Hlöðueldhúsið í Þykkvabæ er glæsilegur veitingastaður í gamalli hlöðu sem hefur verið gerð upp frá grunni og umbreytt í veglegan veislusal og tæknivætt eldhús sem býður meðal annars upp á að gestir eldi matinn sjálfir. Á móti hlöðunni er gamall stríðsárabraggi sem hefur verið breytt í gróðurhús en þar ræktaðar eru kryddjurtir, grænmeti og fleira er síðan notað á veitingastaðnum.
„Allt er reynt að gera í ítrustu sátt við náttúru og umhverfi og má í því samhengi nefna að öll vatns- og húshitun notast við varmadælukerfi, við löbbum eftir kartöflum til nágranna okkar á næsta bæ og öll lífræn efni sem falla til í eldhúsinu eru nýtt til moltugerðar og moltan síðan nýtt til ræktunar í gróðurbragganum,“ segja þau Dana Ýr Antonsdóttir og Vilhjálmur A. Einarsson sem reka Hlöðueldhúsið.
Hjónin Dana og Vilhjálmur tóku við rekstrinum á Hlöðueldhúsinu nýlega af þeim Hrönn og Þórólfi sem byggðu þetta upp frá grunni. „Amma hennar Dönu, Guðbjörg Antonsdóttir, er systir Þórólfs, og hún gaf allri fjölskyldunni einmitt í jólagjöf, jólin 2021, upplifun í Hlöðueldhúsinu. Við urðum bæði alveg uppnumin af þessari hugmyndafræði og Hlöðunni sjálfri í þeirri heimsókn, svo þegar þau hjónin vildu setjast í helgan stein og selja þetta var erfitt að hugsa til þess að missa þetta úr fjölskyldunni,“ segir Vilhjálmur.
Tilurðin bak við Hlöðueldhúsið er einstaklega falleg og leyndardómsfull. „Hrönn og Þórólfur ráku Kaffi Loka við Hallgrímskirkju í 10 ár og langaði að fara í aðeins rólegra umhverfi en halda áfram í þessum bransa, ásamt því að fara lengra með hugmyndafræði þeirra á Kaffi Loka. Þau hönnuðu eldhúsið á þann skemmtilega hátt að það er útbúið fjórum fullbúnum eldunarstöðvum. Þeir hópar sem koma hingað í hópefli hjálpast að við matreiðslu á glæsilegri fjögurra rétta máltíð, ásamt því að fá skoðunarferð í gróðurbraggann, kennslu í flatbrauðsgerð og tónlistaratriði. Það myndast oft gríðarlega mikil stemning í eldhúsinu og oft brestur hópurinn í söng eða einhver sest við píanóið á barnum og leikur fyrir dansi. Allir setjast svo saman og njóta árangurs erfiðisins,“ segir Vilhjálmur og bætir við að þarna hafi sveitarómantíkin blómstrað samhliða matargerðinni.
Sérstaða Hlöðueldhússins er að vera með íslenskt hráefni úr nærumhverfinu. „Hlöðueldhúsið vinnur mikið með þekkt íslensk hráefni eins og lambakjöt, hrossalundir og þorsk, en setur það í nýjan búning með framandi bragði. Fólk sem kemur í hópeflið lærir oft mikið af uppskriftunum okkar sem það tekur með sér í eldhúsið heima,“ segir Dana. „Þetta er líka ekki bara veitingastaður sem selur mat. Hvort sem fólk bókar tilbúna veislu eða hópefli, þá fær það heilmikla upplifun eins og áður sagði. Við hlið barsins er alltaf tengdur hljóðnemi, gítar og flygill, en Dana er mikið í tónlist svo okkur finnst mjög gaman að geta boðið upp á smá einkatónleika á milli rétta,“ segir Vilhjálmur.
Aðspurð segja þau Dana og Vilhjálmur að Hrönn og Þórólfur hafi sjálf hannað rýmið. „Þau horfðu svolítið til gamalla kennslustofa í matreiðslu við það. Hlýlegt og heimilislegt með nóg af tólum og tækjum til að taka á móti stórum hópum. Salurinn er svo einstaklega hlýr og notalegur. Þar er hátt til lofts, virkilega vel heppnuð lýsing og upprunalegu timbri gefið nýtt hlutverk. Einn steypti útveggurinn fékk að halda sér sem gefur skemmtilegan hráleika.“
Kryddjurtir, grænmeti og skrautblóm er meira og minna ræktað á staðnum. „Við ræktum flestar kryddjurtir, grænmeti og skrautblóm sjálf í bragganum okkar. Kartöflur skipa auðvitað stórt hlutverk á matseðlum okkar og þær fáum við hjá frábærum nágrönnum okkar í Þykkvabæ. Kjöt er sótt upp á Hellu eða annars staðar á Suðurlandi eftir atvikum. Við reynum eftir fremsta megni að sækja ekki vatnið yfir lækinn og nota helst hráefni sem allra næst okkur.“
Hópefli í Hlöðueldhúsinu nýtur mikilla vinsælda. „Það er afar vinsælt að vinnustaðir bóki hjá okkur hópefli og eldi saman. Þetta er frábær leið til að þétta hópinn að fá einföld verkefni til að leysa í litlum hópum, þar sem allir fá að gera eitthvað. Það er alltaf jafn gaman að sjá hvað fólk nær að koma sjálfu sér á óvart þegar það sest svo niður og borðar glæsilega matinn sem það framreiddi. Svo er að aukast töluvert að hópar í hestaferðum komi hér í veislumat, söng og gleði eftir langan dag á baki. Þá mæta þau beint í fordrykk og tónlistaratriði frá Dönu á meðan Vilhjálmur leggur lokahönd á veislumatinn,“ segir Vilhjálmur. Matseðilinn er rómaður fyrir íslenskar kræsingar og sumir réttir eru vinsælli en aðrir. „Af matseðlinum er það ávallt hinn frægi rúgbrauðsís sem slær í gegn hjá okkur. Hann nær alltaf að koma fólki skemmtilega á óvart.“
Að sögn Vilhjálms er lítið má að hafa samband og bóka tíma fyrir hópefli og koma með óskir fyrir hópa. „Yfirleitt er einhver einn sem fer fyrir hópnum búinn að hafa samband við okkur og ræða matseðil og fjölda þátttakenda o.þ.h. nokkru áður en kemur að deginum. Með hverjum hópi smíðum við einstaka upplifun, hvort sem þau vilja taka þátt í eldamennskunni eða koma hingað að borða. Sumir vilja bara borða en gjarnan prófa að gera flatbrauð og fá skoðunarferð um gróðurbraggann. Aðrir velja allan pakkann, fjögurra rétta veislu með flatbrauðsgerð, tónlist og öllum þeim skoðunarferðum og fræðslumolum sem við bjóðum upp á. Við viljum ætíð sníða upplifunina að þörfum og óskum hvers og eins, því þetta er jú dagurinn þeirra í Hlöðueldhúsinu í Þykkvabæ.“
„Mest kemur fólk af Suðurlandinu og Höfuðborgarsvæðinu. Þetta er rúmur klukkutíma akstur frá Reykjavík og við erum mikið að taka á móti vinnustöðum þaðan. Við erum svo að vinna í því að bjóða meira upp á styttri heimsóknir fyrir minni hópa hvenær sem er dags, til að geta mætt þörfum erlendra ferðamanna,“ segja Dana og Vilhjálmur. „Við viljum gjarnan vekja athygli á því líka að Hlaðan er einstaklega hentug í allskonar viðburði og helst viljum við ávallt hafa hér fólk. Hér hafa verið haldnir tónleikar og upplestrar og við stefnum á að auka við. Þá er í boði að leigja salinn með eða án eldhúsaðstöðu en hann hentar einstaklega vel fyrir afmælis-, brúðkaups- og skírnarveislur.“ Fyrir áhugasama þá er hægt að hafa samband við Vilhjálm og Dönu gegnum netfangið þeirra hlodueldhusid@gmail.com eða hafa samband símleiðis í síma: 867-4202.
Matarvefurinn fékk Vilhjálm og Dönu til að deila með lesendum uppskrift sem kemur úr Hlöðueldhúsinu og slær ávallt í gegn. „Hér er dæmi um einn rétt sem þátttakendur okkar elda sjálfir og slær alltaf í gegn, enda með eindæmum góður,“ segir Vilhjálmur. Hér er um að ræða dásamlegan humar í ostaskel sem allir sjávarréttaunnendur missa sig yfir.
Þessi réttur er gjarna borin fram sem forréttur og er hinn glæsilegasti. Uppskriftin er þrískipt. Fyrst gerum við ostaskel, síðan hvítlaukssósu og að lokum er humarinn hreinsaður og eldaður.
Fyrir 12 manns
Ostaskel
Aðferð:
Hvítlaukssósa
Aðferð:
Humarinn
Aðferð:
Samsetning