Glænýr og spennandi staður, Smjör bistro og bar, hefur opnað í Gallery Hafnartorg þar sem ástríðan fyrir smurbrauðsgerð er allsráðandi. Það er engin önnur en smurbrauðsdrottningin Marentza Poulsen sem á heiðurinn að öllum uppskriftunum að smurbrauði og réttum sem þar eru framreiddir. Ásgeir Hjartarson og æskuvinur hans standa að staðnum og Ásgeir segir að þeir séu spenntir fyrir komandi tímum.
Ásgeir Hjartarson er búinn að vera í hár og tískubransanum til fjölda ára. „Ég ákvað að venda kvæði mín í kross og opna veitingastað og opnaði Black Dragon veitingastaðinn síðasta haust á Hafnartorgi ásamt æskuvini vini mínum og meðeiganda, sem er á flugi núna. Okkur bauðst svo að taka við þessu plássi sem er beint á móti Black Dragon á Hafnartorgi þar sem veitingastaðurinn Smjör Bistro Bar fæðist,“ segir Ásgeir.
Konseptið á bak við staðinn er „scandinavian cousine“, danskt smurbrauð, eftirréttir og bar. „Þetta var það eina sem okkur datt í hug að myndi passa þarna inn þar sem þessi matargerð er ekki til staðar þarna inni og það vantaði líka eftirrétti þarna inn.“ Þegar ákvörðunin um konseptið var komin fannst Ásgeiri skipta máli að fá fagmanneskju í smurbrauðsgerð með þeim í lið. „Ég hafði því samband við hana Marentzu Poulsen sem er náttúrulega smurbrauðsdrottning Íslands og yfir höfuð meistari, en var svo sem ekkert að búast við því að hún myndi gefa sér tíma til að tala við einhvern fyrrverandi hárgreiðslugæja sem vildi opna smurbrauðsstað, en Marentza tók svo vel á móti okkur, jákvæðnin og bjartsýnin sem þessi manneskja býr yfir er engu lík og eftir fyrsta fund var eins og við hefðum farið í einhvers konar þerapíu í mannlegum samskiptum eða eftir tíma hjá sálfræðingi. Okkur leið svo vel eftir að hafa eytt tíma með henni, þvílíkur viskubrunnur, drifkraftur, reynsla, jákvæðni. Hún er algjört ljós, við hefðum ekki opnað staðinn ef ekki hefði verið fyrir hana,“ segir Ásgeir.
Allir réttirnir eru hugmyndasmíði Marentzu. „Marentza er frá a – ö hugmyndasmiðurinn á bak við alla réttina og allar uppskriftir eru frá henni. Allir réttirnir eru gerðir frá grunni með ást og alúð í fararbroddi. Starfsfólkið okkar er búið að vera í þjálfun hjá henni síðastliðna mánuði á Klömbrum Bistro á Kjarvalsstöðum sem hún rekur í dag sem er undursamlega fallegur bistro í listrænu umhverfi þar sem hinn sanni lista andi svífur yfir vötnum og æðislegur matur og þjónusta.“
Mikill undirbúningur hefur verið í tengslum við opnunina. „Marentza er búin að vera niðrá Hafnartorgi frá afhendingu plássins eins og herforingi að kenna okkur öllum handtökin í veitingabransanum líka sem er ekkert annað en gull fyrir okkur og þau sem eru við hliðina á henni. Maður lærir svo lengi sem maður lifir og Marentza er yndislegur kennari og skiptir engu máli hvort þú sér ungur eða gamall, hún er með þetta allt.“
Falleg saga er bak við nafn staðarins. „Nafnið Smjör kom út af því að ég var að gramsa í gömlum greinum á greinasafni Morgunblaðsins og var ég sérstaklega að leita eftir matarauglýsingum, gömlum uppskriftum í blöðum kringum 1950 - 1960, mamma mín er efst í huga þegar ég er leita að innblæstri fyrir staðinn en hún lést skyndilega í júlí í fyrra. Hún var mikið fyrir að klippa út uppskriftir og líma inn í bók sem ég á eftir hana, þ.e.a.s. úrklippur úr allskonar blöðum og bókum sem innihalda uppskriftir af kökum og mat. Án þess að ég gerði mér grein fyrir því hvaðan ég fékk þessa hugmynd þá var hún komin þarna allan tímann. Ég þurfti bara að framkvæma þetta og koma þessu út. Hönnun matseðilsins endurspeglar einmitt þennan anda, þar sem grafíkin í kringum réttina eru skæri og brotalína sem segir klippið út og geymið. Alveg eins og gömlu dagblöðin sögðu þér að gera „back in the days“, og langar mig að tengja mömmu við þessa hugmynd og tileinka henni þennan stað.“
Aðspurður segir Ásgeir ástæðuna fyrir því að þeir völdu aftur að opna stað á Hafnartorgi vera þá að þeir telji að þetta verði nýi miðbærinn fyrir Reykjavík. „Höfnin er sjarmerandi og þetta svæði er mjög fallega hannað þó svo að það séu skiptar skoðanir á skipulagi á reitnum, en mér persónulega líður vel nálægt hafi og sjó þar sem ég er síbreytilegur, syndi á móti straumnum, dreymandi fiskur að eðlisfari og elska sjávarlykt. Ég tel að uppbyggingin sem á sér þarna stað komi til með að slá í takt við hjörtu fólks sem uppgötvar þetta svæði.“
Ásgeir horfir björtum augum til framtíðarinnar. „Ég vona svo sannarlega að fólk prófi að koma og láti ekki bílastæðadrauginn fæla sig í burtu og upplifi list, verslun og menningu í bland við góða matreiðslu og flotta staði á Hafnartorgi.