Konditorinn Sigrún Ella Sigurðardóttir, oftast kölluð Lella, galdraði fram syndsamlega góða pavlóvu á dögunum sem óhætt er að segja að sé sæt og sumarleg. Sumarpavlóvan samanstendur af dýrindis hráefnum sem kitla bragðlaukana og fara með þá í ferðalag á suðrænar slóðir. Lella er mikill sæl- og fagurkeri og hefur næmt auga fyrir fallega skreyttum kökum á veisluborðið. Pavlóvuna tekur hún upp á næsta stig með því að skreyta hana með girnilegum og framandi ávöxtum sem setja punktinn yfir i-ið.
„Þessi pavlóva hittir alltaf í mark. Hún er svo dásamleg því hún hentar við öll veislutilefni hvort sem það eru fermingar, brúðkaup eða afmæli og svo er hún líka sérlega góð daginn eftir,“ segir Lella. „Það er ekki bara hversu bragðgóð hún er heldur algert augnakonfekt á veisluborðinu sem veislugestir eiga erfitt með að standast.“
Sumarpavlóvan hennar Lellu er einstaklega falleg á veisluborði.
Ljósmynd/Aðsend
Sumarpavlóva með sítrónukremi og ávöxtum
Pavlóva
- 6 kaldar eggjahvítur
- 300 g sykur
- 1,5 tsk edik
- Smá salt
Aðferð:
- Kæla skal hrærivélarskálina og þeytarann í 10 mínútur áður en eggjahvíturnar eru settar í skálina.
- Byrjið að þeyta eggjahvíturnar þar til þær freyða. Þá má byrja að hella sykrinum jafnt og þétt saman við ásamt saltinu.
- Þegar marengsinn er tilbúinn er edikinu bætt við með sleikju.
- Marengsdeiginu er jafnað á bökunarpappír.
- Bakið við 100°C í 1½ klst. Slökkvið svo á ofninum og látið standa þar til ofninn er alveg orðinn kaldur.
Sítrónukrem
- 4 sítrónur, bæði safi og börkur (nota skal fínt rifjárn til að rífa gula hluta barkarins, þannig að hvíti, beiski hlutinn komi ekki með)
- 170 g sykur
- 6 egg
- 350 g rjómi
Aðferð:
- Safi, börkur og sykur er soðið saman upp í síróp. Það er svo sigtað og látið standa við stofuhita.
- Eggin eru þeytt og sírópinu bætt við.
- Rjóminn er hitaður að suðu og bætt rólega saman við eggjablönduna eftir að hann hefur kólnað niður í 75°C.
- Kremið er sett í eldfast mót og loftbólurnar fjarlægðar.
- Bakið við 140 gráður þar til blandan hefur stífnað. Byrjið á 12 mínútum og fylgist svo með.
- Sítrónukremið er kælt niður og blandað svo í blandara þar til áferðin er silkimjúk.
Rjómablanda
- 600 ml rjómi
- 2 msk vanillusykur
- 1 tsk vanilludropar
Aðferð:
Þeytið saman rjóma og sykur og bætið svo dropum saman við.
Skraut
- Ananas
- Drekaávöxtur
- Hindber
- Mintulauf
- Ástríðuávöxtur
- Granatepli
Samsetning
Rjóminn er settur á marengsbotninn og sítrónukreminu er smurt yfir. Ávextir skornir niður í litla munnbita og raðað snyrtilega ofan á.
Nú er bara að njóta með góðum kaffisopa í góðum félagsskap.
Ávextirnir setja sumarlegan svip á pavlóvuna og bragðbæta hana til muna.
Ljósmynd/Aðsend