Frægasta sveppasúpa í heimi

Farmers Bistro veitingastaðurinn á Flúðum nýtur mikilla vinsælda og þykir …
Farmers Bistro veitingastaðurinn á Flúðum nýtur mikilla vinsælda og þykir sveppasúpan þar var sú besta í heimi. Portobelloborgarinn lítur líka ómótstæðilega vel út. Samsett mynd

Flúðir á Suðurlandi er ört vaxandi þéttbýliskjarni og afar vinsæll staður að heimsækja, þekktur fyrir veðursæld og stutt í fallegar náttúruperlur. Fjölbreytt þjónusta og afþreying er í boði á Flúðum og næsta nágrenni í sveitinni. Fjölbreytni er að finna í veitingastaðaflórunni á svæðinu þar sem hráefnið úr nærumhverfinu leikur aðalhlutverkið. Meðal veitingastaða er Farmers Bistro sem er geysivinsæll veitingastaður, afsprengi Flúðasveppa og Flúðajöfra. En Flúðasveppir er eina sveppabú landsins og ræktar um 600 tonn af úrvals sveppum árlega landsmönnum til mikillar gleði.

Sveitarómantík er að finna á Farmers Bistro.
Sveitarómantík er að finna á Farmers Bistro. Ljósmynd/Farmers Bistro

Á veitingastaðnum Farmers Bistro eru afurðir frá stöðinni er nýttar í fjölbreytta sælkera rétti. Ragnheiður Georgsdóttir markaðsstjóri Flúðasveppa og Flúðajöfra er rekstrar- og viðburðarstjóri Farmers Bistro. Faðir hennar Georg hefur byggt upp Flúðasveppi og Flúðajöfra ásamt fjölskyldu sinni. Draumur hjá pabba var ávallt að opna veitingastað og hugmyndin kom svo árið 2015. Ég er enn þá úti í Danmörku á þessum tíma. Pabbi sagði mér frá þessu og spurði hvort ég væri ekki til í að vera með honum í þessu verkefni. Þetta var auðvitað tilvalið fyrir mig og mína menntun þannig að þetta var svo sem ekki erfið ákvörðun. Svo árið 2017 flyt ég heim og við opnum veitingastaðinn um sumarið,“ segir Ragnheiður. Staðurinn dafnað og vaxið síðan og nýtur mikilla hylli ferðamanna.

Sælkera hlaðborðið nýtur mikilla vinsælda.
Sælkera hlaðborðið nýtur mikilla vinsælda. Ljósmynd/Farmers Bistro

Sælkerahlaðborðið langvinsælast

Innblásturinn að hönnuninni á staðnum er stílhrein sveitarómantík. Staðurinn er rústík hannaður með hlýleika í forgrunni. Fyrst og fremst er verið að framreiða mat úr því sem ræktað er á Flúðajöfra og Flúðasveppum og úr nærumhverfinu. Aðspurð segir Ragnheiður að þau eigi öll heiðurinn af uppskriftunum af þeim réttum sem boðið er upp á á Farmers Bistro. „Við vinnum öll saman að því að koma með hugmyndir og útfærslu, við erum svo heppin að vera með frábært starfsfólk sem fer með okkur í þankahríð fyrir matargerðina. Sælkerahlaðborðið á Farmers Bistro er langvinsælast. „Þar sveppasúpan okkar í aðalhlutverki, nýbökuð brauð og allskonar gúmmulaði úr okkar hráefnum. Þemað á hlaðborðinu er sveppir og paprikur,“ segir Ragnheiður. Sveppasúpan á Farmers Bistro er sögð sú besta í heimi og sú frægasta, matargestir hafa hreinlega misst sig yfir henni. Margir hafa reynt að komast yfir uppskriftina en Ragnheiður segir uppskriftina vera hernaðarleyndarmál. Síðan nýtur Portobello borgarinn mikilla vinsælda enda eru portobello sveppirnir einstaklega matarmiklir og bragðgóðir. Á Flúðasveppum eru þrjár tegundir sveppa ræktaðir, venjulegir matarsveppir, kastaníusveppir og portobello. Allt brauð er bakað á staðnum og er borið fram glóðvolgt og ilmandi. 

Ragnheiður deilir hér með lesendum uppskrift af smjörsteiktum sveppum sem njóta líka mikilla vinsælda á hlaðborði Farmers Bistro.

Smjörsteiktir sveppir að Farmers Bistro stíl

  • 250 g af sveppum (helst litlum)
  • 50 g af smjöri
  • 1 msk. olía
  • 2 tsk. salt
  • 1 msk. timian

Aðferð:

  1. Setjið smjör og olíu á pönnu og bræðið.
  2. Bætið sveppunum við.
  3. Látið malla í 10 mínútur áður en kryddinu er bætt við.
  4. Steikið í um það bil 30 mínútur eða þangað til þeir náð gylltum lit.
  5. Berið fram með því sem hugurinn girnist og njótið. 
Þessi sveppasúpa er sögð sú besta í heimi og jafnframt …
Þessi sveppasúpa er sögð sú besta í heimi og jafnframt sú frægasta. Ljósmynd/Farmers Bistro
Portobelloborgarinn lítur ómótstæðilega girnilega út.
Portobelloborgarinn lítur ómótstæðilega girnilega út. Ljósmynd/Farmers Bistro
Hér er á ferðinni fyllt paprikuvefja með rifnu lambi, sveppum …
Hér er á ferðinni fyllt paprikuvefja með rifnu lambi, sveppum og BBQ sem borin er fram með fersku salat. Ljósmynd/Farmers Bistro
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka