Svanhildur sviptir hulunni af Dalvíkursúpunni frægu

Þarna má sjá mannfjöldann á fiskisúpukvöldið 2011 fyrir framan húsið …
Þarna má sjá mannfjöldann á fiskisúpukvöldið 2011 fyrir framan húsið hjá Svanhildi Hólm og Loga Bergmanni. Svanhildur segir að það verði heldur rólegra hjá þeim í ár.

Þessa helgina eru Fiskidagurinn mikli í hámæli og fjöldi manns er tekur þátt í hátíðarhöldunum. Skapast hefur sú hefð að heimafólk fari í hlutverk gestgjafans og bjóði gestum og gangandi upp á heimalagaða fiskisúpu, sem hver og einn gerir með sínu nefi.

Svanhildur Hólm framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og eiginmaður hennar Logi Bergmann Eiðsson hafa í fjölda ára tekið þátt í að bjóða gestum og gangandi upp á fiskisúpu sem Svanhildur lagar og nostrar við. Súpan hennar Svanhildar er margrómuð fyrir að vera hin ljúffengasta og ber heitið Dalvíkursúpan. Það má með sanni segja að súpan hennar Svanhildar sé löngu orðin fræg.

Áratuga aðlögun að bragðlaukum fjölskyldunnar

„Þegar ég var tvítug og byrjaði að búa skráði ég mig í einhvern uppskriftaklúbb og fékk sendan uppskriftapakka mánaðarlega. Grunnurinn að þessari matarmiklu súpu er þaðan, en uppskriftin hefur gengið í gegnum áratugaaðlögun að bragðlaukum fjölskyldunnar. Eina útgáfa hennar, sem ég á skrifaða í gamalli uppskriftabók, er miðuð við um það bil 20 manns eða eina Dalvíkurlögun.Það er sem sagt hæfilegt magn til að sjóða í einu lagi fyrir fiskisúpukvöldið á Dalvík en fyrir slíkt kvöld eldaði ég venjulega tíu til fimmtán slíkar laganir. Hún er líka í grömmum en ekki stykkjum eða hvítlauksgeirum, þar sem ég nennti ekki að telja einingar af grænmeti við eldamennskuna.“

Magn fyrir venjulegt fólk

Við á matarvefnum fengum Svanhildi til að svipta hulunni af Dalvíkur súpunni frægu og í magni fyrir venjulegt fólk. „Ég skalaði hana niður í hóflegri skammt og reikna með að þessi sé fyrir 4-5 manns, frekar svanga,“ segir Svanhildur. Þessa helgina mun Svanhildur þó ekki standa í stórræðum. „Það má kannski nefna það að um þessa fiskidagshelgi ætla ég að láta mér nægja að elda fyrir mína nánustu, þannig að ég læthamfaraeldamennskuna eiga sig,“ segir Svanhildur að lokum og brosir.

Dalvíkursúpan hennar Svanhildar

  • 500 g hvítur fiskur eða annað sjávarfang sem fólki finnst gott. Svanhildur notar yfirleitt humar með.
  • 1 l vatn
  • 3,5 dl hvítvín
  • 3,5 dl rjómi
  • 50 g vorlaukur
  • 200 g gulrætur
  • 120 g laukur
  • 15 g  hvítlaukur
  • 500 g kúrbítur
  • 1 msk. paprikuduft
  • 1 tsk. karrí
  • 100 g tómatpúrra (tómatmauk)
  • ¼ tsk. chiliduft
  • 3 teningar af fiskikrafti
  • 3 msk. koníak
  • Olía til steikingar
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 1-2 tsk. af sykri ef vill

Aðferð:

  1. Skerið allt grænmetið niður, saxið lauk, merjið hvítlauk, sneiðið gulrætur og skerið kúrbítur niður í mátulega stóra bita. Mátulega þýðir að bitarnir fari vel í skeið, en séu ekki svo litlir að kúrbíturinn fari í mauk.
  2. Hitið ólífuolíu á pönnu og setjið lauk og gulrætur fyrst út í, ásamt hvítlauknum, passið að glæra bara laukinn en ekki steikja hann.
  3. Setjið kúrbítinn á pönnuna og steikið í smástund.
  4. Setjið síðan paprikuduft, karrí og chiliduft.
  5. Látið malla í nokkrar mínútur við vægan hita og setjið síðan til hliðar.
  6. Sjóðið vatn og hvítvín ásamt fiskikrafti.
  7. Setjið hvíta fiskinn út í og látið suðuna koma upp aftur.
  8. Veiðið þá fiskinn upp úr aftur og setjið til hliðar.
  9. Sjóðið ekki humar eða skelfisk með.
  10. Setjið grænmetið út í soðið.
  11. Bætið tómatpúrru út í og látið suðuna koma rólega upp aftur.
  12. Látið malla í um það bil tíu mínútur.
  13. Bætið við rjóma og koníaki út í og þegar sýður aftur setjið þá fiskinn út í og smakkið súpuna til.
  14. Svanhildur malar venjulega slatta af svörtum pipar yfir súpuna á þessu stigi og bætir við kryddi eða fiskkrafti ef henni finnst hún ekki nógu bragðmikil og settur jafnvel nokkur korn af sykri, meira koníak eða hvítvín, allt eftir því hvernig liggur á henni.
  15. Bætið loks humri og/eða skelfiski út í og látið suðuna rétt koma upp, þannig að humarinn verði ekki seigur.
  16. Berið súpuna fram með þeyttum rjóma og góðu brauði.
Hvanndalsbræður í miklu stuði í baksýn meðan Svanhildur og Logi …
Hvanndalsbræður í miklu stuði í baksýn meðan Svanhildur og Logi voru í hlutverki gestgjafanna að framreiða Dalvíkursúpuna margróðmuðu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert