Elenora Rós Georgsdóttir bakari og metsölubókarhöfundur sviptir hulunni af sínum matarvenjum að þessu sinni. Elenora er aðeins 22 ára gömul og er þegar orðin heimsborgari, hefur komið víða við í fagi sínu sem bakari og hefur heillað þjóðina með súrdeigsbrauðinu sínu og bakkelsi gegnum árin enda hefur hún bakað frá því að hún man eftir sér. Hún hefur meðal annars gefið út tvær uppskriftabækur sem slógu í gegn. Hún leggur ástríðu sína og natni í allt sem hún tekur sér fyrir hendur, sérstaklega þegar bakstur er annars vegar.
Í dag er Elenora búsett í London þar sem hún vinnur í heimsþekktu bakaríi, Buns from home, þar sem hún blómstrar í starfi og er þessa dagana er hún að þróa ýmis konar góðgæti, sætindi og bakkelsi sem gleður auga og munn. Hún heldur úti Instagram reikningnum @bakaranora þar sem hægt er að fylgjast með því sem hún er að gera í leik og starfi.
„Ég dýrka og dái allt í tengslum við mat og bakkelsi. Það er einstakt tækifæri að fá að búa hér í London og fá að vinna við draumastarfið í þessu bakaríi og ekkert betra en að finna ilminn af nýbökuðu brauði og bakkelsi á morgnana,“ segir Elenora.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Það er rosalega misjafnt, fer eftir því klukkan hvað ég byrja að vinna og hvort ég sé í fríi. Eftir aðstæðum að hverju sinni. Á venjulegum vinnumorgnum er ég venjulega að fá mér hafragraut og þeyting en þegar ég get þá elska ég að dekra mig með góðum morgunmat en það er uppáhaldsmáltíðin mín yfir daginn. Mér finnst ofsalega huggulegt að fara í bakaríið þá morgna sem ég er í fríi og kaupa mér gott súrdeigsbrauð ásamt einhverju sætu og fara heim og eiga næs morgun.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Já, ég er meiriháttar naslari og hef alltaf verið. Ég er yfirleitt með einhver konar ávexti, grænmeti og orkustykki þegar ég fer út yfir daginn og ég fæ mer oft jógúrt eða annað ef ég er mjög svöng.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Já, til að halda stöðugri orku yfir daginn, bæði andlegri og líkamlegri orku og vera vel nærð finnst mér það mikilvægt. Það þarf ekkert endilega að vera stór máltíð en allavega eitthvað gott og næringarríkt.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Það er svo misjafnt. Ég tek tímabil hvað ég elska að hverju sinni og er einnig dugleg að prófa allskonar nýtt. Ég á eiginlega alltaf jógúrt, grænmeti, ávexti, álegg, mjólk, egg, djús og eitthvað smotterí til að græja kvöldmat á kvöldin.“
Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?
„Ég elska grillspjót, grillaðan maís og grillaða bökunarkartöflu. Mér finnst ekkert betra en gott grillað grænmeti og finnst einnig svo gaman að borða grillspjót, það er svo mikil stemning í því. Svo er góð íslensk kartafla með miklu af smjöri eitt af því besta sem til er.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?
„Ég er dugleg að prófa nýja staði og geri reglulega vel við mig með því að fara út að borða. Heima á Íslandi er það Sumac en það er að mínu mati besti veitingastaðurinn heima. Hér í London er það Bubala ef ég þyrfti að velja, þrátt fyrir að valið sé mjög svo erfitt.“
Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á bucketlistanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?
„Ég er ofsalega dugleg að prufa nýja veitingastaði en þá sérstaklega bakarí. Ég eyði talsverðum tíma bæði í London og þegar ég ferðast um heiminn að borða gott bakkelsi og fara á góða veitingastaði og hef því nú þegar farið á gríðarlega marga staði sem mig hefur áður dreymt um. Verandi nýflutt til London þar sem valmöguleikarnir eru endalausir þá er stanslaust nýir veitingastaðir sem mig langar á. Eins og er stefni ég á að prófa Jolene bráðlega en hann hefur verið á listanum í smá tíma en svo langar mig ótrúlega að prófa Noma í Kaupmannahöfn.“
Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?
„Vá, þær eru svo margar. Matur á stóran stað í hjarta mínu og er rosalega tilfinningalegur fyrir mér og margar af mínum dýrmætustu minningum/upplifunum sem tengjast mat. Það er veitingastaður hér í London þar sem þú prófar að borða sem blind manneskja. Þú veist ekkert hvað er á matseðlinum, ferð inn í niðamyrkur og það er heyrnarlaus manneskja sem fylgir þér inn að borðinu þínu og einnig blind manneskja sem kemur með matinn á borðið. Þetta er gjörsamlega mögnuð upplifun. Þú veist í raun ekkert hvar þú ert, hvar hnífapörin eru eða hvaða mat þú ert að borða. Þú ert stanslaust að giska hvað þú ert að borða og upplifir bæði bragð og áferðir á nýjan hátt. Virðing fyrir heyrnarskertu og sjónskertu fólki eykst gríðarlega við þessa upplifun.“
Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?
„Ég borða bókstaflega allt og er mjög matgóð að eðlisfari. En kóríander er i alvöru það viðurstyggilegasta sem ég set upp i mig og ég byrja ósjálfrátt alltaf að kúgast þegar ég borða óvart kóríander.“
Uppáhaldsbakarinn þinn?
„Bakararnir í mínu lífi eru margir hverjir mínar allra stærstu fyrirmyndir og fólk sem hefur mótað mig alveg gríðarlega. Ég hef unnið með frábærum bökurum heima og meðal annars má nefna Rúnar Fel fyrrum yfirbakara minn í Bláa Lóninu og Guðmund eiganda GK bakarí. Ég hef síðan kynnst mörgum frábærum bökurum hér í London og langar mér þar að nefna Tom eiganda Chatsworth Bakehouse. Kitty Tate, Helen Evans og Darcie Maher eru síðan ungar, hæfileikaríkar konur í bransanum að gera magnaða hluti sem ég lít mikið upp til. Margir bakarar gefa mér mikinn innblástur og hafa kennt mér ofsalega mikið. Öll hafa þau haft áhrif á mig sem bakara á einn eða annan hátt og eiga mikið þakklæti fyrir í hjartanu mínu.“
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Allt kaffi sem Ágústa vinkona gerir.“
Ertu góður kokkur?
„Allir eru góðir í einhverju og enginn er góður í öllu. Ég legg mig fram í að stanslaust bæta við mig þekkingu, efla mig og hef alltaf hug minn við að vanda mig og gera mitt besta, vitandi að ég hef alltaf tökin á að gera betur og læra meira.“