Verslunarmannahelgin nálgast og því ekki seinna vænna að huga að helgarmatnum. Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir, markaðs- og upplifunarstjóri hjá Hagkaup, er annálaður matgæðingur og elskar fátt meira en góðar kræsingar um verslunarmannahelgina.
„Ég hef mikið verið að vinna með að einfalda matreiðsluna í sumar, ég hef treyst mikið á glæsilega grilllínu Hagkaups, sérvalið kjöt, meðlæti og kaldar sósur, sem ég fæ ekki nóg af. Þessi lína inniheldur fyrsta flokks hráefni og því öruggt að mæla með henni,“ segir Eva Laufey.
„Um helgina ætla ég að grilla gott kjöt, til dæmis lamba-fillet sem er sérvalið frá Hagkaup og bráðnar í munni. Svo er það gott salat, maís, grillaðar kartöflur og að endingu parmesan eða hvítlaukssósan sem ég gæti með góðu móti hugsað mér með öllum máltíðum.“
Hér er uppskriftin að máltíðinni sem Eva Laufey ætlar að bjóða upp á um helgina.
Fallegt og litríkt sumarsalat.
Ljósmynd/Eva Laufey
Sumarsalat með grilluðu grænmeti
- 300 g blandað salat
- 1 kúrbítur
- 2 rauðar paprikur
- 150 g hreinn fetaostur
- 3-4 fíkjur
- 100 g ber, til dæmis brómber
- Ólífuolía
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Skolið salat og grænmeti, þerrið vel.
- Skerið kúrbít og papriku í fremur þykka strimla, veltið upp úr olíu og kryddið með salti og pipar. Grillið í nokkrar mínútur eða þar til mjúkt í gegn.
- Skerið í aðeins minni bita en mér finnst engu að síður betra að hafa bitana í stærri kantinum.
- Leggið blandað salat í stóra skál, grillaða grænmetið fer ofan á og myljið hreinan fetaost yfir.
- Sáldrið ólífuolíu yfir og kryddið með salti og pipar.
- Skerið fíkjur og setjið yfir ásamt ferskum berjum.
- Berið strax fram.
Grillaðir portobellósveppir með hvítlaukssósu
Fylltir sveppir
- 5-6 portobellósveppir
- 200 g hreinn rjómaostur
- 2 msk. hvítlaukssósa frá Hagkaup
- 1 tsk. smátt saxaður graslaukur
Aðferð:
- Takið stilkinn úr sveppunum og skafið aðeins innan úr þeim.
- Blandið rjómaosti, hvítlaukssósu og graslauk saman. Fyllið sveppina með ostablöndunni og raðið á álbakka/eldfast mót sem má fara á grill.
- Grillið í um það bil 6-8 mínútur eða þar til sveppirnir eru mjúkir í gegn.
Lambafillet sérvalið frá Hagkaup
- 800 g lambafillet
- Hvítlaukssósa, parmesan og pipar. Ekki er hægt að velja eina sósu þegar allar eru svona góðar.
Aðferð:
- Hitið grillið í nokkrar mínútur.
- Grillið kjötið á fremur háum hita með fituröndina niður fyrst í 6 mínútur og í sirka 5 mínútur á hinni hliðinni (grillið lokað). Ef hitinn er hins vegar of hár þá má lækka.
- Steikingin er auðvitað smekksatriði og gott að prófa sig áfram með einn bita og sjá hvernig þér líkar steikingin.
- Takið kjötið af grillinu og setjið beint á disk og breiðið strax álpappír yfir og leyfið kjötinu að hvílast undir álpappírnum í 10 mínútur áður en skorið er í það og það borið fram.
- Berið fram með kartöflum, smjörsteiktum maís, fylltum portóbellósveppum, sumarsalati og æðislegum köldum grillsósum.
Grillaðar kartöflur
- 2 sætar kartöflur
- 3 bökunarkartöflur
- Salt og pipar, magn eftir smekk
- 1 tsk. þurrkað rósmarín
- 1 tsk. þurrkuð steinselja
- Ólífuolía
- Álform/eldfast mót sem má fara á grill
Aðferð:
- Skolið og þerrið kartöflurnar.
- Skerið í um það bil jafn stóra bita, ekki of litla því kartöflurnar fara beint á grillið.
- Veltið kartöflum upp úr olíu og kryddið með salti, pipar, rósmarín og steinselju.
- Grillið kartöflurnar í 3-4 mínútur rétt til þess að fá grillrendur. Setjið síðan í form og aftur á grillið þar til mjúkar í gegn, það má líka setja þær inn í ofninn ef það hentar betur.
- Berið strax fram á fallegan hátt.