Langar þig að koma ferðafélaganum á óvart og gleðja hann með morgunverði sem er bæði fallegur og ljúffengur. Þessi samsetning af ómótstæðilegri beyglu er fullkomin til að bræða matarhjartað. Hægt er að fara í bakaríið snemma að morgni og kaupa nýbakaðar beyglur eða kaupa frosnar beyglur og taka með í ferðalagið og útbúa þessa sælkera beyglu. Þessa er erfitt að standast. Upplagt er að setja á beygluna sælkera álegg eins og reyktan lax og annað gott.
Þeir sem eru lengra komnir í bakstri og hafa nógan tíma geta auðvitað bakað beyglur eftir sínu eigin höfði. Hér er á ferðinni ómótstæðileg beygla með reyktum laxi, rjómaosti, avókadó, eggjahræru, fersku salati, steinselju og sprettum. Hægt er að skreyta diskinn frekar með létt bökuðum tómötum og fersku salati að eigin val. Einn svona diskur á við heila dögurð. Uppskriftin er fyrir tvo.
Ómótstæðilega beygla með reyktum laxi, avókadó og rjómaosti
- 2 stk. nýbakaðar beyglur eða frosnar frá Myllunni
- 4 – 6 sneiðar af reyktum laxi
- 1 stk. avókadó
- 2 egg (fyrir ommeletturnar)
- Gróft salt og pipar eftir smekk
- Rjómaostur
- Nokkrar greinar af ferskri steinselju
- Salat að eigin vali og eftir smekk
- Sprettur að eigin vali, t.d. baunarspírur, radísuspírur eða það sem er hendi næst.
- Rauðlaukur í sneiðum eftir smekk
- Þurrkað dillkrydd eftir smekk
- Ólífuolía til steikingar
- Rifinn parmesan ostur til skrauts
Aðferð:
- Byrjið á því að píska eggin saman.
- Hitið ólífuolíu á lítilli pönnu.
- Hellið eggjablönduna á pönnuna og hrærið með spaða þar til eggjahræran er tilbúin.
- Kryddið með salti og pipar eftir smekk.
- Skerið síðan 4 til 6 sneiðar af reyktum laxi.
- Skerið beyglurnar í tvennt, þversum og ristið.
- Setjið botnana á sinn hvorn diskinn.
- Smyrjið botnana tvo með rjómaosti og kryddið til með dilli.
- Setið tvær til þrjár sneiðar af laxi á hvort botn, ofan á rjómaostinn.
- Bætið við steinselju og fersku salati á hvorn botn.
- Skreytið með salati, sprettum, rauðlaukssneiðum, ofnbökuðum tómötum eða hvað eina sem heillar ykkar bragðlauka.
- Skerið avókadóið í sneiðar og setjið sinn hvorn helming við botnana á diskunum líkt og gert er að myndinni.
- Setjið smá eggjahræru ofan hvorn botn.
- Leggið lokin yfir botnana, án þess að þrýsta ofan á, vert að setja lokin yfir hálfa beygluna og leyfa álegginu að njóta sín.
- Skreytið með rifnum parmesan osti.
- Berið fram á fallega skreyttum disk og með hollustu safa eftir smekk.
- Njótið með ferðafélaganum.