Helena Gunnarsdóttir verkefnistjóri á Menntavísindasviði og matgæðingur á heiðurinn að vikumatseðli vikunnar sem hún hefur töfrað fram og mun svo sannarlega gleðja sælkera. Helena heldur líka úti uppskriftasíðunni Eldhússögur og deilir þar með lesendum sínum uppáhaldsuppskriftum. Það er aldrei lognmolla kringum Helenu og sumarið hjá henni hefur verið annasamt og litríkt.
„Sumarið hefur verið ansi annasamt. Ég útskrifaðist með meistaragráðu frá HÍ og hef svo einnig verið að sinna starfi mínu sem verkefnastjóri á Menntavísindasviði. Hef svo aðeins verið á faraldsfæti síðustu vikurnar svo uppskriftaskrif og eldamennska hafa fengið að sitja nokkuð vel á hakanum. Ég er því mjög spennt að komast í aðeins hægari gír og veit eiginlega fátt notalegra en að hafa nægan tíma til að elda og plana hvað á að vera í matinn.“
„Á sumrin hallast ég mjög að léttari mat og Miðjarðarhafs mataræði heillar mig sérstaklega. Ég gæti sennilega borðað fisk flesta daga vikunnar en þar sem synir mínir eru ekki alveg sammála því ratar fiskur yfirleitt á borð hér einu sinni eða tvisvar í viku. Ég er alltaf að reyna að vera skipulagðari með vikumatseðla og stundum tekst það en í hreinskilni tekst það oftast bara alls ekki. Set það á markmiðalista haustsins að skipuleggja matarinnkaup og kvöldmatinn einu sinni í viku. Ég skrifa reglulega uppskriftir fyrir Gott í matinn vef MS sem mér þykir ákaflega gaman og svo læðast líka alltaf af og til uppskriftir inn á síðuna mína Eldhúsperlur. Það hefði kannski verið snjallast að vera bara með eigin uppskriftir hér en það er svo mikið af hæfileikaríku fólki þarna úti að gera frábæran mat að ég get ekki annað en valið líka dásamlegar uppskriftir frá nokkrum af mínum uppáhalds,“ segir Helena að lokum og deilir hér með lesendum girnilegum og afar fjölskylduvænum matseðli.
Mánudagur – Girnilegt Taco
„Það er eiginlega regla á mínu heimili að gera alltaf eitthvað smá extra á mánudögum. Það er til dæmis yfirleitt fiskur í skólanum hjá strákunum á mánudögum svo mér þykir gaman að vera með eitthvað smá sparilegt og skemmtilegt til að dusta smá glimmeri yfir mánudaga sem vilja vera svolítið þreyttir. Þetta geggjaða taco frá Berglindi vinkonu minni á GRGS er því fullkominn mánudagmatur að mínu mati.“
Þriðjudagur – Grillaður fiskréttur
„Á þriðjudögum vil ég fá fiskinn minn og þetta er uppskriftin sem ég gríp langoftast í og verð aldrei leið á. Það má breyta og bæta eftir því hvað er til í ísskápnum en fetaostur, spínat og tómatar er ómissandi. Mér finnst langbest að grilla þennan rétt.“
Miðvikudagur – Hakk og spaghetti
„Miðvikudagar eru svona hakk og spagettí dagarnir einhvern veginn. Strákarnir mínir elska að borða pasta og gætu líklega verið sáttir með það flestalla daga vikunnar. Ég ætla að bjóða upp á þetta ótrúlega girnilega spaghetti frá Snorra hjá Matur og myndir.“
Fimmtudagur – Kjúklingasalat með chili og hunangi
„Bragðmikið kjúklingasalat og ískalt hvítvínsglas með fyrir mömmu og pabba er fullkomið fimmtudagsdekur. Þetta salat tikkar í öll boxin sem gott kjúklingasalat þarf að hafa og svo er frábært að grilla kjúklinginn.“
Föstudagur – Mexíkóskt lasagna
„Við erum oft með föstudagspitsu en mér þykir gaman að synda á móti straumnum og vera með eitthvað annað. Mér líst rosalega vel á þetta mexíkó lasagna frá Guðrúnu Ýr sem er með matarbloggið Döðlur og smjör, og sé fyrir mér að það muni slá í gegn hjá fjölskyldunni á kósí föstudagskvöldi.“
Laugardagur - Frönsk tómatabaka og súkkulaðikaka
„Á laugardögum finnst mér gaman að baka og bjóða fólki heim. Mig langar því að deila tveimur uppskriftum sem myndu smellpassa í laugardags dögurð. Sú fyrri er tómatbaka sem er fullkomið að gera núna þegar tómatauppskeran er upp á sitt allra besta.“
„Í eftirrétt ætla ég að baka þessa frábæru súkkulaðiköku með hnetusmjörskremi eftir snillinginn hana Valgerði á vallagrondal.is sem ég treysti alltaf 100% á þegar kemur að bakstri.“
Sunnudagur - Grillaður kjúklingur með spínati og sætum kartöflum
„Svava hjá Ljúfmeti gerir held ég bara góðan mat og ég hef mikið leitað inn á bloggið hennar á síðustu árum. Þessi uppskrift er frábær, fljótleg og holl og ekta sunnudagsmatur. Líklega ekki skrítið að hún sé ein af hennar allra vinsælustu.“