Spaghetti Bolognese að hætti Ítala er ótrúlega ljúffengur réttur þar sem nostrað er við matargerðina og bragðið fær að njóta sín. Ef kjötsósan fær að malla í dágóðan tíma fær rétturinn enn betra bragð og mýkt. Tilvalið að eiga góðan dag saman í eldhúsinu á ítalska vísu og elda bolognese. Síðan er upplagt að baka ítalskt brauð með og vera með nógu mikið af parmesan osti til að rífa yfir réttinn og jafnvel setja yfir brauðið meðan það er ylvolgt.
Spaghetti Bolognese að hætti Ítala
- Ólífuolía fyrir steikingu
- 2 laukar, saxaðir
- 3-5 hvítlauksgeirar eða 1-2 litlir hvítlaukar saxaðir, magn eftir smekk
- 2-3 stilkar sellerí, smátt skornir og soðnir í 2-3 mínútur fyrir notkun (má alveg sleppa)
- 2-3 gulrætur, smátt skornar
- 1 kg nautahakk
- 2 dósir/krukkur niðursoðnir lífrænir tómatar
- 1 lítil krukka tómatpaste
- 1-2 tsk. paprikukrydd
- Svartur nýmalaður pipar eftir smekk
- Tabascosósa eftir smekk
- 1-2 dl vatn
- Handfylli fersk basilíka, gróft söxuð
- Skvetta af rauðvíni, má sleppa
- Nokkrar greinar af basilíku til skrauts
- Parmesan ostur, til að rífa yfir þegar rétturinn er borinn fram
- 500 g af spaghetti að eigin vali (1 pakki)
Aðferð:
- Byrjið á því að steikja nautahakkið á pönnu án olíu.
- Setjið síðan ólífuolíu í góðan pott, setjið grænmetið í pottinn og steikið þar til það er mjúkt.
- Síðan er tómötunum bætt út í ásamt steikta hakkinu.
- Kryddið með nýmöluðum svörtum pipar, paprikukryddi og tabasco eftir smekk. 4-5 dropar af tabasco er mjög fínt út í.
- Að lokum setjið þið ferska grófsaxaða basilíku út í eftir smekk.
- Látið réttinn malla í um það bil 2 klukkustundir, má vera skemur, en þessi réttur verður betri því meiri tíma sem hann fær að malla í pottinum.
- Gott er að hella örlitlu vatni út í af og til, meðan við leyfum réttinum að malla.
- Ef þið eigið rauðvínslögg er upplagt að bæta henni við og bragðið verður enn betra.
- Þegar rétturinn er tilbúinn er upplagt að sjóða spaghetti og muna að strá grófum saltflögum yfir á meðan það er að sjóða.
- Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakkanum.
- Berið fram á fallegan hátt og njótið.