitið Sommerfest er keramiklína númer 8. Hekla Nína er mjög hæfileikarík og hefur gott auga fyrir list og litavali. Skapandi og listrænir hæfileikar hennar skína í hönnun hennar. Gaman er að geta þess að Hafliði Ragnarsson, bakarameistari, konditor og súkkulaðigerðarmeistari, er faðir hennar og á hún því ekki langt að sækja listrænu hæfileikana. Hekla Nína er aðeins 23 ára gömul, fædd og uppalin í Reykjavík og blómstrar í sínu fagi. Hún hefur þegar sett upp vefsíðuna heklanina.is þar sem hún selur handverkið sitt. Á dögunum hélt Hekla Nína sumarveislu fyrir vinkonur sínar þar sem nýja keramiklínan hennar fékk að njóta sín í fallegu og rómantísku umhverfi.

Það er stutt síðan Hekla Nína byrjaði í keramik. „Ég byrjaði í keramik árið 2021 þegar ég fór á námskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Ég heillaðist alveg af leirnum og vissi strax að ég hafði fundið eitthvað sem mig langaði að vinna meira með. Ég fór því strax að vinna í því að búa til vefsíðuna mína og setja upp lítið stúdíó heima hjá tengdaforeldrum mínum. Í apríl 2022 gaf ég út mína fyrstu keramiklínu og þaðan fór boltinn að rúlla,“ segir Hekla Nína.

Tileinkaði fyrstu keramiklínuna ömmu sinni

Innblásturinn fyrir hönnun sína sækir Hekla Nína í náttúruna og frá ömmu sinni. „Frá því að ég var lítil hef ég verið umkringd fallegum litum og blómum, ég sæki því mikið í náttúruna þegar ég er að skapa hlutina mína. Amma mín, Karí Karólína, var frá Noregi og elskaði ekkert meira en fallega liti, blóm og jarðarber með sykri og rjóma, það má segja að ég sé svolítið eins og hún, ég sæki mikið í norsku ræturnar mínar þegar ég er að skapa.

Fyrsta keramiklínan sem ég gerði var einmitt tileinkuð ömmu minni. Það má því segja að ég fái mestan innblástur frá náttúrunni og öllu sem er í henni. Þegar mig vantar hugmyndir finnst mér alltaf gott að taka göngutúr í fallegu umhverfi.“

Sérstaðan í hönnuninni er hlýja og gleði.
Sérstaðan í hönnuninni er hlýja og gleði. Ljósmynd/Höskuldur Þór Jónsson

Trúir því að matur bragðist betur á fallegu leirtaui

Aðspurð segir Hekla Nína að það sé kannski ekki neinn leyndardómur á bak við nýjustu línuna. „Ég skapa hlutina mína af ást og hlýju og mér finnst mikilvægt að gera hluti sem mér finnst fallegir og gaman að búa til.“ Nýja línan inniheldur fallegan borðbúnað sem hægt er að nota á marga vegu. „Það eru bollar, undirskálar fyrir bolla, matardiskar, kertastjakar og skeljaskálar. Hlutina er hins vegar hægt að nota á marga vegu, ég nota undirskálarnar mínar til dæmis oft undir skartgripi eða kerti.

Sérstaða mín er í raun að búa til hluti sem fegra heimilið sama hvort það er fyrir eldhúsið eða önnur herbergi á heimilinu. Ég vil að hlutirnir mínir veiti gleði og hlýju og fegri það umhverfi sem þeir eru í. Fyrir mér eru það litlu hlutirnir í kringum okkur sem eru svo mikilvægir. Ég hef mest verið að búa til bolla og hluti fyrir matarborðið því ég trúi því að matur bragðist betur á fallegu leirtaui. Ég bý þó líka til lampa, vasa og aðra hluti fyrir heimilið.“

Nýja keramiklínan Sommerfest eða Sumarveisla einkennist af fallegum litum, mörgum …
Nýja keramiklínan Sommerfest eða Sumarveisla einkennist af fallegum litum, mörgum blómum og góðum mat. Ljósmynd/Höskuldur Þór Jónsson

Þemað norsk sumarveisla

Á dögunum hélt Hekla Nína sumarveislu þar sem keramiklínan fékk að njóta sín. „Ég er rosalega mikið afmælisbarn og ákvað því að halda veislu til að fagna afmælinu mínu og nýju keramiklínunni minni. Þema veislunnar var norsk sumarveisla eða Sommerfest, sem er einmitt nafnið á kermiklínunni. Sommerfest einkennist af fallegum litum, mörgum blómum og góðum mat. Við buðum upp á ferskt melónu- og fetaostasalat, avókadópasta og bruschettur. Öll fallegu blómin í veislunni fengum við í Grænum markaði. Kakan í veislunni var ljúffeng sítrónukaka og var að sjálfsögðu frá Mosfellsbakaríi, gerð af

Rúnari Fel og skreytt af pabba. Mér finnst alltaf gaman að kíkja í Söstrene Grene þegar ég er að halda veislur, þar finnur maður allskonar fallegt til að skreyta með. Ég hef lært mikið af mömmu minni sem heldur alltaf flottustu veislurnar og nær alltaf að gera allt fallegt í kringum sig og var hún svo sannarlega mikil hjálp í þessari veislu.“

Súkkulaðigerð og keramik eiga mikið sameiginlegt

Þegar Hekla Nína er spurð út hæfileika sína í bakstri og súkkulaðigerð segist hún ekki vera mikið á því sviði. „Ég hef nú ekki mikið verið í bakstri og súkkulaðigerð en ég og pabbi höfum oft talað um það hvað súkkulaðigerð og keramik eiga mikið sameiginlegt, sem er mjög fyndið og skemmtilegt. Pabbi var til dæmis að búa til súkkulaðibakka á fæti um daginn og ferlið á bak við það er mjög svipað og ef ég væri að búa til bakka úr leir,“ segir Hekla Nína og hlær.

Hekla Nína segist alltaf vera að vinna í nýjum hlutum fyrir vefsíðuna. „Það sem má búast við á næstunni eru ný hekluð hárbönd og hattar sem ég og mamma mín, Ellisif Astrid, gerum saman. Ég er einnig byrjuð að búa til keramik á rennibekk, hingað til hafa allar keramiklínurnar mínar verið handmótaðar. Það má því búast við nýrri línu sem verður rennd og ég er ótrúlega spennt að sýna meira frá henni.“

Hekla Nína hefur mikla ástríðu fyrir því að skapa og líka fyrir aðra. Hún er opin fyrir öllum sérpöntunum, ef fólk vill panta matarstell eða er með einhverja skemmtilega hugmynd að sérpöntun þá er hægt að hafa samband við Heklu Nínu í gegnum netfangið hennar heklanina@gmail.com eða á Instagram-síðu hennar @studio.heklanina Það verður spennandi að fylgjast með Heklu Nínu í framtíðinni og hennar listsköpun.

Fallega dekkað borð með rómantísku ívafi þar sem nýja keramiklínan …
Fallega dekkað borð með rómantísku ívafi þar sem nýja keramiklínan hennar Heklu Nínu er í forgrunni. Ljósmynd/Höskuldur Þór Jónsson
Innblásturinn í hönnun sína sækir hún í náttúruna og norskar …
Innblásturinn í hönnun sína sækir hún í náttúruna og norskar rætur sínar. Ljósmynd/Höskuldur Þór Jónsson
Hekla Nína hefur mest verið að búa til hluti fyrir …
Hekla Nína hefur mest verið að búa til hluti fyrir matarborðið enda hefur hún trú á því að maturinn bragðist betur á fallegu leirtaui. Ljósmynd/Höskuldur Þór Jónsson
Kakan á fallega kökudisknum úr nýju línunni er sítrónukaka úr …
Kakan á fallega kökudisknum úr nýju línunni er sítrónukaka úr Mosfellsbakaríi, bökuð af Rúnari Fel og skreytt af pabba Heklu Nínu, Hafliða súkkulaðimeistara. Ljósmynd/Höskuldur Þór Jónsson
Fallegir, mildir pastellitir einkenna línuna hennar Heklu Nínu.
Fallegir, mildir pastellitir einkenna línuna hennar Heklu Nínu. Ljósmynd/Höskuldur Þór Jónsson
Sumarveislan var hið rómantíska og móður Heklu Nínu aðstoðaði hana …
Sumarveislan var hið rómantíska og móður Heklu Nínu aðstoðaði hana við skreytingarnar. Ljósmynd/Höskuldur Þór Jónsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert