Kókos-berja-þeytingurinn uppáhalds hjá Sunnu

Sunna Rún Baldvinsdóttir deilir hér með lesendum sínum uppáhaldsmorgunverði, kókos-berja …
Sunna Rún Baldvinsdóttir deilir hér með lesendum sínum uppáhaldsmorgunverði, kókos-berja þeyting sem á eftir að slá í gegn. Samsett mynd

Í síðustu viku skoraði Anna Guðný Torfadóttir á Sunnu Rún Baldvinsdóttur grasalæknanema til að taka við keflinu af sér og ljóstra upp sínum uppáhaldsmorgunverði. Sunna tók vel í áskorunina og sviptir hér hulunni af sínum uppáhaldsmorgunverði sem er bráðhollur og bragðgóður kókos-berja-þeytingur sem á eftir að slá í gegn.

Sunna hefur mikla ástríðu fyrir fagi sínu og segist vera eilífðarstúdent í náttúrulækningum. „Ég hef eytt síðasta áratugnum í að sanka að mér víðtækri þekkingu á sviði náttúrulækninga. Ég er m.a. lærð í kínverskri læknisfræði, lithimnugreiningu (iridology), lifandi fæði, og núna er ég að stíga inn í mitt fjórða og síðasta námsár í heildrænum grasalækningum. Nýlega stofnaði ég instagram-reikninginn @ljóslifandi í þeim tilgangi að byrja að miðla minni þekkingu og reynslu varðandi mataræði, lækningajurtir og fleira tengt náttúrulækningum,“ segir Sunna.

Þróaðist yfir í áhuga á lækningamætti jurta

Sunna hefur ávallt haft ástríðu fyrir matargerð, sem þróaðist yfir í áhuga á læknandi fæði. „Ég hef alltaf verið mikil áhugakona um mat og mikill sælkeri, en fyrir um 10 árum byrjaði þessi áhugi að þróast yfir í áhuga á læknandi fæði, sem svo þróaðist yfir í áhuga á lækningamætti jurta. Það getur verið fín lína á milli þess hvað telst matur, matjurt eða lækningajurt. Eins og Hippókrates, faðir læknisfræðinnar, orðaði það: „Let food be thy medicine and medicine be thy food“ getur maturinn verið „meðalið“ okkar. Þessi áhugi leiddi mig hægt og rólega í átt að óunnu, lifandi, plöntufæði, og hefur heilsa mín batnað með hverju skrefi sem ég hef tekið í átt að þessu ensímríka mataræði. Eftir að hafa upplifað ávinning lifandi fæðu á eigin skinni hef ég fundið ástríðu í því að miðla minni reynslu og leiðbeina öðrum á þessari vegferð. Ég sótti því nýlega ráðgjafarnám í lifandi fæði (Living Food instructor), sem miðar að því að geta betur leiðbeint þeim sem vilja gera lifandi fæði að stórum hluta af mataræði sínu og lífsstíl. 

Ertu til í að ljóstra upp uppskrift að þínum uppáhaldsmorgunverði?

Ég byrja daginn alltaf á annaðhvort nýkreistum grænum safa eða þeytingi, sem ég myndi segja að væri eitt besta og jafnframt eitt auðveldasta fyrsta skrefið í átt að bættu mataræði. Ég er búin að vera með æði fyrir kókosvatni (beint úr kókoshnetunni) upp á síðkastið og út frá því skapaðist kókos-berja-þeytingurinn minn, sem ég fæ mér á hverjum morgni þessa dagana. Ekki skemmir fyrir hvað það er auðvelt að bæta hann með hinni ýmsu ofurfæðu og lækningajurtum, sem blandast einstaklega vel í hann.

Ofurfæðan í þeytingnum

„Ofurfæðan, jurtirnar sem ég nota í þennan þeyting, getur breyst hjá mér frá degi til dags, en í þennan notaði ég amla, gojiberjaduft, regnálm og engiferduft.

Amla er sannkölluð ofurfæða. Hún er ein besta uppspretta C-vítamíns úr fæðuheiminum ásamt því að vera járnrík, og hún mælist einna hæst allrar fæðu í andoxunarefnum. Amla hjálpar einnig til við að halda blóðsykri jöfnum og kólesteróli lágu.

Gojiber eru einnig rík að andoxunarefnum, og þá helst zeaxanthin, sem er eitt mikilvægasta næringarefnið fyrir góða augnheilsu. Þau innihalda einnig 18 amínósýrur, þar á meðal allar lífsnauðsynlegu aminósýrurnar sem líkaminn framleiðir ekki sjálfur. 

Regnálmur er ein af mínum uppáhaldslækningajurtum. Hún er alveg óborganlega bragðgóð (að mínu mati) og næringarrík, og svo býr hún yfir dýrmætum lækningamætti fyrir bæði öndunarfærin og meltingarveginn. Regnálmur hefur græðandi og nærandi áhrif á slímhúðina og myndar hjúp sem ver hana fyrir t.d. of mikilli sýrumyndun í maga. Hún virkar einnig sem náttúrulegir góðgerlar, og dregur í sig eiturefni úr meltingarveginum.

Engifer er mín uppáhaldslækningajurt, og að mínu mati hin fullkomna morgunjurt. Hún örvar bæði blóðflæði og orkuflæði í líkamanum, lyftir geði, hjálpar meltingunni, ásamt fleiri góðum eiginleikum. Engiferríkur þeytingur er því tilvalinn fyrir þá sem vilja minnka kaffidrykkju. Persónulega læt ég mun meira af engiferi í mína þeytinga en ég gef upp hér í uppskriftinni, bæði vegna þess að mér finnst það svo svakalega bragðgott, en líka vegna þess að engifer er sú jurt sem hefur hjálpað mér hvað mest.“

Hér fyrir neðan deilir Sunna uppskriftinni með lesendum. „Þessi uppskrift fyllir eitt gott glas, svo það er um að gera að tvöfalda, þrefalda, eða jafnvel fjórfalda uppskriftina ef þú ert að útbúa morgunmat fyrir fleiri en einn eða ef þú drekkur 1-2 lítra af þeytingi eins og ég,“ segir Sunna. 

Skorar á stórvinkonu sína 

„Ég skora á stórvinkonu mína, Helgu Ósk Hlynsdóttur, að deila með okkur einni af sínu girnilegu morgunverðaruppskriftum, en hún deilir ástríðu minni á lifandi fæði og er algjör snillingur í bæði matargerð og fallegri framsetningu. Helga er einstaklega hæfileikarík og kröftug kona, en hún er bæði skóhönnuður og ein af viðskiptamógúlum @seriousbusiness.agency, “ segir Sunna að lokum.

Girnilegur kókos-berja þeytingurinn hennar Sunnu.
Girnilegur kókos-berja þeytingurinn hennar Sunnu. Ljósmynd/Sunna Rún Baldvinsdóttir

Kókos-berja-þeytingur

  • 1 banani
  • 1 lífrænt epli
  • 1 bolli frosin lífræn hindber
  • 3 cm engiferrót
  • nýkreistur safi úr 1 sítrónu
  • 3 dl kókosvatn (ferskt eða úr fernu)
  • ½ tsk. amladuft
  • ½ tsk. gojiberjaduft
  • ½-1 tsk. engiferduft
  • 1-2 tsk. regnálmur

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið í blandara og bland þar til áferðin er mjúk og kekkjalaus.
  2. Hellið í glas og njótið hvers einasta sopa.
Sunna hefur mikla ástríðu fyrir faginu sínu og segist vera …
Sunna hefur mikla ástríðu fyrir faginu sínu og segist vera eilífðarstúdent í náttúrulækningum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert