Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir sælkeri sem heldur úti uppskriftasíðunni Döðlur og smjör elskar að prófa nýja rétti og gleðja bragðlaukana, Hún fór til að mynda á grískan veitingarstað í fríinu sínu á Spáni og pantaði sér rétt svipaðan þessu í forrétt og heillaðist upp úr skónum. Hér er á ferðinni ómótstæðilega góður grillaður ostakubbur sem á sér fáa líka. „Hvað þetta var gott að ég ákvað að endurtaka leikinn heima og deila því með ykkur,“ segir Guðrún Ýr á matarblogginu sínu. „Að sjálfsögðu þurfti ég samt að breyta vel til, því þannig er ég bara en hugmyndin sú sama.Þessi grillaði ostur er frábær sem forréttur borinn fram með brauði, kexi eða snakki en líka með grillmatnum meðal annars sem fylling í bakaðar kartöflur.“
Grillaður ostakubbur með grísku ívafi
- 1 stk. ostakubbur
- ¼ rauð paprika
- 5 cm blaðlaukur
- 5-10 grænar ólífur
- 2 msk. ólífuolía
- 1 msk. oreganó
- salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Byrjið á því að kveikja á grillinu hjá ykkur en einnig er hægt að elda ostinn í ofni.
- Takið fram álpappír, um það bil 30 cm á lengd og setjið salat ostinn fyrir miðju.
- Skerið þá grænmetið smátt niður og blandið saman í skál, setjið grænmetið ofan á ostinn. Dreifið olíunni yfir ostinn og grænmetið, sáldrið oregano yfir og toppið með salt og pipar.
- Brjótið þá álpappírinn saman, ég tek hann saman í miðjunni og brýt hann niður nokkrum sinnum og tek síðan hliðarnar inn.
- Setjið á grillið og leyfið að eldast í 15-20 mínútur. Osturinn ætti þá að vera orðinn vel bræddur.
- Berið strax fram með pita brauðið, kexi, eða snakki. Hafið ostinn í álpappírnum til að halda hita á honum en hann er snöggur að forma sig aftur.