Karen Jónsdóttir frumkvöðull, alla jafna kölluð Kaja ljóstrar hér upp sínum matarvenjum og siðum. Kaja á og rekur Matarbúr Kaju, Kaja Organic og Café Kaju og trúir því staðfastlega að við séum það sem við borðum og með þann boðskap stofnaði hún fyrirtækin sín sem hafa blómstrað á Skaganum síðastliðin ár.
Hún elskar mat og matargerð en þolir ekki að fara eftir uppskriftum. „Mér finnst gaman að prufa eitthvað nýtt en oft fara matartilraunirnar mínar ekki vel í mannskapinn heima fyrir,“ segir Kaja og hlær.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég er að reyna að læra að borða morgunmat, ég hlustaði á viðtalið við Hallgrím heitinn þar sem hann sagði að maður ætti að borða eins og keisari á morgnana, eins og millistétta maður í hádeginu og fátæklingur seinnipartinn. Og ef maður vill gera vel við lifrina sína þá ætti maður að hætta að borða eftir klukkan fimm á daginn. Ég er að prufa þetta og athuga hvort Covid bumban fari ekki, það er býsna gott að geta kennt einhverju um. Þessa dagana er ég að þreifa fyrir mér með morgunmatinn en finnst það ekkert sérstaklega spennandi. Ég enda oftast í múslí með kókos og rúsínum frá henni Kaju.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Þegar ég er í vinnunni gleymi ég iðulega að borða þannig að það er lítið um millimál en ég á alltaf súkkulaði til að grípa í ef ég uppgötva svengd. Ég fer oftast í 100% súkkulaði. Ég heyrði nefnilega að það væri söluhæsta súkkulaðið í Frakklandi og ástæðuna mætti rekja til blaðagreinar sem einn læknir skrifaði. Hann vildi meina að ef maður borðar bita af 100% súkkulaði fyrir mat þá á það að minnka matarlystina og auka brennsluna, síðan er súkkulaði góð forvörn við sykursýki. Ásdís grasalæknir staðfesti hollustu súkkulaðis á sínum súkkulaði námskeiðum. Ef ég er heima þá gríp ég iðulega í lífrænt pink rose epli með tahini, sem er hreint sælgæti. Ég varð enn þá hrifnari af tahini þegar ég las að tahini inniheldur öll nauðsynleg prótein sem líkaminn framleiðir ekki, nú set ég alltaf tahini í bústinn minn.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Ég er í þannig vinnu að það er ekki regla á neinu hjá mér, því miður, en ég veit að það er ómissandi. Þegar ég hef vit á að fá mér hádegisverð þá finnst mér afskaplega gott að fá gott salat, en döðlubitar og graskersfræ verða að fylgja með. Siðan er það sniðugasta og fljótlegast sem ég veit er að hita Kaju mexíkósúpu og setja chili túnfisk út í. Sem ég ber síðan fram með osti, bragðgott og rífur vel í.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Jurtamjólk, rauðrófusafa, gulrótasafa, pressaðan engifer, smjör og Kaju mexíkósúpu.“
Uppáhalds grillmaturinn þinn?
„Kartöflur og sveppir, ég get sleppt öllu hinu ef þetta tvennt fer á grillið og ekki skemmir ef Bernaise sósan hans Kidda pípara fylgir með.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?
„Ég er afskaplega heimakær og fer mjög sjaldan út að borða en ef ég fer hér á Skaganum þá er það Galitó. Þar sem að mitt sumarfrí er yfirleitt í nóvember og febrúar förum við hjónin ávallt erlendis og þá er það alltaf til Mogan á Gran Canaria. Þar fann ég frábæran veitingastað sem heitir Restaurant Casito Mediterraneo. Þýsku hjónin sem eiga og reka staðinn eru snillingar í að blanda saman Miðjarðarhafs matargerð við Evrópska matargerð. Síðan er planið þegar ég loka kaffihúsinu og hef meiri tíma aflögu, að fara á nokkra vel valda staði, sérstaklega Michelin staðina okkar Íslendinga.“
Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á bucket-listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?
„Já, það er michelin veitingastaður í Mogan sem mig dreymir að fara á, reyni að taka hann í næstu ferð.“
Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?
„Það var í Portúgal, fyrsta skiptið sem við fórum með krakkana út, röltum upp einhverja götu og settumst inn á veitingastað sem var út úr allri túristaumferð og pöntuðum sjávarrétt. Þjóninn lagði á borð og við fengum nett áfall því við fengum allskonar áhöld sem við höfðum ekki hugmynd um hvað við ættum að gera við. Við fórum að velta því fyrir okkur hvað í fjáranum við hefðum pantað. Síðan fengum fullan pott af hrísgrjónum og allskonar sjávarfangi, má þar nefna krabba, skeljar og Guð veit hvað. Maturinn var hrikalega góður og mikil skemmtun að reyna að borða með þessum nýju verkfærum, get ekki gleymt þessu augnabliki.“
Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?
„Ég hef sennilega ekki smakkað það enn.“
Uppáhaldskokkurinn þinn?
„Kiddi pípari að sjálfsögðu.“
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Þar sem ég er að minnka kaffidrykkjuna þá er ég öll í túrmerik latte eða gullmjólkinni. Þá er haframjólk barista og Kaju gullmjólk blandað saman og blandan hituð í potti. Hún rífur vel í og er tær snilld og fínt að njóta hennar eftir klukkan fimm á daginn.“
Ertu góður kokkur?
„Þegar ég hitti á það þá er ég það.“