Teitur Arason íþróttafræðingur á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni og býður upp á holla og bragðgóðan mat alla vikuna. Teitur hefur mikla ástríðu fyrir starfi sínu sem íþróttafræðingur og þekkir vel mikilvægi þess að borða fjölbreyttan og hollan mat til að ná árangri í leik og starfi. Teitur setti saman þennan matseðil fyrir þá sem vilja holla valkosti í kvöldmat, skemmtilega uppröðun og fjölbreytni.
„Ég eyði mestmegnis af mínum dögum í æfingasalnum í World Class Laugum þar sem ég hef starfað sem þjálfari í tæp 8 ár núna. Ég elska það sem ég geri og það eru mikil forréttindi. Hópurinn minn er fjölbreyttur og markmiði þeirra eru eins breytileg og þau eru mörg, sem ég hef ótrúlega gaman af. Dagarnir mínir eru skemmtilegir og langir, ég mæti snemma á morgnana og klára að kvöldi til. Skipulagið er því þétt yfir daginn þar sem ég reyni að aðstoða fólkið mitt eins vel og ég get en passa einnig að æfa sjálfur einu sinni til tvisvar á dag inn á milli kúnna því það þýðir ekkert að praktisera ekki það sem maður predikar,“ segir Teitur.
„Þá er mikilvægt að orkustigið mitt sé stöðugt svo ég geti sinnt starfi mínu jafnvel hvort sem að klukkan sé 7 um morgun eða átta um kvöld. Þá skiptir öllu máli að svefn og mataræði sé í góðu standi hjá mér. Því eins mikilvæg og hreyfing er fyrir okkur bæði líkamlega og andlega, þá er heilsan okkar og markmið rosalega fljót að hnigna ef mataræðið er ekki í lagi.“
Teit finnst skipta miklu máli að hefja daginn rétt. „Mér finnst mjög mikilvægt að byrja daginn minn rétt, það setur tóninn fyrir restina af deginum. Ég byrja alla daga á 400 ml af vatni því líkaminn þarf á því að halda eftir nóttina svo næst fæ ég mér steinefni og hörfræolíu til þess að passa að vökvinn sem ég drekk bindist vel og meltingin haldist góð. Ég hef fengið mér sama morgunmat í rúm 11 ár núna og eins ótrúlegt og það er þá hlakkar mig ennþá til að fá mér hafragrautinn alla morgna. Ég helli höfrum í skál, dreifi 20-25 rúsínum yfir hafrana ásamt kanill, svo blanda ég próteinsjeik með súkkulaðikarmellu bragði með köldu vatni og helli yfir. Ég hef aldrei getað borðað heitan hafragraut og því smellpassar þetta fyrir mig.
Þarna er kominn próteingjafi, flókin kolvetni ásamt einföldum, nóg af trefjum, holl fita og steinefni og þá getur dagurinn byrjað fyrir mér. Síðastliðin ár hef ég einnig passað að geyma alla koffín inntöku í 90-120 mínútur frá því ég vakna og leyfi því líkamanum að vakna sjálfur og ég upplifi þá aldrei þetta klassíska orkutap um hádegið.“
„Það er fínt að taka það fram að fólk bregst misvel við hafragraut í morgunmat og mikilvægt er að læra hvað hentar hverjum og einum. Sumir vinna ekki jafn vel úr kolvetnum og aðrir og þurfa því meira á prótein- og fitugjafa að halda í morgunmat.
Aðspurður segir Teitur að fjölbreytni í mataræði skipti máli. „Ég legg mikla áherslu á að mataræði skuli vera fjölbreytt með passlega blöndu af fiski og kjöti. Ég hef aldrei verið hrifinn af kúrum eða banna fólki að borða ákveðna orkugjafa. Það þarf ekki að vera leiðinlegt að borða hollt, svo einfalt er það. Það þarf bara að velja rétt og að elda flókna máltíð í lok dags er oft ekki spennandi tilhugsun fyrir marga sem koma heim úr vinnu þreyttir eða svangir, þá virkar oft „einfaldara“ að kaupa tilbúinn mat á leiðinni heim. Það geta verið hættulegar ákvarðanir þegar hungrið er mætt og þá er holli kosturinn oft ekki mjög heillandi.
Mér finnst því mikilvægt að uppskriftir séu hnitmiðaðar, einfaldar og raunhæfar fyrir hinn „meðalkokk“ svo að fólk geti keypt öll hráefni í sömu búðinni og eru því líklegri til að sinna eldamennskunni flest alla daga, en ekki bara af og til. Því setti ég saman þennan matseðil fyrir þá sem vilja holla valkosti í kvöldmat, skemmtilega uppröðun og fjölbreytni,“ segir Teitur að lokum og vonar svo sannarlega að seðillinn falli vel í kramið hjá lesendum.
Mánudagur - Ofnbakaður lax með hrísgrjónum og mangó jalapeno-sósu
„Ég er alltaf hrifinn af því að hafa fisk á mánudögum. Það er góð núllstilling eftir helgina því þá er gjarnan borðað meira kjöt eða kolvetni en á öðrum dögum. Því steinliggur að byrja vikuna á lax með hollu meðlæti.“
Þriðjudagur - Taco Tuesday
„Þriðjudagar eru oft þreyttir dagar hjá mörgum og mér finnst skemmtilegt að hafa eittvað hollt en aðeins meira spennandi þá. Taco Tuesday er búinn að vera fastur liður hjá mér svo lengi sem ég man og klikkar aldrei. Þeir sem vilja sleppa kolvetnum í þessari máltíð geta einfaldlega sett allt saman í skál, bætt í grænmetið og gert einfalt og gott taco salat. Salsasósa er einnig nánast fitulaus og innheldur fáar hitieiningar en varist að kaupa sósur sem eru með viðbættum sykri.“
Miðvikudagur - Beikonvafðar kjúklingabringur með salthnetum og fetaostafyllingu
„Það er kominn miðvikudagur og eftir fiskinn á mánudaginn og hakkið í gær þá er kominn tími á kjúkling. Það getur verið gott að minnka kolvetnin aðeins í miðri viku, enda líklegt að glýkógenbyrgðirnar okkar séu vel fullar eftir helgina og síðustu tvo daga. Þannig hérna erum við að vinna með próteinríka fæðu með góðum fitugjafa.“
Fimmtudagur - Pönnusteikt rauðspretta með smælki
„Það er kominn tími á hvítan fisk, því eins góður á laxinn er þá er fátt sem toppar hreinleikann og hollustuna í góðri Rauðsprettu í aðeins flóknari en mjög bragðgóðri uppskrift.“
Föstudagur - Pitsa kvöld - Ketó pitsa með chorizo, klettasalati og parmesan
„Það gerast flestir sekir um að girnast eitthvað spennandi á föstudagskvöldum og þá er holl pitsa tilvalið til að slá á þá þörf. Það er nefnilega bæði skemmtilegra, meira gefandi og hollara að baka hana sjálfur með fjölskyldunni eða betri helmingnum, heldur en að taka upp tólið og panta tilbúna.“
Laugardagur - Grilldagur
„Á sumrin finnst mér fátt betra en að finna grill-lykt í hverfinu þegar kvöldsólin er að mæta. Þá er tilvalið kaupa gæða kjöt, halda meðlætinu einföldu og grilla saman. Hér er nautakjötið þrætt upp á spjót en hæglega má skipta nautinu út fyrir lamb og er það alls ekki síðra. Chimichurri sósan er síðan argentínsk sósa sem seturr svo sannarlega punktinn yfir i-ið.“
Sunnudagur - Súpereinfalt Canneloni pastaréttur
„Pastaréttir eða lasagna er vel við hæfi á sunnudögum. Það er einfalt, gott og svo er hægt að nota afganga af hakkinu eða kjúklingnum síðan úr vikunni til að forðast matarsóun. Tala nú ekki um ef það verður afgangur af pastanu sem þú getur farið með sem nesti í vinnuna á mánudegi.“