Lúxus útgáfan af Egg Benedict

Hátíðlegur og rómantískur morgunverður, lúxus Eggs Benedict eða eins og …
Hátíðlegur og rómantískur morgunverður, lúxus Eggs Benedict eða eins og sumir kalla hann, konunglega útgáfan af Eggs Benedict. Unsplash/John Baker

Egg Benedict er þekktur morgunverðarréttur um allan heim og nýtur mikilla vinsælda. Morgunverðurinn samanstendur af hleyptu eggi á brauð, með lúxus skinku og löðrandi hollandaise sósu. Lúxus útgáfan af þessum rétti, sem sumir kalla konunglega Egg Benedict, er með reyktum laxi í staðinn fyrir skinku. Þetta er sá morgunverður sem er upplagt að gleðja ástina með upp í rúm ásamt glasi af ljúffengu kampavíni, hvort sem það er áfengt eða óáfengt. Það er þessi hátíðleiki og rómantík sem svífur yfir með þessum morgunverðarrétti og bræðir öll hjörtu sem elska egg og reyktan lax.

Lúxus Eggs Benedict

Hleypt egg

  • 2 egg
  • 2 sneiðar af brauði, brauðbollu, english toast eða súrdeigsbrauði
  • 4 sneiðar af reyktum laxi
  • Ferskar sprettur af eigin vali
  • Gróft saxaður graslaukur
  • Borðedik

Hollandaise sósa

  • 125 g smjör
  • 2 eggjarauður
  • 1 tsk. hvítvínsedik
  • 1-3 tsk. ferskur sítrónusafi
  • cayennepipar eftir smekk
  • örlítið sjávarsalt eftir smekk

Meðlæti og skraut á disk

  • Fersk salat
  • Ólífur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja vatn í pott og hitið að suðu.
  2. Brjótið egg í skál.
  3. Bætið við 1-2 dropum af ediki.
  4. Hrærið aðeins í vatninu í pottinum þannig að það snúist í hringi. Það hjálpar til þegar á að útbúa hleypt egg, umvefur guluna í eggjahvítunni.
  5. Lækkið hitann undir vatninu niður í meðalhita og hellið egginu rólega út í vatnið.
  6. Sjóðið á vægum hita í 3 til 4 mínútur áður en eggið er tekið aftur upp úr vatninu.
  7. Útbúið tvö hleypt egg með þessum hætti.
  8. Geymið á disk meðan brauðið er grillað/ristað og sósan kláruð.
  9. Byrjið síðan á því að gera Hollandaise sósuna og bræðið smjörið.
  10. Setjið eggjarauður í skál sem liggur yfir vatnsbaði á lágum hita.
  11. Pískið eggjarauðurnar og hellið edikinu út í.
  12. Haldið áfram að píska eggjarauðurnar saman við edikið og byrjið síðan hægt og rólega að hella brædda smjörinu út í í skálina með eggjarauðunum.
  13. Takið sósuna af hitanum og bætið sítrónusafa og cayennepipar út í, hrærið vel.
  14. Bragðbætið með salti eftir smekk.
  15. Grillið eða ristið tvær brauðsneiðar og smyrjið með smjöri ef vill.
  16. Leggið tvær fallegar sneiðar af laxi ofan á hvora brauðsneið, setjið síðan hleyptu eggin ofan á sitt hvora brauðsneiðina.
  17. Hellið loks sósunni yfir. Skreytið með ferskum sprettum og söxuðum graslauk yfir sósuna.
  18. Skreytið diskinn með smá fersku salati og ólífum eða sem ykkur finnst fallegt og gott.
  19. Berið fallega fram með kampavínsglasi eða nýkreistum appelsínusafa.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert