Þetta er gott að borða á Austurlandi

Ljósmynd/Samsett

Austurland er án efa ein mesta matarkista Íslands. Þar eru góð skilyrði til ræktunar, sjór og vötn full af fiski, hreindýr og villtir fuglar á heiðum og þar er einnig eina wasabi-ræktun landsins. Hér eru nokkrar ábendingar um hvað og hvar er best að borða á Austurlandi

Fiskur og sjávarfang

Margir veitingastaðir bjóða upp á góðan fisk og fiskmeti. Þeir sem vilja prófa eitthvað alveg einstaklega spennandi og gott ættu til dæmis að fara á Norð-Austur Sushi & bar á Seyðisfirði. Þessi staður hefur verið opinn á sumrin í nokkuð mörg ár og raunar verið kosinn besti sushistaður landsins, matseðillinn er einstaklega frumlegur, góður og spennandi en unnið er með hráefni úr héraði. Annar metnaðarfullur staður með sælkerarétti úr fiski er Nielsen-veitingahúsið á Egilsstöðum.

Fathul Abrar/Unsplash

Villibráð

Allir sem koma á Austurland verða að smakka einhverja villibráð og af henni er nóg til á þessu svæði, sér í lagi á haustin. Á Aski Pizzeriu á Egilsstöðum er alltaf boðið upp á eina pítsu með heiðagæsahakki sem mælt er með. Nielsen hefur oft verið með villibráð en það fer eftir framboði og árstíð en veitingastaðurinn skiptir ört um matseðil. Á Skriðuklaustri er yfirleitt hægt að fá hreindýr. Eldhúsið Restaurant, sem er á Gistihúsinu Egilsstöðum, er einnig með hreindýrasteik á sínum matseðli.

Wasabi

Óvíða í heiminum er wasabi ræktað enda þarf að uppfylla sérstök skilyrði og fá leyfi frá Japan til ræktunar en það hefur þeim á Austurlandi tekist. Þeir matsölustaðir sem vinna með hráefnið eru til dæmis veitingastaðurinn Nielsen, Norð-Austur Sushi & bar auk þess sem veitingastaðurinn 1001 nótt gefur sig út fyrir að vinna með staðbundið hráefni.

Bygg

Þetta skemmtilega hráefni er ræktað af fyrirtækinu Móður jörð sem er á Austurlandi en þar er rekið lítið kaffihús, Asparhúsið, sem býður upp á góðan morgunverð og heilnæmar máltíðir úr jurtaríkinu.

Villtir sveppir

Mikið úrval af villtum sveppum finnst á Austurlandi og víða er hægt að fá góða sveppasúpu. Á matsölustaðnum Kol bar & Bistro á Hótel Hallormsstað er hún oft á matseðli, á Skriðuklaustri er líka gjarnan hægt að fá sveppasúpur og svepparétti. Leitið að réttum með sveppum úr héraði, þá er oft að finna til dæmis á forréttaseðlunum.

Mjólkurvörur, skyr og ostar

Á Fjóshorninu á Egilsstöðum er rekið lítið mjólkurbú þar sem framleitt er skyr og ostar sem margir veitingastaðir í héraðinu nýta sér. Fjóshornið rekur líka lítið kaffihús og verslun þar sem hægt er að kaupa ýmsar kræsingar beint frá býli.

Ahmadreza Rezaie/Unsplash

Pönnukökur og bakkelsi

Á Óbyggðasetrinu er hægt að fá ekta íslenskar pönnukökur með heimagerðri rabarbarasultu og rjóma ásamt ýmsu öðru heimagerðu bakkelsi. Þeir sem elska góðar íslenskar hnallþórur ættu að fara á Bókakaffið á Hlöðum en þar er yfirleitt kökuhlaðborð á föstudögum, þar er líka boðið upp á heimilislegan mat.

Pönnukökur eru ómissandi á ferðalaginu.
Pönnukökur eru ómissandi á ferðalaginu. Monika Grabkows/Unsplash
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert