Matarkista Breiðafjarðar í bakgarðinum

Hjónin Sæþór Þorbergsson matreiðslumeistari og Steinunn Helgadóttir eiga og reka …
Hjónin Sæþór Þorbergsson matreiðslumeistari og Steinunn Helgadóttir eiga og reka Narfeyrarstofu og hafa gert það í rúmlega tuttugu ár.

Narfeyrarstofa fallegur veitingastaður á Vesturlandi í einstöku húsi sem á sér mikla sögu. Þar er mikill metnaður lagður í matargerðina og hráefnið úr nærumhverfinu er í forgrunni. Narfeyrarstofa er við Aðalgötu í Stykkishólmi í hjarta bæjarins. Narfeyrarstofa er rómuð fyrir vandaða og gæðamikla matargerð sem er unnin frá grunni af matreiðslufólkinu á Narfeyrarstofu, þar sem ástríðan og natnin ræður för. Sumarið hefur verið blómlegt og fjöldi ferðamanna hefur heimsótt staðinn og notið góðra kræsinga.

Sæþór Heiðar Þorbergsson og Steinunn Helgadóttir eru búin að eiga og reka hið margrómaða veitingahús í rúmlega tuttugu ár og staðurinn blómstrar sem aldrei fyrr. Sæþór er menntaður matreiðslumeistari og Steinunn er lífsráðgjafi og einkaþjálfari að mennt. Þau eiga tvö börn Þorberg Helga og Anítu Rún og  tvö barnabörn Ágúst Heiðar og Apríl Maríu. „Ömmu og afa hlutverkið er besta hlutverk í heimi og njótum við að stjana við þau þegar tími vinnst til.  Við erum Hólmarar í húð og hár og finnst okkur Stykkishólmur bærinn okkar við Breiðafjörðinn stærstu matarkistu landsins vera sá fallegasti á landinu og fólkið alveg dásamlegt,“ segir Steinunn sem gæti hvergi annars staðar hugsað sér að búa.

Narfeyrarstofa fallegur veitingastaður á Stykkishólmi i í einstöku húsi sem …
Narfeyrarstofa fallegur veitingastaður á Stykkishólmi i í einstöku húsi sem á sér mikla sögu og staðsettur í hjarta bæjarins. Ljósmynd/Thelma Harðardóttir

Hús með sál og sögu

Veitingahúsið Narfeyrarstofa hefur verið starfrækt frá árinu 2001 og eins og áður sagði er það staðsett í gamla bænum í miðbæ Stykkishólms. Húsið er byggt á árunum 1901-1906 og með því fylgir gömul sál með langa sögu. Veitingastaðurinn sjálfur er á tveimur hæðum en í kjallara hússins er nú að finna vínstúku sem innblásinn er af litum úr íslenskri náttúru og tímalausum stíl sem hæfir húsinu vel. Birta flæðir inn veitingasalina í gegnum tignarlega glugga hússins. Fylgir því glæsilegt útsýni yfir gamla bæinn og höfnina, sérstaklega af efri hæð hússins. 

Steinunn og Sæþór hafa gert staðinn að sínum og gert húsið upp af mikill kostgæfni. „Við festum kaup á Narfeyrarstofu árið 2001, þá búin að eignast tvö börn og stóðum á krossgötum. Sæþór hafði verið yfirkokkur og svo síðar hótelstjóri hjá Fosshótel Stykkishólmi og vorum við líka með í handraðanum að fara jafnvel út til Noregs að prófa að vinna þar í veitingabransanum. Þá vorum við spurð hvort við myndum vilja kaupa Narfeyrarstofu. Við ákváðum að gera það og sjáum ekki eftir því, þó svo að ansi margir hafi ekki haft trú á ferðaþjónustunni á þessum tíma og hvað þá þessu verkefni,“ segir Steina og bætir því við að þau hafi aldrei látið neinn eða neitt stoppa þau í því sem þau hafa tekið sér fyrir hendur. Ef okkur finnst hugmyndin vera góð sem okkur dettur í hug og sérstaklega ef við höldum að hún geti orðið skemmtileg, þá er ekki hægt að snúa okkur. Við byrjuðum á því að hafa aðeins miðhæðina opna í um það bil tvö ár og fengum einn starfsmann með okkur. Síðan ákváðum við að breyta efstu hæðinni sem þá var íbúð í sal til að fjölga sætum og það gerðum við árið 2004. Á sama tíma réðum við inn fleira starfsfólk. Einnig stækkuðum við eldhúsið okkar sem var í upphafi aðeins sjö fermetrar í fjörutíu fermetra.

Fjölskyldan hefur blómstrað saman á Narfeyrarstofu og börnin byrjuð starfsferil …
Fjölskyldan hefur blómstrað saman á Narfeyrarstofu og börnin byrjuð starfsferil sinn þar. Ljósmynd/Thelma Harðardóttir

Börnin byrjuð starfsferilinn á Narfeyrarstofu

Fjölskyldan hefur verið afar samhent í rekstrinum og allir tekið þátt. „Börnin okkar byrjuðu bæði sinn starfsferil hjá okkur, 8 ára gömul í uppvaski. Þorbergur Helgi endaði svo á að læra matreiðslu hjá okkur og er nú menntaður sem slíkur og er yfirkokkur hjá Fosshótel Stykkishólmi. Aníta fór og aðstoðaði í sal 16 ára og ákvað svo að flytja úr landi og er nú lærð sem Osteopati og vinnur í London. Narfeyrarstofa hefur alltaf verið rekið sem fjölskyldu fyrirtæki enda höfum við alla tíð verið ákaflega heppinn með okkar starfsfólk. Þau eiga mikinn þátt í því hvar Narfeyrarstofa stendur í dag og tengsl okkar við okkar gamla starfsfólk, sem er orðið fullorðið fólk í dag og búið að koma sér upp fjölskyldu eru mjög góð. Narfeyrarstofa er sem heimili okkar allra og tengslin eru órjúfanleg. Allt okkar starfsfólk sem við köllum börnin okkar munu alltaf eiga stóran stað í hjarta okkar.

Vínstúkan er ný viðbót við staðinn og er í kjallara …
Vínstúkan er ný viðbót við staðinn og er í kjallara hússins. Stórglæsileg í alla staðið. Ljósmynd/Thelma Harðardóttir

Vínstúkan í kjallara hússins 

Árið 2022 opnuðum hjónin Vínstúku í kjallara hússins sem hefur notið mikilla vinsælda en hún sameinar glæsilegan bar og huggulega setustofu. Við lögðum mikið upp úr góðri hljóðvist, notalegri stemningu og fallegu umhverfi. Að hluta til stendur húsið á hleðslu sem er yfir 200 ára gömul því að húsið var byggt ofan á sökkul að hluta til og fyrir neðan hleðsluna horfir fólk á klöpp sem var brotin niður þegar við vorum að búa til Vínstúkuna. Við erum afskaplega ánægð með útkomuna og gætum ekki án Vínstúkunnar verið í dag. Vínstúkan er mikið not og gestir okkar eru duglegir að mæta snemma og njóta nokkra drykkja áður en sest er til borðs eða gæða sé jafnvel á smáréttum af barmatseðlinum okkar. Við höfum verið að opna á sumrin í Vínstúkunni um miðjan dag og þá nýtist hún einnig fólki sem vill komast í góða drykki og smá meðlæti. Með þessu eignuðumst við líka frábært rými fyrir viðburði og höfum við verið dugleg við að nýta Vínstúkuna í slíkt. Við fengum frábæran innanhússarkitekt til að aðstoða okkur við þetta skemmtilega verkefni, hana Berglindi Berndsen,“ segja þau Steinunn og Sæþór.

Barinn er stórfenglegur og heiðurinn af hönnunni á Berglind Berndsen …
Barinn er stórfenglegur og heiðurinn af hönnunni á Berglind Berndsen innanhússarkitekt en hún hannaði Vínstúkuna í samráði við eigendur. Ljósmynd/Thelma Harðardóttir

Aðspurð segir Steinunn að það sér virkilega gaman að reka veitingastað í Stykkishólmi. „Stykkishólmur hefur lengi verið afar vinsæll áfangastaður hjá ferðafólki, enda mikið um að vera í bænum á löngu tímabili allan ársins hring. Friðsæld bæjarins og sérstaki byggingarstíllinn í gamla bænum hefur þau áhrif að erlendir ferðamenn sækja mikið hingað og verða að bera bæinn augum. Breiðafjörðurinn hefur líka sterkt aðdráttarafl, bæði fyrir íslenska og erlenda ferðamenn, enda mikið dýralíf í firðinum og margt að sjá og skoða. Afþreyingarþjónusta tengd Breiðafirði er því mikil á sumrin hér í bænum. Það er því ekki yfir neinu að kvarta að vera ferðaþjónustu í Stykkishólmi. Við höfum verið iðin við viðburðahald á veturna og reynum þá ekki síður að gera eitthvað skemmtilegt fyrir íbúa bæjarins,“ segir Steinunn.

Hráefnið er sótt í nærumhverfið, Breiðafjörðinn, sem er einstök og …
Hráefnið er sótt í nærumhverfið, Breiðafjörðinn, sem er einstök og gjöful matarkista. Nýr fiskur er ávallt á borðum. Ljósmynd/Thelma Harðardóttir

Matarkista Breiðafjarðar

Ástríða fyrir matargerðinni er mikil og Sæþór leggur mikinn metnað í að vera með gæða hráefni. „Við leggjum metnað okkar í að nýta úrvals hráefni úr héraði, bæði af landi og sjó. Matseðillinn ber þess svo sannarlega merki að við erum með matarkistu Breiðafjarðar í bakgarðinum og okkur þykir gaman að geta boðið upp á hráefni líkt og hörpudisk og bláskel „beint úr bakgarðinum“. Þá höfum við einnig þróað okkar eigin vinnsluaðferðir á kjöti úr eigin ræktun sem hefur vakið lukku. Fyrst og síðast viljum við bjóða gestum okkar upp á alvöru íslenska matarupplifun, þar sem hreinleiki íslenskrar náttúru og fjölbreytni hennar er í fyrirrúmi,“ segir Sæþór.

Það sem heillar matargestina fyrst og fremst eru gæði hráefnanna. „Gæði hráefnisins og að það komi úr okkar nánasta umhverfi og einstök framreiðsla á þeim er það sem við helst heyrum að heilli okkar gesti. Við leggjum mikið upp úr ríkri þjónustulund og leggjum áherslu á að hver gestur eigi einstaka matarupplifun þar sem tekið er tillit til hans þarfa. Andi hússins og yfirbragð spilar líka stóran þátt í að gera heildarupplifunina alveg einstaka,“ segir Steinunn. Það hefur verið mikið líf í sumar og þétt bókað alla daga vikunnar. „Við finnum svo sannarlega fyrir því að erlendir ferðamenn eru farnir að streyma aftur til landsins sem er afskaplega gaman. Það gleður okkur einnig hvað Íslendingar eru duglegir að halda áfram að ferðast innanlands. Stykkishólmur er ekki síður frábær áningarstaður fyrir íslenskar fjölskyldur enda margt að skoða og gera og eru þær einnig stór partur af okkar gestum,“ segja hjónin Steinunn og Sæþór sem njóta þess að vera í hlutverki gestgjafa í Stykkishólmi.

Töfrar fyrir bragðlaukana

Sæþór og Steinunn deila hér með lesendum uppskrift að einum af vinsælasta réttinum á matseðlinum, dýrindis bláskel sem kemur úr Breiðafirðinum. Þessi réttur eru hreinir töfrar fyrir bragðlaukana og ljúft að njóta. 

Breiðfirsk bláskel er í hávegum höfð á Narfeyrarstofu og nýtur …
Breiðfirsk bláskel er í hávegum höfð á Narfeyrarstofu og nýtur rétturinn mikill vinsælda meðal matargesta. Ljósmynd/Thelma Harðardóttir

Breiðfirsk bláskel

  • 500 g bláskel úr Breiðafirði
  • 6 hvítlauksgeirar
  • 1 stk. rauður chilli
  • Góð lúka ferskt kóríander
  • 1 tsk. cumin fræ
  • 1 tsk.  möluð kóríanderfræ
  • Ólífuolía eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að saxa hvítlauk, chilli og kóríander.
  2. Setjið síðan cumin og kóríanderfræ í þurran pott og hitið við meðalhita þangað kryddið fer að ilma vel þá bætið olíu.
  3. Bætið síðan við hvítlauk og chilli látið krauma.
  4. Setjið síðan bláskelina í pottinn, ef hún er fersk og góð þarf engan vökva.
  5. Setjið lok á pottinn og leyfið skelinni að opnast, hristið pottinn öðru hverju og gott er að hvolfa þessu milli potta.
  6. Kryddið til eftir smekk.
  7. Bætið við ferskum kóríander þegar bláskelin hefur opnast, fallegt að dreifa yfir bláskelina. Hellið síðan í fallega skál og berið fram með góðu snittubrauði til að dýfa í soðið.
  8. Njótið vel.
Réttirnir eru fallega bornir fram, eldaðir að ástríðu kokksins.
Réttirnir eru fallega bornir fram, eldaðir að ástríðu kokksins. Ljósmynd/Thelma Harðardóttir
Töfrar Breiðafjarðar lifna við á matseðlinum.
Töfrar Breiðafjarðar lifna við á matseðlinum. Ljósmynd/Thelma Harðardóttir
Steinahleðslurnar fá að njóta sín og setja svip sinn á …
Steinahleðslurnar fá að njóta sín og setja svip sinn á Vínstúkuna. Ljósmynd/Thelma Harðardóttir
Sumir myndu gera sér ferð bara til að fá að …
Sumir myndu gera sér ferð bara til að fá að gæða sér á þessari dásamlegu bláskel sem eru töfrar fyrir bragðlaukana. Ljósmynd/Thelma Harðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka