Grænmetið úr garðinum í uppáhaldsréttinn hjá mæðgunum

Mæðgurnar Solla Eiríksdóttir og Hildur Ársælsdóttir eru miklar áhugamanneskjur um …
Mæðgurnar Solla Eiríksdóttir og Hildur Ársælsdóttir eru miklar áhugamanneskjur um grænmetismatargerð og ræktun. Garðurinn þeirra er fullur að fersku og fallegu grænmeti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mæðgurnar Solla Eiríksdóttir grænkeri með meiru og dóttir hennar Hildur Ársælsdóttir eru með mikinn áhuga á grænmetismatargerð og ræktun. Þær eru þekktar fyrir að galdra fram dýrindis grænmetisrétti og hugmyndaauðgi þeirra í samsetningu á réttum er drjúgur. Þær halda vinsæl námskeið þar sem þær kenna að elda góðan mat úr jurtaríkinu og gefa innblástur til að borða meira grænmeti hvort sem fólk er grænmetisætur eða ekki.

Ný uppskera í hús

Þessa dagana er uppskera að koma í hús og verslanir og fjölbreytnin í grænmetisræktun á Íslandi hefur aldrei verið meiri. Ekkert er betra enn fersk og ný uppskera og nú er tíminn til að njóta hennar. Við á matarvefnum fengu mæðgurnar til að svipta hulunni af þeirra uppáhaldshaustrétti þessa dagana. 

Við erum báðar með garðskika þar sem við ræktum ýmislegt grænmeti og því er haustið í miklu uppáhaldi enda finnst okkur fátt betra en að elda úr nýuppteknu grænmeti og þá verða til fullt af nýjum og girnilegum uppskriftum. Við elskum líka að búðirnar fyllast af íslensku grænmeti og nýtum við okkur það óspart,“ segir Solla.

Grænmetið úr garðinum þeirra

Mæðgurnar bjóða upp á uppskrift að linsupönnukökum fylltum með nýju og ljúffengu grænmeti eins og það gerist best.

Þessi uppskrift er í uppáhaldi hjá okkur því við erum báðar hrifnar af linsum. Á námskeiðunum okkar kennum við m.a. að búa til tófu úr rauðum linsum og eru þessar pönnukökur innblásnar af því. Grænmetið í fyllingunni er allt úr garðinum hjá okkur en auðvelt er að kaupa nýtt íslenskt grænmeti út í búð,“ segir Hildur.

Vert er að geta þess að næstu námskeið hjá mægðunum verða í byrjun september og hægt er að fylgjast með @maedgurnar á Instagram eða facebook til að fá upplýsingar um námskeiðin.

Ekkert er betra en ný uppskera í matargerðina á þessum …
Ekkert er betra en ný uppskera í matargerðina á þessum árstíma. Blómkál og brokkólí er meðal þess sem mæðgurnar nota. Samsett mynd

Linsupönnukökur með fyllingu

Fyrir 4

Pönnukökur (gerir um 8 pönnukökur)

  • 250 g rauðar linsur
  • ½ l sjóðandi vatn
  • 1 msk. + 1 tsk. ólífuolía
  • 1 tsk. sjávarsaltflögur
  • 2 msk. ferskar kryddjurtir að eigin vali, t.d. ferskur kóríander og timian
  • Olía til steikingar

Aðferð:

  1. Setjið linsurnar í bleyti í ½ sjóðandi vatni í svona 15-20 mínútur í blandarakönnu.
  2. Bætið restinni af uppskriftinni út í og blandið þar til orðið alveg silkimjúkt.
  3. Hitið smá olíu á pönnu, hafið pönnuna miðlungs heita, ef hún er of heit brennur deigið auðveldlega).
  4. Látið um 1 dl af deigi á pönnuna í einu, dreifið úr deiginu með spaða eða bak hliðinni á skeið. Bakið í 1-2 mínútur á hvorri hlið.

Fylling

  • 1 lítið blómkálshöfuð, skorið í lítil blóm
  • 1 lítið brokkolíhöfuð; skorið í litla bita
  • 100 g hvítkál, skorið í strimla
  • 1 ½ msk. ólífuolía
  • 1 tsk. sjávarsaltflögur
  • ½ tsk. cuminduft
  • ½ tsk. chiilflögur 

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C.
  2. Setjið bökunarpappír á ofnskúffu.
  3. Setjið grænmetið á og veltið upp úr olíunni og kryddið.
  4. Bakið við 200°C í 8-10 mínútur.
  5. Takið til hliðar til að setja á pönnukökurnar með rest af grænmeti er eldað og sósan löguð.

Grænmetisfylling og sósa

  • 4 gulrætur, rifnar
  • ferskt salat eða spínat, rifið niður
  • 1 dl þykk jógúrt eða sýrður rjómi (hægt að fá bæði Vegan)
  • 2 mskferskar kryddjurtir að eigin vali
  • 1 hvítlauksrif
  • smá salt og pipar

Aðferð og samsetning:

  1. Hitið ofninn í 200°C.
  2. Bakið grænmetið í ofninum á ofnplötu klædda bökunarpappír.
  3. Rífið niður gulrætur, hrærið kryddjurtum og jógúrt/sýrðum rjóma saman og kryddið til.
  4. Setjið grænmeti og sósu á hverja pönnuköku fyrir sig og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert