Litríkir og hollir þeytingar uppáhalds hjá Unni

Unnur Pálmarsdóttir deilir með lesendum tveimur uppskriftum af sínum uppáhalds …
Unnur Pálmarsdóttir deilir með lesendum tveimur uppskriftum af sínum uppáhalds þeytingum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hollur og ljúffengur morgunverður gerir góðan dag betri. Góður þeytingur eða safi sem er næringarríkur er hinn fullkomni morgunverður fyrir marga. Unni Pálmarsdóttur þykir fátt betra en að fá sér safa sem hún pressar sjálf og leggur mikið upp úr að hefja daginn á næringarríkum morgunverði sem tekur stuttan tíma að útbúa.

Unnur er einn reyndasti hóptímakennari og þjálfari landsins. Hún hefur kennt hóptíma og þjálfað landsmenn og um heim allan í yfir 30 ár. Núna starfar hún sem deildarstjóri framleiðslu, fræðslu - og hreyfiferða hjá Úrvali Útsýn ásamt að vera hóptímakennari hjá Reebok Fitness og reka Fusion kennaranámskeið og mannauðsráðgjöf. Einnig er hún fararstjóri í vinsælum ferðum til Kanaríeyja og fleiri áfangastaða.

Hreinn safi

„Morgunverðurinn sem ég fæ mér er oftast hreinn safi sem ég pressa sjálf. Mér finnst gott að hefja daginn á vatni með sítrónu og góðu heitu rjúkandi kaffi.  Svo er það grænn spínat og gulrótarsafi sem er í uppáhaldi hjá mér svo að morgunmaturinn samanstendur af þessari dýrð,“ segir Unnur. 

Stundum er líka dekur á morgnana með fjölskyldunni og þá er lagt meira í morgunverðinn. „Þegar ég vil dekra við mig í faðmi fjölskyldunnar þá er uppáhaldsmorgunverðurinn pönnukökur eða prótein vöfflur með bláberjum, jarðarberjum, banana, hnetusmjöri, súkkulaði og sírópi. Spælt egg og góður gulrótarsafi með er toppurinn að mínu mati. Það er helst um helgar sem ég fæ mér þennan gómsæta morgunverð með syninum og manninum mínum.  Svo eru það miðvikudagar í vinnunni minni í Úrval Útsýn sem standa alltaf upp úr þá er framreiddur gómsætur morgunverður að hætti starfsmanna okkar og hlakka alltaf til þeirra góðu stunda með vinnufélögunum.“

Nýjar og spennandi uppskriftir

Nýjar uppskriftir er eitt af því sem heilla Unni. „Áhugamál mitt er einnig að finna upp nýjar og spennandi uppskriftir að hollum, góðum og ferskum drykkjum sem allir geta nýtt sér. Mikilvægt er að hafa uppskriftina auðvelda í samsetningu og fyrir alla.“

Unnur segir það skipta líka máli að velja hráefni sem ykkur finnst best og það sé í lagi að breyta uppskriftum. „Ég mæli að þið séuð óhrædd við að prufa ykkur áfram í hollustu drykkjunum og munið að hreyfa ykkur vel alla daga. Við eigum aðeins einn líkama og því er mikilvægt að huga vel að líkama og sál og njóta lífsins.“

Hér deilir Unnur tveimur dásemdaruppskriftum með lesendum sem vert er að prófa, annars vegar uppskrift að hindberja- og kókosþeyting og hins vegar morgundrykk Unnar.

Fallegir og litríkir í glasi þeytingarnir hennar Unnar.
Fallegir og litríkir í glasi þeytingarnir hennar Unnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hindberja- og kókosþeytingur Unnar

  • ¼  bolli trönuber eða hindber
  • 1 bolli fersk bláber
  • ½  avókadó
  • 1 banani
  • 2 msk. hörfræ
  • ½  bolli hreint grískt jógúrt ef ekki þá er kókósvatn mjög gott með
  • 1 tsk. Chia fræ
  • 2 msk. kókosflögur
  • 1 tsk. hunang

Aðferð:

  1. Setjið allt í blandara og blandið vel saman.
  2. Berið fram með klaka beint úr frystinum í fallegu glasi eða krukku.

Morgundrykkur Unnar

  • Spínat að vild
  • 1/2 agúrka
  • 1 - 2 sm af engifer
  • 1 tsk. kókosolía
  • 1 dl vatn
  • 1/2 epli að eigin vali
  • Gulrætur að vild

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið saman í blandara og þeytið vel saman.
  2. Berið fram í fallegu glasi eða krukku. 
Morgundrykkurinn hennar Unnar er fagurgrænn og inniheldur meðal annars spínat.
Morgundrykkurinn hennar Unnar er fagurgrænn og inniheldur meðal annars spínat. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Hindberja- og kókosþeytingur Unnar er dökkbleikur og gleður líkama og …
Hindberja- og kókosþeytingur Unnar er dökkbleikur og gleður líkama og sál. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka