Andrea á veitingastaðnum OTO uppljóstrar matarvenjum sínum

Að þessu sinni er það Andrea Ylfa Guðrúnardóttir veitingastjóri á …
Að þessu sinni er það Andrea Ylfa Guðrúnardóttir veitingastjóri á veitingastaðnum OTO uppljóstrar matarvenjum sínum og hefðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Andrea Ylfa Guðrúnardóttir, veitingastjóri á veitingastaðnum OTO, sviptir hulunni af sínum matarvenjum að þessu sinni. Andrea er framreiðslumeistari og keppti einmit í framreiðslu fyrir Íslands hönd í keppninni Nordic Waiter & Nordic Chef í byrjun sumars. Keppnin er haldin ár hvert og fór að þessu sinni fram í Hell í Noregi dagana en hún hreppti fjórða sætið að þessu sinni sem er frábær árangur í hennar fagi.

Mikið fyrir heimagerðan mat

Andrea er líka mikill matgæðingur og nýtur þess að snæða ljúffengan mat og ekki síst að læra af kokkunum sem hún starfar með. Hún hefur ástríðu fyrir starfi sínu og umhverfinu sem fylgir því. „Ég kem úr Mývatnssveitinni, þar sem mikið er um heimagerðan mat og ég hef mjög gaman af matargerð. Í sveitinni búum við til eigin sultur, hverabrauð, veiðum ferskan silung úr Mývatni og matreiðum á ýmsan hátt,“ segir Andrea og er iðin við að halda í hefðirnar úr bernsku.

Ég fæ mér oftast hafragraut með frosnum bláberjum og sykurlausri salt karamellu sósu en heima í sveitinni fáum við okkur alltaf hafragraut með súru slátri. Ég held að það sé ekki endilega fyrir alla,“ segir Andrea og hlær.

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Oftast er það hleðsla eða næring+.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Í veitingabransanum er erfitt að halda rútínu og borða á hefðbundnum tíma. Oftar en ekki er morgunmaturinn hádegismatur hjá okkur.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Skyr, froosh, ávexti og eitthvað tilbúið til að grípa með á leiðinni út úr húsi.“

Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?

„Grillað svínakjöt.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?

„Sumac er einn af mínum uppáhaldsstöðum, Skál á Hlemmi er líka frábær staður. Það er líka fullt af nýjum stöðum sem mig langar til að prófa, til dæmis eins og Skreið og Bon, sem eru báðir staðsettir á Laugaveginum.“

Geranium og Frantzén efst á óskalistanum

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á „bucket-listanum“ yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Geranium og Frantzén eru staðir sem eru efst á óskalistanum hjá mér. Geranium er með 3 Michelin-stjörnur og er í Kaupmannahöfn, þeir hafa unnið titilinn besti veitingastaður í heimi nokkrum sinnum. Frantzén er líka með 3 Michelin-stjörnur og er staðsettur í Stokkhólmi.“ 

Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?

„Það er veitingastaður í Þrándheimi. Hann heitir Speilsalen og er með 1 Michelin-stjörnu. Þau eru staðsett á 5 stjörnu lúxushóteli, Britannia Hotel. Þau vinna með þemað nútímaeldhhús og eru einnig með kavíarbar. Maturinn og þjónustan eru á hærra plani.“

Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?

„Ég kem úr sveit og þar borðum við mikið af sveitamat. Það versta sem ég hef smakkað eru kæst egg. Sveitafólk borðar þetta af bestu lyst af einhverjum ástæðum.“

Uppáhaldskokkurinn þinn?

„Ég verð að segja Sigurður Laufdal, ávallt kallaður Siggi Lauf, og Micaela Ajanti, sem eru með mér á OTO veitingastað. Svo er uppáhaldskonditorinn eftirréttakokkurinn Ólöf Ólafs, ég hef mjög gaman af því að læra af henni.“

Ertu góður kokkur?

„Ég er mjög góð í að elda þó ég segi sjálf frá, ég hef mjög gaman af því að læra af kokkunum í vinnunni og einnig að baka, þar liggur áhuginn minn mest og hef ég gaman af því að prófa nýjar uppskriftir og útbúa krefjandi eftirrétti.“

Andrea Ylfa er mikið fyrir heimargerðan mat og er frá …
Andrea Ylfa er mikið fyrir heimargerðan mat og er frá Mývatnssveit. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert