Nýbakaðar, ilmandi brauðbollur fyrir sælkera

Nýbakaðar, ilmandi brauðbollur eru góðar með mörgu eins og súpum, …
Nýbakaðar, ilmandi brauðbollur eru góðar með mörgu eins og súpum, salötum og pasta. Svo eru þær líka góðar einar og sér. Unsplash/ Karolina Kołodziejczak

Hér erum við með skothelda uppskrift að brauðbollum sem allir sælkerar munu elska. Það er ótrúlega gott að fá nýbakaðar brauðbollur þegar léttir réttir eru bornir fram eins og súpur, salöt eða pasta. Svo eru þær líka góðar einar og sér með smjör eða áleggi. Það má alveg leyfa sér stundum og njóta þess að fá sér nýbakað brauð sem ilmar og gleður matarhjartað.

Brauðbollur fyrir sælkera

16-18 stk.

  • 500 g brauðhveiti
  • 100 ml volgt vatn
  • 1 p þurrger
  • 2 msk. sykur
  • 2 msk. ólífuolía
  • Örlítið salt á milli fingra 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman vatni, geri og sykri og látið standa í fimm til tíu mínútur.
  2. Bætið við ólífuolíu og salti saman við og síðan hveitinu hægt og rólega, í skömmtum þar til deigið verður tilbúið.
  3. Stráið hveiti á borð eða mottu til að hnoða á.
  4. Hnoðið deigið á hveitistráðu yfirborðinu þar til deigið verður mjúkt og létt.
  5. Setjið deigið í skál smurða að innanverðu með ólífuolíu.
  6. Leggið viskastykki yfir og látið standa á hlýjum stað í um það bil klukkustund.
  7. Takið síðan deigið og mótið bollur úr deiginu, um það bil 16 – 18 stykki. Getið rúllað deiginu upp í pylsu og skorið í bita.
  8. Raðið brauðbollunum á plötu klædda bökunarpappír og hafið gott bil á milli þeirra.
  9. Látið hefast á plötunni í 45 mínútur til klukkustund.
  10. Hitið ofninn í 200°C hita.
  11. Setjið plötuna með bollunum inn í ofn og bakið í 15 til 20 mínútur við 200°C hita eða þar til bollurnar eru orðnar fallega gullinbrúnar.
  12. Berið fram með því sem hugurinn girnist og allra best að bera fram ylvolgar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert