Stærsta Götubitahátíðin til þessa framundan

Róbert Aron Magnússon er drifkrafturinn og maðurinn bak við stærstu …
Róbert Aron Magnússon er drifkrafturinn og maðurinn bak við stærstu matarhátíð Íslands sem haldin verður næstu helgi, Götubitahátíðina. mbl.is/Árni Sæberg

Stærsti matarviðburður á Íslandi, Götubitahátíðin 2023 verður haldin í Hljómskálagarðinum næstu helgi, þann 22. til 23. júlí næstkomandi í samstarfi við Vodafone, Coke og Víking. Samhliða hátíðinni er haldin keppnin Besti Götubiti Íslands í samstarfi við European Street Food Awards sem er jafnframt stærsta götubitakeppni í heiminum.

Róbert Aron Magnússon er drifkrafturinn og maðurinn bak við Götubitahátíðina. Hann er tveggja barna faðir í sambúð með gríðarlegan áhuga á mat og skemmtilegri og öðruvísi matarupplifun. Róbert er framkvæmdastjóri Götubitans og hefur staðið í ströngu síðustu vikur og mánuði við undirbúninginn fyrir þessa hátíð. Matarvefurinn tók spjall við Róbert um matarást hans, tilurð matarhátíðarinnar og hvernig hún hefur þróast á síðastliðnum árum.

Hefur þú mikla ástríðu fyrir matargerð?

„Ég hef gríðarlega mikla ástríðu fyrir mat og matarupplifun. Fátt sem mér finnst skemmtilegra en að fara út að borða og prófa nýjan og spennandi mat. En ég er hins vegar ekki rosalega duglegur í eldhúsinu heima, kærastan sér um það.“

Fyrsta Götubitahátíðin haldin 2019

Segðu okkur aðeins frá tilurð matarhátíðarinnar Götubitahátíðin, hvenær var Götubitahátíðin haldin fyrst?

„Hugmyndin af Götubitahátíðinni kom eftir að ég flutti heim frá London eftir 11 ára búsetu, því ég sá að „street food“ og matarvagnamenningin hér á Íslandi hafði ekki náð neinni almennilegri fótfestu og það var enginn viðburður í gangi sem var einungis að fókusar á mat. Sannarlega voru til staðar matarvagnar á Íslandi en þeir voru allir hver í sínu horni að gera sitt. Með því að sameina þá alla á einn stað þá stækkaði senan. Því fannst mér tilvalið að setja upp festival þar sem aðalatriðin á hátíðinni yrði matur og úr því varð til Götubitahátíðin (e. Street Food Festival). Hátíðin var fyrst haldin árið 2019 á Miðbakkanum og þó hófst einnig samstarf okkar við European Street Food Awards, sem er stærsta götubitakeppni í heiminum í dag. Út frá þessu öllu byrjuðum við með keppnina um „Besti Götubiti Íslands“ og sigurvegarinn úr þeirri keppni vinnur sér þátttökurétt á loka keppni European Street Food Awards þar sem 16 Evrópuþjóðir keppa um titilinn „Besti Götubitinn í Evrópu.“

Segðu okkur aðeins frá hátíðinni, hverjir standa að henni og hvert er markmiðið?

„Götubitahátíðin er orðin stærsti matarviðburður á Íslandi, í fyrra fengum við yfir 30.000 þúsund gesti og í ár þá erum við með 30 söluaðila á hátíðinni sem er met þátttaka og því má búast við enn fleiri gestum í ár. Samhliða hátíðinni er keppnin „Besti Götubiti Íslands“ þar sem keppt er nokkrum flokkum. Þeir eru besti götubiti Íslands, besti smábitinn, besti grænmetisbitinn og götubiti fólksins, sem kosin er af gestum hátíðarinnar rafrænt.

Hátíðin fer fram í Hljómskálagarðinum næstu helgi og er dagskráin frá klukkan 12.00 til klukkan 20.00 á laugardaginn og frá klukkan 13.00 til 18.00 á sunnudaginn. Á hátíðinni verður einnig að finna ýmis leiktæki og hoppukastala fyrir börnin. Það verða plötusnúðar á svæðinu og ekta götubitahátíðar stemning í loftinu.“

Markmið hátíðarinnar eru:

  • Sameina þá fjölmörgu aðila sem selja spennandi og ögrandi götubita.
  • Bjóða einstaklingum og smærri aðilum tækifæri á að koma sér á framfæri.
  • Hýsa keppnina Besti Götubiti Íslands (Iceland Street Food Awards).
  • Skapa lifandi og stóran útimarkað sem á sér ekki hliðstæðu á Íslandi.
  • Skapa líf í miðborginni og bjóða borgarbúum og gestum upp á öðruvísi matarupplifun.
  • Bjóða upp á nýjungar í mat og drykk.
  • Kynna íslenskan götubita (street food) á erlendum vettvangi.
  • Hátíðin verði nokkur konar fjölþjóðahátíð þar sem hægt verður að prufa mat frá hinum ýmsu heimshornum.

Að hátíðinni standa fyrst og fremst Róbert Aron Magnússon og Egill Tómasson og aðrir frábærir samstarfsaðilar, eins og Reykjavíkurborg, CCEP, Vodafone, Bylgjan og að sjálfsögðu allir söluaðilarnir á hátíðinni.

Stærsta hátíðin og 24 aðilar taka þátt

Verður eitthvað um nýjungar á Götubitanum í ár?

„Fullt af nýjungum í ár, það verða 24 matsöluaðilar á hátíðinni og af þeim eru 15 sem eru nýir. Boðið verður upp á mat frá, Ítalíu, Kólumbíu, Póllandi, Mexíkó, Spáni, Ástralíu, Indlandi, Tyrklandi, Japan, Kína, Kóreu og Íslandi. Við erum að tala um Arepas frá Kólumbíu, Zapiekanki frá Póllandi, Churros og Tacos frá Mexíkó, Dumplings frá Asíu, ítalskar foccacia samlokur með ítölskum pylsum, indverska réttu, ekta spænskar paellur beint frá Barcelona, Kebab frá Tyrklandi, alíslensk avillibráð svo fátt sé nefnt.“

Eftirtaldir aðilar taka þátt í ár:

Pop up pizza

Súrdeigs pizzur

Mijita

Kólumbískur götubiti

Jufa

Pólskur götubiti

The Dons Donuts

Kleinuhringir

KOMO

Asísk handgerð matargerð

Silli Kokkur

Villibráð

Churros

Churros

Makake

asískir Dumplings

La Barceloneta

Spænskar paellur

Arcitc Pies

Ástralskar bökur

Vöffluvagninn

Vöfflur

The Food Truck

Tacos / Quesdillas

Gastro Truck

Kjúklingaborgarar

Fish and Chips Vagninn

Fiskur og franskar

2Guys

Smash hamborgarar

La Buena Vida

Tacos

La Cucina ehf

ítalskar foccacia

Indian Food Box

Indverskur götubiti

Tasty

Grill borgarar

Bumbuborgarar

Grill borgarar

Kebab & Co

Kebab

Skúbb

Oreo ís

Víking Pylsur

Pylsur

Siggi Chef

Bbq og reykt svínakjöt

Silli kokkur ásamt fjölskyldu sinni.
Silli kokkur ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Silli Kokkur unnið þrjú ár í röð

Gaman er að geta þess að sami aðilinn hefur sigrað keppnina Besti Götubiti Íslands síðastliðin ár. „Síðastliðin þrjú ár hefur Silli Kokkur borið sigur úr býtum og í fyrra þá fór hann og keppti fyrir Íslands hönd á European Street Food Awards sem haldin var í Munich í Þýskalandi. Þar vann hann sem „Besti Hamborgarinn í Evrópu“ og lenti í öðru sæti í „Besti Götubitinn í Evrópu“ og „Götubiti fólksins“ sem var kosinn af gestum hátíðarinnar.  Því má segja að íslenskur götubiti sé meðal þeirra fremstu í Evrópu.“

Hverjir skipa dómnefndina?

„Dómnefndina skipa úrvals lið matgæðinga, Hrefna Sætra matreiðslumeistari og veitingahúseigandi, Davíð Örn frá veitingastaðnum Skreið, Eyþór Mar frá Public House, Jakob E. Jakobsson frá Jómfrúnni, Fanney Dóra Sigurjónsdóttir yfirmatreiðslumeistari Hjá Jóni.“

Hver er galdurinn við að töfra fram götubita sem bræðir öll matarhjörtu?

„Einfalt og gott hráefni, hugsa út fyrir boxið og þora að prófa eitthvað nýtt.“

Hver er þinn uppáhaldsgötubiti?

„Öll asísk matargerð er í miklu uppáhaldi, en annars finnst mér geggjað að prófa eitthvað nýtt og spennandi.“

Er Götubitahátíðin komin til að vera?

„Þegar ég fór af stað með þessa vegferð, þá var Ísland um það bil 15 árum á eftir þeirri matarvagna- og götubitamenningu sem var í gangi annars staðar í heiminum. Í ár eigum við næst besta Götubitann í Evrópu þannig við erum greinilega á réttri leið, þannig það má því segja að Götubitinn sé svo sannarlega kominn til að vera og er bara að stækka. Ég hlakka til að sjá sem flesta á Götubitahátíðinni um helgina. Þetta er frábær viðburður fyrir alla fjölskylduna,“ segir Róbert að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert