Senn líður að stærstu skemmtanahelgi ársins, verslunarmannahelginni. Eyjahjónin Guðmundur Þorlákur Bjarni Ólafsson og Þuríður Kristín Kristleifsdóttir eru mikið stemningsfólk og hlakka til að njóta augnabliksins í Herjólfsdal þar sem Þjóðhátíð mun fara fram með pompi og prakt um næstu helgi.
Fyrir þau Guðmund og Þuríði eru mestu gæðastundirnar þegar stórfjölskyldan kemur saman og snæðir kvöldverð en það hefur fjölskyldan lagt í vana sinn að gera einu sinni í viku allan ársins hring. Hápunktinn segja þau þó vera samverustundir fjölskyldunnar og matarboðin í kringum Þjóðhátíð sem eru höfð hátíðlegri en vanalega.
„Í okkar huga er Þjóðhátíð fyrst og fremst fjölskylduhátíð með mikla og magnaða sögu,“ segja hjónin, sem fundu ástina á Þjóðhátíð fyrir hartnær 60 árum. „Stærst er hún auðvitað fyrir það að við hjónin kynntumst á Þjóðhátíð 1965 og höfum verið óslitið saman síðan. Eignast 4 börn, 16 barnabörn og 9 barnabarnabörn.“
Afkomendur Guðmundar og Þuríðar hafa allar götur síðan alist upp við þá hefð að reisa hvítt tjald í Dalnum sem iðulega er annað heimili fjölskyldunnar á Þjóðhátíð.
„Að vera með Þjóðhátíðartjald þar sem lögð er áhersla á að skreyta sem mest og best er okkar helsta hefð. Þar hengjum við upp myndir tengdar Þjóðhátíð, ekki síst af fjölskyldu og vinum, á allar hliðar tjaldsins. Í tjaldinu er ómetanlegt að eiga skemmtilegar samverustundir með fjölskyldunni og borða saman mat sem minnir á Þjóðhátíð,“ segja þau, en undirbúningurinn hefst rúmri viku fyrir herlegheitin sjálf.
„Flatkökur með hangikjöti, skinkuhorn og annað heimabakað bakkelsi, kökur, ostar, samlokur og salöt að hætti heimamanna, er ómissandi að bjóða upp á í tjaldinu. Pylsur á miðnætti eru einnig fastur liður hjá okkur fjölskyldunni,“ lýsa þau og segja lundann þjóðhátíðarlegasta réttinn en hann verður sífellt erfiðara að fá á matarborðið.
„Á föstudagskvöldinu erum við alltaf með matarboð heima fyrir alla stórfjölskylduna. Þar hefur ungversk gúllassúpa verið fastur liður en á laugardagskvöldinu er siður að hafa ekta Þjóðhátíðar-lasagne á boðstólum sem allir borða með bestu lyst.“
Kjötsósan
Ostasósan
Aðferð