Ljúffengur steiktur fiskur með bræddu hvítlaukssmjöri

Guðdómlega góður steiktur fiskur borinn fram með hvítlaukssmjöri og nýju …
Guðdómlega góður steiktur fiskur borinn fram með hvítlaukssmjöri og nýju ofnsteiktu smælki. Ljósmynd/María Gomez

Fiskur er herramanns matur og gaman að njóta þess að borða fisk þar sem bragðið lyftir manni upp á hæstu hæðir. Þessi maríneraði steikti fiskur er guðdómlega góður. Fiskurinn er í senn bragðmikill og auðveldur að gera. En galdurinn hér er að marínera fiskinn í hvítlauks grillolíu sem gefur tóninn. Þessi dásamlega uppskrift kemur úr smiðju eldhúsgyðjunnar og fagurkerans Maríu Gomez sem heldur úti matar- og lífsstílssíðunni Paz.is. Allt sem hún gerir er svo vandað, ljúffengt og fallega borið fram.

Því lengur sem fiskurinn liggur í maríneringunni, því betra. María hefur hann stundum yfir nótt eða frá morgni fram að kvöldverði í maríneringunni. Allra best er að leyfa fiskinum að marínerast í allavega 2-4 klukkustundir.

Maríneraður steiktur fiskur með bræddu hvítlaukssmjöri

Marínering

  • 1-2 dl Caj P BBQ olía með hvítlauk
  • 1 msk. sojasósa
  • 3-4 marin hvítlauksrif
  • 1 tsk. sítrónusafi
  • 1 msk. hunang
  • Klípa af grófu salti
  • pipar
  • smá chiliflögur (val ef þið viljið hafa fiskinn sterkan)
  • 500 g hvítur fiskur, þorskhnakkar eða ýsa

Bráðið hvítlaukssmjör

  • 80 g smjör
  • 3 marin hvítlauksrif
  • ½ msk. nýkreistur sítrónusafi
  • 2 tsk. þurrkuð steinselja

Annað

  • 1 dl maizena mjöl eða kartöflumjöl og meira ef þarf
  • 4 msk. góð matarolía en það er líka gott að nota 3 msk. matarolíu og 1 msk. sesamolíu

Aðferð:

  1. Setjið Caj p grillolíuna í grunna skál og merjið hvítlauksrifin út í (hristið Caj P olíuna vel áður en sett er í skálina).
  2. Blandið svo restinni af innihaldsefnum úr maríneringunni saman við og hrærið vel saman.
  3. Leggið fiskinn á eldhúspappír til að ná sem mestum raka úr honum og skerið hann svo í langa mjóa bita.
  4. Setjið fiskbitana út í maríneringuna helst í 2-4 klst í ísskáp,  best ef hægt er yfir nótt eða frá morgni að kvöldmatartíma.
  5. Þegar steikja á fiskinn setjið þá maizena eða kartöflumjöl á matardisk.
  6. Hitið svo olíu á pönnu og veltið einum fiskbita í einu upp úr mjölinu (passa að láta sem mest af maríneringunni leka af fiskinum) og setjið svo beint út í heita olíuna.
  7. Steikið fiskinn þar til hann hefur fengið á sig fallegan appelsínugylltan lit og setjið svo á disk með eldhúspappír á til að umfram olía fari í pappann.
  8. Meðan fiskurinn er steiktur er gott að gera hvítlaukssmjörið til á meðan.
  9. Setjið smjörið í pott og bræðið en ekki sjóða, slökkvið undir þegar smjörið hefur bráðnað
  10. Merjið næst hvítlauksrifin út í smjörið og setjið restina af hráefnum saman við og hrærið vel saman, setjið í skál og leggið til hliðar.
  11. Þegar fiskurinn er til og kominn á disk er best að hella hvítlaukssmjörinu yfir hann heitan og bera afganginn af smjörinu fram með réttinum.
  12. Maríu finnst best að hafa ofnbakað smælki velt upp úr olíu og salti með honum og hella hvítlaukssmjörinu yfir þær líka þegar þær eru til.
  13. Berið fram á fallegan og aðlaðandi hátt.
Fiskurinn er stökkur og bragðgóður.
Fiskurinn er stökkur og bragðgóður. Ljósmynd/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert