Álftanes kaffi, sem er fjölskyldurekið kaffihús og bistró og hefur notið mikilla vinsælda, verður lokað 14. júlí næstkomandi. Kaffihúsið hefur verið rómað fyrir bakkelsið og pítsurnar en allt er eldað og bakað á staðnum. Snúðarnir hafa runnið út eins og heitar lummur og pítsurnar þykja þær bestu í bænum.
Hjónin Skúli Guðbjarnarson veitingamaður og Sigrún Jóhannsdóttir, sem eiga og reka kaffihúsið, birtu eftirfarandi auglýsingu á fésbókarsíðu Álftanes kaffis í gær þar sem segir að kaffihúsinu verði lokað 14. júlí næstkomandi eftir átta farsæl ár og það sé gert í góðri samvinnu við bæjaryfirvöld. Þau segja að þetta hafi verið skemmtilegur tími og þakka viðskiptavinum sínum fyrir góðar stundir.
Ljóst er að kaffihússins verður saknað á Álftanesi.